Golden Gate brúin í San Francisco er án alls efa uppi með Hollywood skiltinu sem allra þekktasta kennileyti Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum. Brúin mikilfenglega sem um tíma var lengsta hengibrú heims hefur komið fyrir í óteljandi kvikmyndum og sjónvarpsþáttum og stundum leikið aðalhlutverkið líka.

Falleg er hún Golden Gate en hún tekur loks örlitlum breytingum fljótlega. Mynd Gregorz

Falleg er hún Golden Gate en hún tekur loks örlitlum breytingum fljótlega. Mynd Gregorz

Golden Gate, sem þýðir Gullna hliðið fyrir þá sem ekki eru sleipir í ensku, hefur tekið afar litlum breytingum frá því að hún var tekin í notkun árið 1937. Kaplar hafa verið endurnýjaðir og ótalin tonn af málningu fara á brúna ár hvert en útlitslega er hún nánast eins og hún var í upphafi.

Á því verður loks breyting næstu tvö til þrjú árin og orsök þess leiðinleg í meira lagi. Ákveðið hefur verið að setja upp stór og mikil netavirki undir brúnni á átta mismunandi stöðum. Vonast er til að netavirkin stoppi þann mikla fjölda fólks sem ár hvert tekur eigið líf með því að stökkva fram af brúnni.

Það er ekki lítill fjöldi fólks því talið er að eigi færri en 1600 einstaklingar hafi stokkið fram af Golden Gate síðan hún var byggð. Bara síðasta ár tóku 47 eigið líf með þeim hætti og í verstu árum fer fjöldinn upp undir eitt hundrað.

Breytingarnar verða ekki veigamiklar en netin munu þó sjást í nálægð. Ráð er gert fyrir að smíði þeirra hefjist strax næsta ár.