V arsjá er ansi merkileg borg. Merkileg að því leytinu til að hún hefur yfir sér sama jákvæða sjarma og margar skemmtilegar miðaldaborgir Evrópu. Nema hvað Varsjá var lögð í rúst í Seinni heimsstyrjöldinni. Rúst með stóru erri því níu af hverjum tíu byggingum í borginni þá voru jafnaðar við jörðu. Engin önnur borg fékk sömu útreið, ekki einu sinni Dresden í Þýskalandi, og það stórkostlega er að sá sem heimsækir Varsjá í dag verður þess ekkert var.

Varsjá, Warzawa á frummálinu, er höfuðborg Póllands og stærsta borg landsins með 1.8 milljón íbúa. Borgin hefur tekið stakkaskiptum á síðustu áratugum en þó eimir enn töluvert af sovéskum áhrifum og lýsingarorðið fögur á ekki við um Varsjá. Heillandi er hún samt enda Pólverjar góðir heim að sækja þó sitt sýnist fólki um þá utan föðurlandsins.

Tilfinning fyrir Varsjá fæst ekki með stuttri borgarheimsókn eins og sumir ferðaþjónustuaðilar á Íslandi virðast halda. Varsjá er merkilegri en það og vika hér hið minnsta réttlætir yfirlýsingar um að þekkja borgina að ráði.

Sé eitthvað kannski sem sker sérstaklega í augu gesta er það mögulega að kapítalismi hefur greinilega flætt yfir borgina á miklum hraða. Þannig er borgarskipulagið á köflum eins og út úr kú með nýtísku glerbyggingar við hlið aldinna halla í barrokkstíl og borgin tekur enn miklum breytingum. Sú Varsjá sem heimsótt var fyrir tíu árum er vart þekkjanleg og líkur á að eftir tíu ár verði Varsjá nútímans vart kunnugleg heldur.

Loftslag og ljúflegheit

Veturnir geta verið nokkuð kaldranalegir í Varsjá og er meðalhitastig yfir vetrarmánuðina undir frostmarki. Sumrin þægileg og hitastig oftast milli 20 og 24 gráða þótt stöku sólríkir dagar hleypi hitanum upp yfir 30 stig þegar best lætur. Langbesti tíminn til heimsóknar er á vorin eða haustin þegar hitinn er enn þægilegur og hópar ferðamanna ekki til staðar.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllur Varsjár er kenndur við tónskáldið fræga Frederic Chopin og er staðsettur í tíu kílómetra fjarlægð frá borgarmörkunum. Frederic Chopin flugvöllur, Port Lotniczy im Frederica Chopina á frummálinu, er þokkalega nútímalegur. Hann samanstendur af þremur flugstöðvarbyggingum 1,2 og 3. Farþegar velflestra komuvéla fara um byggingu 1 og 2 en annað gildir um brottfarir. Best er að vita það með fyrirvara til að lenda ekki í vandræðum enda þótt stutt sé á milli stöðvanna. Lágfargjaldaflugfélög mörg notast aðeins við byggingu 3 sem er lökust hvað varðar þjónustu og verslanir.

Tvær strætisvagnaleiðir ganga frá flugvellinum inn í borgina. Vagn númer 175 fer alveg niður í miðborg með stoppi á helstu hótelum á leiðinni. Vagnar númeraðir 188 fara í vesturhluta Varsjár en fara skammt frá miðborginni. Þeir eru betri til brúksins sé hugmyndin að taka jarðlest í kjölfarið. Gera má ráð fyrir að rúnturinn aðra leið taki að lágmarki 30 mínútur og allt að 50 mínútum á annatímum. Hver ferð kostar 140 krónur.

Leigubíll í miðborgina á dagtaxta ætti ekki að kosta meira en 2200 krónur en tvöfalt það á kvöld- eða næturtaxta. Forðast skal leigubílstjóra sem reyna að ná viðskiptum inni í flugstöðinni. Eru það venjulega bílstjórar án tilskilinna leyfa og reynsla ferðamanna sú að þeir reynast dýrari þegar til kemur. Nóg er af bílum fyrir utan flugbyggingu 1.

Rútur eru möguleiki og eitt slíkt fyrirtæki ekur ferðamönnum inn í miðborgina. Þeir eru reyndar ekki fljótari í förum en strætisvagnar og ganga aðeins á 45 mínútna fresti. Ferð í bæinn kostar 460 krónur.

