Íslendingar sem vel þekkja Svíþjóð skiptast töluvert í tvo hópa. Annars vegar þeir sem telja Stokkhólm skemmtilegustu borg Svíþjóðar og hina sem telja þann heiður tvímælalaust tilheyra Gautaborg.

Ekki skal lagt mat á hér hvor hópurinn hefur rétt fyrir sér en það er víst að fíli menn Svía og sænska menningu er hægt að gera mun verri hluti en dvelja í Gautaborg. Hún er nægilega stór til að teljast alvöru borg með sína 500 þúsund íbúa sem gerir það einnig að verkum að úrval afþreyingar er gott og fjölbreytt. Þá hafa íbúar þann stimpil á sér að vera töluvert vingjarnlegri við ferðafólk en gengur og gerist almennt í Svíþjóð.

Borgin stendur við, og ber nafn sitt af, ánni Gautá, Göta, og litast borgin og stemmningin töluvert af því að vera stærsta háskólaborg Skandinavíu allrar. Þar leggja árlega 65 þúsund manns stunda á menntun og þar af ætíð nokkur fjöldi Íslendinga.

Þó Gautaborg sé nútímaleg á velflestan máta er hægt að finna þar á köflum sömu tilfinningu og margir hafa fyrir Osló; þótt stór sé nær borgin að viðhalda smábæjarviðmóti sínu. Það er aldeilis óborganleg tilfinning þeim sem finna.

Til og frá

Helsti alþjóðaflugvöllur Gautaborgar er Landvetter flugvöllur. Sá er í 25 kílómetra fjarlægð frá borginni og tekur ferðalag til og frá milli 15 og 20 mínútum.

Svokallaðar flugrútur, Flygbussar, fara reglulega á milli á 20 mínútna fresti og kostar stakt far 1200 krónur. Stoppa vagnarnir á nokkrum stöðum á leiðinni. Sjá nánar á heimasíðunni.

Leigubílar eru töluvert dýrari og má gera ráð fyrir að 3300 krónur kosti að fá einn slíkan til að skjótast í miðbæinn. Það borgar sig séu fleiri en einn eða fleiri en tveir á ferð.

Annar flugvöllur er nær borginni en Landvetter. Það er Göteborg City Airport. Sá er lítill en hefur á undanförnum árum verið mikið notaður af lágfargjaldaflugfélögum.

Frá honum ganga flugrúturnar einnig og kostar stakt far í miðborgina 980 krónur. Þær ganga þó ekki reglulega heldur aðeins þegar vélar lenda.

Samgöngur og skottúrar

Eðli málsins samkvæmt í troðfullri borg af ungu fólki er samgöngukerfið eðalfínt og norrænt. Borgarkerfið samanstendur af léttlestum, strætisvögnum og ferjum. Miða verður þó í öllum tilfellum og kaupa fyrirfram því vagnstjórar selja þá ekki. Fást slíkir miðar í sjálfsölum á helstu stöðvum og einnig í helstu sjoppum og söluturnum.

Västtraffik heitir fyrirtækið að baki samgöngukerfinu og þar má finna allar tímasetningar og annað er máli skiptir. Leiðakerfið í heild sinni má sjá hér. Stakur tveggja hverfa miði kostar 370 krónur og gildir í 90 mínútur.

Léttlestir Gautaborgar eru velþekktar út fyrir borgina enda stærsta léttlestakerfi í Skandinavíu allri. Er um tólf leiðir að ræða og fara þær allar, að einni undanskilinni, til og frá Brunnsparken stöðinni sem er í næsta nágrenni við aðallestarstöð borgarinnar. Allar lestirnar ganga á tíu mínútna fresti og klukkustundarfresti á næturnar.

Strætisvagnakerfið er allgott líka þó lestirnar séu betri kostur í miðbænum. Standi vilji til að skoða víðar eða fleira er 20 vagnar sem ganga á jafnmörgum leiðum um borgina.

Tvær ferjur eru hluti af almenningssamgöngukerfinu hér. Báðar fara yfir Gautá. Älvsnabben er hin hefðbundna ferja sem fer til og frá allan daginn á 30 mínútna fresti. Önnur ferja, Älvsnabbare, fer aðeins milli Rosenlund og Lindholmnspiren og aðeins á háannatímum. Til að fara með ferjum til og frá borginni til suðurs verður að leggja leið sína að Saltholmen. Sjá leiðakerfi og tímasetningar hér.

Hjólreiðar eiga miklum vinsældum að fagna hér ekki síst sökum mikils fjölda ungs fólks sem nám stundar hér. Stígar eru margir og sérmerktar hjólagötur víða um borgina. Hjólaleigur eru nokkrar og allflest hótel og gistihús annaðhvort leigja hjól beint eða útvega slíkt sé þess óskað.

