Skip to main content

Velflestar innlendar ferðaskrifstofur sem upp á golfferðir bjóða hafa kynnt upp á síðkastið tilboð sín næsta haust en urmull af Íslendingum lætur eftir sér að lengja aðeins golfsumarið ár hvert. En hvernig koma tilboðin undan kúnni að þessu sinni? Fararheill skoðaði málið.

Við kíktum á tvö tilboð Úrval Útsýn og tvö tilboð Heimsferða að þessu sinni og endurtökum leikinn ábyggilega þegar fram líða stundir hjá fleiri aðilum. Það er nefninlega ágæt samkeppni í golfferðunum sem ætti að öllu eðlilegu að skila okkur ljúfari ferðum á betra verði. En er það raunin? Hér verður að hafa í huga að ferðaskrifstofurnar semja við hvert og eitt hótel / golfklúbb fyrir sig og njóta mun betri kjara en almennt gerist. Það er því eðlilegt að golfferðirnar séu ekki dýrari en skipuleggi fólk eigin ferðir í golf.

ÚRVAL ÚTSÝN

bonalba

Vikuferð ÚÚ til Alicante og gist á Bonalba og spilað ótakmarkað kostar hjón eða par samtals 377.800 krónur. Það finnst okkur í dýrari kantinum og ástæða þess er eftirfarandi. Flug til Alicante og heim aftur með Wow Air 14. – 21. október með einni tösku plús golfpoka fæst á vef Wow fyrir samtals 120.564 fyrir tvo saman. Á hótelleitarvél Fararheill finnum við gistingu þessa vikuna með hálfu fæði á 98.790 krónur. Á vef golfklúbbsins finnum við ýmis tilboð og þar á meðal tíu hringja pakka, fimm á mann, fyrir alls 67.200 krónur. Samtals kostar ferðin okkar því hjón eða par 286.884 krónur. Á það skal bent að enn vantar skutl til og frá flugvelli sem ÚÚ býður og jafnframt er meira golf í boði ef vilji stendur til og golfkerra í þokkabót. Þá er auðvitað enginn fararstjóri með í okkar för eins og hjá ÚÚ og engar ferðatryggingar innifaldar. Engu að síður er verðmunurinn heldur mikill eða rúmar 90 þúsund krónur .


uugol

Önnur ferð ÚÚ næsta haust er á nýjan golfstað, Roda Golf Beach and Golf Resort, en þar í aðeins í boði að gista í íbúðum. Ótakmarkað golf á góðum velli og morgunverður innifalinn auk ferða milli flugvallar og hótels. Heildarverð fyrir par eða hjón 359.800 krónur. Leit á vef Wow Air leiðir í ljós að til Alicante er komist þennan tíma með einni tösku og golfpoka fyrir tvo fyrir alls 136.564 krónur þegar þetta er skrifað. Sams konar íbúð og ÚÚ býður finnst á hótelvef Fararheill fyrir 86.984 krónur. Stakur golfhringur kostar 5.400 krónur á mann. Sjö hringir fyrir tvo saman kosta samtals 75.600 krónur. Enn vantar skutl frá flugvellinum, fararstjóri er enginn og ekki morgunverður innifalinn en við erum komin í 299.148 krónur. Munurinn virðist ekki svo ægilegur. En það er einn annar möguleiki í boði. Hótelið er nefninlega með sértilboð á vef sínum. Þrjár nætur og þrír hringir og golfbíll í kaupbæti fyrir 29 þúsund krónur á mann eða 58 þúsund samtals. Ekkert mælir gegn því að kaupa tvo slíka pakka í sex daga samfleytt fyrir 116 þúsund krónur og eyða svo degi í Alicanteborg lokadaginn eða eitthvað slíkt. Með þeim hætti kostar ferðin 252 þúsund krónur. Þannig verður ferðin ekki aðeins fjölbreyttari en ella heldur og sparast hundrað þúsund krónur þó auðvitað þurfi að gista einhvers staðar síðasta daginn. Það eru töluverðir peningar hjá meginþorra fólks.


HEIMSFERÐIR

hf

Nýr áfangastaður hjá Heimsferðum er golfvöllurinn Alcaidesa á Costa del Sol. Hér er um níu nátta ferð að ræða með ótakmörkuðu golfi og ferðum til og frá flugvelli. Heildarverð fyrir tvo 559.800 krónur. Það er fjári hátt verð finnst okkur en hér er samanburður afar erfiður sökum þess að ekki er í boði að kaupa aðeins flug en flogið er með bæði Primera Air og Icelandair. Né heldur eru laus herbergi á Aldiana Alcaidesa á tímabilinu. Þó er hægt að leika sér aðeins og það gerum við með því að leita að allra ódýrasta fargjaldi easyJet til Malaga með millilendingu í Englandi. Í ljós kemur að einstaklingur getur farið á milli umræddan tíma með tösku og golfpoka fyrir 82 þúsund krónur eða 164 þúsund samtals tveir saman. Annað fínt hótel á vegum Alcadaisa á svæðinu er að bjóða sjö nætur plús morgunverð og fimm golfhringi fyrir 78.900 krónur á mann eða 157.800 samtals fyrir tvo. Ennþá vantar skutl milli hótels og flugvallar, enginn er fararstjórinn og aðeins vantar upp á ótakmarkað golf. Þannig er það lítt samanburðarhæft í raun og öllu flóknara ferðalag en kostnaðurinn er sýnu lægri eða samtals  321.800 krónur.


 

hf7

Eina golfferð Heimsferða til Alicante er til La Sella sem margir þekkja frá fyrri tíð. Ótakmarkað golf, hálft fæði í þokkabót, skutl til og frá flugvelli og fararstjórn og verð fyrir tvo saman alls 419.800 krónur. Við fyrstu sýn mætti halda að hér mætti gera betur. Við finnum flug með Wow Air til Alicante þessa daga og verð með einni tösku og golfsetti á mann samtals 132.564 krónur. Tveggja manna herbergi með hálfu fæði finnst lægst á hótelvél Fararheill á 171.302 krónur. Engin tilboð er að finna á golfinu en hver hringur fæst lægst á tæpar 11 þúsund krónur. Spili hjón eða par einn hring alla dagana kostar það 149.436 krónur að lágmarki. Með þessum hætti kostar ferðin alls 453.302 krónur eða töluvert meira en Heimsferðir bjóða. Enginn vafi leikur á að tilboð ferðaskrifstofunnar til La Sella er hreint ágætt.