Samgöngur og skottúrar

Samgöngukerfið innan borgarmarkanna er ágætt á evrópskan mælikvarða. Frábært á íslenskan. Samanstendur það af sporvögnum, jarðlestum og strætisvögnum.

Strætisvagnar ganga misjafnt eftir leiðum en í miðborginni og nálægum hverfum er 20 mínútna bið að hámarki.  Þeir ganga frá 5 á morgnana til 23 á kvöldin en þá taka við næturvagnar sem eru flestir aðeins á klukkustundar fresti. Hraðvagnar stoppa aðeins á helstu stöðvum og eru merktir með E fyrir framan númerið. Hvert stakt far kostar 110 krónur og kaupa þarf miða í sjoppum ellegar hjá bílstjórunum sjálfum. Töluvert ódýrara er að kaupa dagskort eða vikukort ef nota á almenningssamgöngur til að þvælast mikið um. Slíkir miðar fást í sjoppum.

Jarðlestakerfið borgarinnar samanstendur af einni línu sem reyndar nýtist ferðamönnum ekki ýkja vel enda fer sú lítið um áhugaverða staði heldur fyrst og fremst úr viðskiptahverfi borgarinnar. Leiðakerfi á heimasíðu Metro Warszawskie sem því miður er aðeins á pólsku. Lestir ganga frá 5 á morgnana til miðnættis og til 3 á næturnar um helgar og er að hámarki sex mínútna bið milli lesta. Bæði lestirnar og stöðvar eru hreinar og tiltölulega öruggar. Kort hér. Miðaverð fyrir stakan miða er 110 krónur milli 9 og 14 alla daga en utan þess tíma er miðavert 160 krónur.

Sporvagnar eru líka í Varsjá og eru sennilega þægilegasti mátinn að kynnast borginni raunverulega á hægum og rólegum hraða. Sérstaklega getur verið eftirsóknarvert að fara með þeim hætti um miðborgina. Miðaverð hið sama og í jarðlestirnar. Finna má allar upplýsingar um fjölda ferða og leiðakort á biðstöðvum. Hafa skal í huga að sporvagnarnir á annatíma eru pakkaðir grimmilegar en baunir í Ora dós.

Bátar fara reglulegar ferðir um ánna Vislu og þó formlega sé um almenningsfarartæki að ræða er þetta í raun ferðamannamiðuð þjónusta. Stoppað við fjóra staði og upphaf og endir bátsferðanna frá gamla bænum. Miðaverð er 650 krónur fyrir fullorðinn einstakling.

Bílaleigubíll er auðvitað í boði hér sem annars staðar en það er óráð hið mesta enda umferðarteppur í Varsjá verri en gengur og gerist í stærri borgum Evrópu. Þá þykir nudd ekkert tiltökumál fyrir heimamenn en bílaleigan gæti haft eitthvað við slíkt að athuga þegar bílnum er skilað. Þess vegna er verðlag á þeim frekar hátt og fyrirhafnarinnar alls ekki virði.

Söfn og sjónarspil

>> Uppreisnarsafnið (Muzeum Powstania Warszawskiego) – Hér er sögð saga hinnar frægu en hörmulegu uppreisnar borgarbúa í stríðslok í ágúst 1944 og er viðburður sem hver einasti Pólverji þekkir og syrgir. Þá lögðust þeir sem enn lifðu og höfðu þrek til í borginni til árásar gegn Þjóðverjum í borginni eftir fyrirmæli frá útlegðarstjórn Póllands í London. Það gaf uppreisnarmönnum vind í seglin að hinn Rauði her Sovétríkjanna var í augsýn og voru hópar hermanna staðsettir í úthverfi borgarinnar á þeim tíma. Uppreisn borgarbúa stóð í nokkrar vikur en var harkalega bæld niður og tugþúsundir létust. Hitler reiddist svo að hann skipaði fyrir um gjöreyðingu borgarinnar og gekk það eftir. Rauði herinn fylgdist með öllu saman úr fjarlægð í margar vikur en aðhafðist ekkert. Enn er ekki fyllilega ljóst hvers vegna Stalín sendi hermenn sína ekki borgarbúum til hjálpar. Á safninu er þessi saga rakin á myndrænan hátt. Ómissandi stopp. Strætisvagna 151 og 155. Opið daglega milli 8 og 18 en 10 – 18 um helgar. Aðgangur 130 krónur. Heimasíðan.

