M erkilegt hvað englar láta sig borg englanna lítið varða. Venice Beach, Echo Park, Beverly Hills, Hollywood, miðbærinn. Það er sama hvert litið er í Los Angeles þessi dægrin. Heimilislaust fólk er búið að tileinka sér marga af helstu ferðamannastöðum borgarinnar.

Það aldrei verið fullkomlega öruggt að rölta um hverfi Los Angeles en nú á dögum má allt ferðafólk fótum sínum fjör launa. Heimilislaust fólk, sem oft á tíðum eru fíklar og eða heilabilað fólk, hefur komið sér fyrir á velflestum helstu ferðamannastöðum í borginni og truflar þar bæði heimamenn og ferðafólk daginn út og inn.

Tæplega 400 heimilislausir dúlla sér nú í tjöldum sínum á hinni frægu Venice Beach. Skjáskot

Þeir sem þekkja borgina vita að undanfarin 20 ár eða svo hafa heimilislausir fengið að koma sér fyrir á tilteknu svæði í miðborginni í grennd við hjálparmiðstöðvar. Það svæði, sem nær yfir tíu götur, fengið nafnið Skid Row fyrir vikið og enginn heilvita ferðamaður röltir þar um án þess að eiga sér ósk um hrottafenginn dauða.

En það dugði ekki til.

Ekki aðeins er setið um hvert gangstéttarpláss í Skid Row heldur er þar mafía líka sem heimtar leigugjöld af hverjum þeim sem þar sest niður. Sem eru ástæður þess að tjöld og dýnur heimilislausra finnast nú víða um borgina og ekki hvað síst á vinsælum ferðamannastöðum.

Stjörnustræti Hollywood er toppstaður til að leggja sig virðist vera. Skjáskot

Yfir 400 hafa búið um sig á vinsælustu strönd Kaliforníu, Venice Beach, sem velþekkt er úr fjölda kvikmynda. Tæplega 200 manns leggja sig hvert kvöld á Hollywood Boulevard þar sem stjörnurnar eru greyptar í gangstéttina. Hinn fallegi Echo Park er troðin af tjöldum þeirra sem þar búa og meira að segja í Beverly Hills ríka fólksins eru heimilislausir algeng sjón fyrir utan Gucci og Burberry´s og aðrar slíkar verslanir.

Samkvæmt fréttamiðlum vestra eru kringum 50 þúsund manns heimilislausir í Los Angeles einni saman þegar þetta er skrifað. Afar líklegt verður að teljast að fjölga muni drjúgt í þeim hópi á næstu misserum því milljónir hafa misst vinnu í Kófinu og þar sem 70% Bandaríkjamanna tóra á hverjum einasta launaseðli, má slá föstu að heimilislausum muni fjölga til muna.

Los Angeles er allavega langt frá því að vera spennandi áfangastaður þessi dægrin.