Fótgangandi er Gautaborg sennilega skemmtilegust enda er miðborgin lítil og nett og vegalengdir ekki langar. Allmörg græn svæði eru í borginni og þar má hvíla lúin bein hvenær sem er.

Til umhugsunar: Lisbergslinjen er gamaldags sporvagn sem á sumrin fer um helstu kennileiti í miðborginni og er príma leið til að sjá flest markvert með lítilli fyrirhöfn. Miðaverð er 300 krónur fyrir fullorðna.

Í boði hér eru siglingar um sýki þau er finna má í borginni. Er það kjörin leið til að átta sig á legu hennar og njóta lífsins um leið án mikillar fyrirhafnar.

Söfn og sjónarspil

>> Konungsvirkið (Skansen Kronan) – Suðvestur af miðborginni má finna þetta konunglega virki frá sautjándu öld. Það gengdi líka um tíma hlutverki fangelsis en er nú ágætur útsýnisstaður og hýsir ágætt hersafn. Safnið er einkarekið og þar er ennfremur ágætur en dýr veitingastaður. Heimasíðan.

>> Fiskikirkjan (Feskekörkan) – Nálægt höfninni er að finna þessa byggingu sem er þó engin kirkja heldur fiskmarkaður. Nafnið er tilkomið vegna lögunar hússins og forvitnilega er að kíkja þegar markaðurinn er í fullum gangi.

>> Listasafn Gautaborgar (Göteborgs Kunstmuseum) – Við Götaplatsen er að finna listasafn borgarinnar sem er eitt þeirra bestu á Norðurlöndunum. Mikið magn verka eftir norræna listamenn úr ýmsum áttum og vel þess virði að skoða. Opið 11-18 virka daga en 11 – 17 um helgar. Lokað mánudaga. Aðgangurseyrir 800 krónur. Frítt fyrir alla yngri en 25 ára. Heimasíðan.

>> Hasselblad miðstöðin (Hasselblad Center) – Við hlið Listasafnsins er annað ágætt safn rekið af Hasselblad myndavélaframleiðandanum. Misjafnar sýningar með reglulega millibili en allar tengdar ljósmyndun með vélunum velþekktu. Opið 11-18 virka daga nema mánudaga og 11 – 17 um helgar. Aðgangur 700 krónur. Heimasíðan.

>> Borgarlistasafnið (Göteborgs Stadsmuseum) – Sé áhugi að vita um sögu borgarinnar er þetta safn við Nörra Hamngatan til þess. Lítt áhugavert fyrir aðra. Opið 10 – 17 alla daga nema mánudaga. Miðaverð 700 krónur. Heimasíðan.

>> Vísindasafnið (Universum) – Safn tileinkað vísindum, náttúruvernd og náttúrufræði á heimsvísu og sett upp með börn og unglinga í huga. Fróðlegt mjög ef smáfólk er með í för. Södra Vagen 50. Opið daglega 10 – 17. Aðgangur 2.600 krónur fyrir fullorðna. Heimasíðan.

>> Heimskúltúrsafnið (Världskulturmuseet) – Systursafn Vísindasafnsins og staðsett við hlið þess. Hér er áherslan á mismunandi menningu í heiminum og reynt að varpa ljósi á grundvallarmun milli fólks í heiminum. Þá eru hér uppákomur reglulega tengdar þema safnsins. Opið daglega 10 – 17. Aðgangur 800 krónur. Heimasíðan.

>> Bátasafnið (Maritiman) – Nítján fley af ýmsum stærðum, gerðum og frá ýmsum tímum til sýnis hér og hægt að ganga um borð í þau öll. Safnið stendur við Packhusplatsen við höfnina. Opið 10 – 18 daglega. Aðgangur 1.400 krónur. Heimasíðan.

>> Náttúrufræðisafnið (Naturhistoriska Museum) – Elsta safn Gautaborgar er þetta við Linneplatsen. Náttúrufræðin eins og hún leggur sig. Hér má meðal annars sjá uppstoppaðan bláhval. Opið 11 – 17 alla daga nema mánudaga. Prísinn 700 krónur. Heimasíðan.

>> Volvo safnið (Volvo Museum) – Gautaborg er fæðingarstaður Volvo og þetta safn við Eketrägatan er helgað sögu verksmiðjanna hér. Ýmsar tegundir bifreiða Volvo gegnum tíðina til sýnis. Dágóð skemmtun. 10 – 17 virka daga en 11 – 17 um helgar. Aðgangur 850 krónur. Heimasíðan.