>> Sögusafn Varsjár (Muzeum Historyczne miasta stołecznego Warszawy) –  Leiki forvitni á nokkrum sköpuðum hlut varðandi Varsjá og nágrenni þá er henni svarað hér í þessu mikla og góða safni. Opið 10 – 15:30 virka daga nema mánudaga þegar er lokað. 10:30 til 16:30 um helgar. Aðgangur 380 krónur. Heimasíðan.

>> Bókmenntasafn Mickiewicz (Muzeum Literatury imienia Adama Mickiewicza) – Mickiewicz þessi sem safnið er kennt við var Shakespeare þeirra Pólverja. Kannski ekki spennandi nema fólk kunni skil á pólsku en safnið er á besta stað við gamla markaðstorgið og er þess virði að skoða aðeins fyrir húsnæðið. Opið daglega nema mánudaga 11 – 17. Heimasíðan.

>> Chopin safnið (Chopin Muzeum) – Fryderyk Chopin þekkja velflestir sem gengnir eru úr barndómi enda eitt af helstu og að margra mati bestu tónskálda sem uppi hafa verið. Hann er líka helsti sonur Varsjár og á þessu safni má sjá allt milli himins og jarðar sem mögulega tengist karli á einhvern hátt. Fróðlegt og skemmtilegt.  Í raun má tala um þrjú söfn í einu því tvö önnur söfn annars staðar í borginni tilheyra þessu sama safni. Annað þeirra er fæðingarstaður hans í götunni Zélazowa Wola. Þangað er þó í raun ekki mikið að sækja. Opið daglega 12 – 20. Aðgangseyrir 1000 krónur. Heimasíðan.

>> Wílanów höllin (Muzeum Palac w Wilanowie) – Pólverjar eiga sína eigin Versali og það er þessi höll sem er nánast á pari við hina frægari frönsku höll með 60 herbergi öll troðfull af munum sem fyrirfólk fyrri tíma gat ekki lifað án. Strætisvagn 116. Opið alla daga milli 9:30 og 16:30. Aðgangseyrir 900 krónur en 350 krónur fyrir að skoða garðinn. Heimasíðan.

>> Konunglegi kastalinn (Zamek Królewski) – Upprunalegt heimili konungs Póllands og glæsilegur kastali enn þann dag í dag. Engum sem skoðar dettur í hug að hér voru rústir einar árið 1945 en kastalinn var nákvæmlega endurbyggður og stendur vígalegur við bakka Vislu árinnar. Kastalanum er skipt í fernt og greitt er sérstaklega fyrir hverja og eina álmu. Jarðlest að Plac Bankowy og fimm mínútna rölt að árbakkanum. Opið 11 – 16 alla daga á sumrin. Verð að kastalanum öllum 2400 krónur. Heimasíðan.

>>  Gamli grafreiturinn (Cmentarz Powązkowski) – Þekktasti grafreitur borgarinnar og landsins alls enda eru hér grafnir allir helstu frammámenn þjóðarinnar og grafir og grafhýsi fjölmargra þekktra einstaklinga hér að sjá. Mörg grafhýsanna kostuleg listaverk. Sérstaklega er yfirþyrmandi að skoða grafreitinn 1. nóvember ár hvert þegar öll leiðin eru lýst upp með kertum. Spor eða strætisvagn að Powazkowski. Opinn alla daga milli 8 og 20.

>> Gettó minnismerkið (Pomnik Bohaterów Getta) – Fáir fóru verr út úr Seinni heimsstyrjöldinni en Pólverjar og hér er þeirra minnst sem létu lífið af hálfu Þjóðverja í borginni. Minnismerkið sjálft vel úr garði gert og staðsett skammt frá þeim stað sem óvinum Þriðja ríkisins var smalað upp í gripavagna sem héldu svo með fólkið í útrýmingarbúðir. Tilfinningaríkur staður fyrir heimamenn. Staðsett í gyðingahverfinu norðvestur af miðborginni.

>> Dómkirkja heilags Jóns (Katedra św. Jana) – Enginn trúrækinn maður getur látið hjá líða að kíkja oggustund inn í glæsilega dómkirkju Varsjár. Glæsileg bygging sem jöfnuð var við jörðu 1944 en endurbyggð nákvæmlega samkvæmt teikningum frá fjórtándu öld. Margir merkisviðburðir í sögu Póllands farið hér fram og þar ekki síst undirritun stjórnarskrár Póllands á sínum tíma. Sporvagnar 4 eða 13 að Swietojanska. Opin daglega 10 – 18.

>> Gamla markaðstorgið (Rynek Starego Miasta) – Miðbæjartorg Varsjár til forna og enn þann dag í dag vinsælasti áfangastaður ferðamanna í borginni. Torgið er á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna enda hefur tekist að viðhalda velflestu við þó vissulega setja nýtískuleg kaffihús og verslanir nú svip sinn á ásýndina.

>> Konunglegi baðgarðurinn (Park Łazienkowski) – Leiki einhverjum forvitni að vita hvernig kóngar og aðalsfólk lifði á árum áður er þessi yndislegi garður málið. Hér er stórglæsileg höll sem skoða má auk hinna ýmsu smáhýsa sem kóngar gátu ekki án verið. Allt í barrokkstíl og setur merkilegan svip á þennan garð nálægt miðborginni sem ítrekað kemst á lista ferðamanna yfir bestu staðina í borginni.

>> Gestapo dýflissan (Mauzoleum Walki i Meczenstwa) – Meðan borgin var hertekin í Seinni heimsstyrjöldinni var einn staður sem enginn vildi koma nálægt en það voru höfuðstöðvar þýsku leyniþjónustunnar Gestapo. Þar er í dag menntamálaráðuneytið en dýflissur þær eða pyntingarklefarnir sem notaðir voru við yfirheyrslur á sínum tíma eru þar enn eins og þær voru og þær hægt að skoða. Staðurinn er óhuggulegur mjög og best að eyðileggja ekki fallegan dag við þessar aðstæður. Ráðuneytið má finna í vesturhorni Konunglega baðgarðsins. Opið virka daga 10 – 16.

Verslun og viðskipti

Já og nei! Varsjá var til langs tíma jafn mikil verslunarborg og Selfoss er útgerðarbær. Þetta hefur tekið örum breytingum á fáum árum með vaxandi velmegun.

Finna má ýmis konar varning víða á borginni fyrir utan allar helstu verslanir sem þekktar eru alls staðar í heiminum. Verðin eru þó í dýrari kantinum almennt og lítið úrval af þessum litlu forvitnilegu búllum sem gera margar aðrar borgir svo spennandi til verslunar. Það kannski segir sitt að einar þrettán verslunarmiðstöðvar hafa risið í Varsjá á síðastliðnum fimmtán árum.

Þær helstu eru:

Matur og mjöður

Úrval veitingastaða í Varsjá hefur tekið örum breytingum undanfarna tvo áratugi. Fyrir þann tíma var hending að ferðamenn finndu veitingastað sem bragð var að enda pólskur matur almennt hvorki komist í sögubækur né kokkabækur. Það í raun hefur ekki breyst en það sem hefur breyst er aukinn fjöldi fjölþjóðlegra veitingastaða í borginni sem gefur ferðafólki aukið val.

Helst er að finna betri veitingastaði í miðborginni en að öðru leyti eru veitingastaðir of mikið á stangli til að vera þess virði að leita uppi.

Fyrir þá alhörðustu er til fjöldi pólskra rétta sem forvitnilegt er að prófa og alveg þess virði að rölti inn á einn slíkan og taka sjéns. Enn er töluverður fjöldi veitingastaða aðeins með matseðla á pólsku og þjónar illa talandi á önnur tungumál. Sjálfsagt er að prófa Pierogi, Bigos, Zurek eða Barszcz ef þú sérð slík á matseðlum. Hver réttur um sig á sér mikla sögu í landinu öllu þó álitamál sé um bragðgæðin.

Barir, skemmtistaðir og klúbbar hafa sprottið upp eins og gorkúlur í Varsjá og nóg úrval fyrir alla sem lyfta vilja sér upp stundarkorn. Sama gildir hér að flestir eru þeir á miðborgarsvæðinu.

Líf og limir

Uppgangur hefur verið töluverður í Varsjá á undanförnum árum og atvinnuleysi minnkað að sama skapi. Nokkuð er um smáglæpi almennt en fyrir utan veskjaþjófnað og slíkt eru ferðamenn yfirleitt lausir við meiriháttar vesen. Eina hverfið sem halda skal sig fjarri er Wilanow og þá fyrst og fremst að kvöld-  og næturlagi. Aðrir hlutar borgarinnar eru tiltölulega öruggir svo lengi fólk nota heilbrigða skynsemi.

View Larger Map