>> Röhsska safnið (Röhsska Museet) – Eitt þekktasta hönnunarsafn Svíþjóðar og eðlilega tileinkað sænskri hönnum í allri sinni mynd. Það stendur við Vasagatan. Opið 11 – 17 alla daga nema mánudaga. Innlit kostar 750 krónur. Heimasíðan.

>> Kviberg hernaðarsafnið (Kviberg Militärhistoriska Museum) – Stríðstól af ýmsum gerðum og stærðum er uppistaða þessa safns við Lilla Regementsvägen. Aðeins opið á þriðju- og miðvikudögum milli 12 og 14. Aðgangur 450 krónur.

>> Krúnuhúsið (Kronhuset) – Í Postgaten má finna þessa gömlu byggingu sem var um skeið þinghús Svíþjóðar. Nú er þarna tónlistarhús meðal annars. Heimasíðan.

>> Dómkirkjan (Göteborgs Domkyrke) – Falleg kirkja að Västra Hamngatan.

>> Hallargarðurinn (Slottsskogen) – Einn allra vinsælasti útivistarstaður Gautborgara er þessi hallargarður nálægt grasagarðinum, sjá neðar, og er vel þess virði að eyða stundarkorni hér ef veður er gott. Strætisvagn að Linneplatsen.

>> Grasagarðurinn (Göteborgs Botaniska Trädgard) –  175 hektara svæði tileinkað grösum og blómum. Afar fallegt svæði og var garðurinn meðal annars valinn sá fallegasti í landinu öllu árið 2003. Hér má til dæmis sjá hið sjaldgæfa Páskaeyjutré. Strætisvagn að Linneplatsen. Heimasíðan.

>> Óperuhúsið (Göteborgsoperan) – Hér er ein af betri óperum í Skandinavíu og þótt víðar væri leitað. Heimsþekktir söngvarar syngja oft á sviði hússins og vel þess virði að sjá eina óperu eina kvöldstund. Heimasíðan.

>> Liseberg skemmtigarðurinn (Liseberg) – Stærsti skemmtigarður í allri Skandinavíu er hér í Gautaborg og þessi er einnig vinsælasti áfangastaður í allri Svíþjóð hvað vinsældir varðar. Eðli málsins samkvæmt er mannfjöldinn kæfandi á fallegum sumardögum en sé smáfólk með í för kemst enginn hjá því að kíkja við. Heimasíðan.

>> Guldhedstorgið (Guldhedstornet) – Ekki torg heldur kaffihús sem býður langbesta útsýnið yfir borgina sem meðlæti með kaffinu. Ágætur staður til að hvíla lúin bein og svo er net hér líka. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Úrval verslana í Gautaborg er dágott og er hér öll helstu merki að finna. Gallinn þó að meðan íslenskra krónan er í andnauð er þessi borg og aðrar í Svíþjóð í dýrari kantinum almennt.

Stærsta verslunarmiðstöðin er Nordstan við Brunnsparken við aðalbrautarstöðina. Við sömu götu er Arkaden verslunarkjarninn. Skammt frá við Östra Hamngatan er NK miðstöðin þar sem lúxusverslanirnar er að finna.

Víða um borgina eru minni verslunargötur og það er einna helst þar sem rekast má á forvitnilega smáverslanir með fatnað og hönnunarvörur.

Outlet miðstöðvar er að finna utan við borgina. Ein vinsæl er Freeport við bæinn Kungsbacka í um 20 mínútna fjarlægð frá Gautaborg.

Matur og mjöður

Ein er sú gata sem sker sig úr hvað úrval veitingastaða varðar og það er Linnégatan. Fjölbreyttir staðar fyrir velflestar buddur. Víða um borgina eru smærri veitingastaðir og velflestir uppfylla kröfur um góðan mat á sæmilegu verði.

Til umhugsunar: Það tíðkast hér sá siður á nokkrum veitingastöðum og börum sem bjóða upp á mat að bjóða sérstakan föstudagsdíl. Þá er eftirmiðdaginn þann í boði öl á tilboði og ókeypis hlaðborð.

Í og við Järntorget er gnótt kaffihúsa og bara og nokkrir næturklúbbar að auki. Best er að fletta tímaritinu Nöjesguiden sem hvarvetna fæst frítt til að sjá hvað er vinsælt hverju sinni og hvaða staðir eru opnir hvenær.

Líf og limir

Það er töluvert um glæpi í Gautaborg og tengist það oftar en ekki hópum innflytjenda og er nokkur kurr milli innfæddra og innflytjenda hér almennt.

Ferðamenn verða alla jafna lítt varir við slíkt þó en nokkuð er um veskjaþjófnað og stuld á hjólum og bílum. Gæta skal þess vel að skilja engin verðmæti í bílaleigubílum og ekki taka augun af veskjum á veitingastöðum og börum.

View Larger Map