Tíðindi

Frír félagi kostar 2,6 milljónir króna

  24/10/2011apríl 28th, 2014No Comments

Þær birtast nú reglulega auglýsingar fyrirtækisins Kreditkort um hraða vildarpunktasöfnun með American Express kortum fyrirtækisins. Er þar fólk hvatt til að skipta til að komast oftar og lengra út í ferðalög með hraðari punktasöfnun með þeim kortum en öðrum.

Rúsínan í þeim pylsuenda er að kaupi maður nógu mikið með Amex kortinu sínu á tólf mánaða tímabili geti maður tekið félaga eða vinkonu frítt með í utanlandsferðina. Gott og blessað enda skemmtilegra erlendis með vini en ekki.

En sá tiltölulega stóri galli er á þessari gjöf að til þess að geta boðið vini frítt með þarf að eyða að lágmarki 2,6 milljónum króna árlega og nota Amex kortið í öll þau kaup.

Kannski hljómar það ekki svo fjarri lagi fyrir hvern þann sem vel stendur og er í vellaunaðri vinnu. En fyrir meginþorra almennings, sama meginþorra og hafði að meðaltali 334 þúsund krónur í mánaðarlaun 2009, er alveg fráleitt að gera ráð fyrir að kaupa hluti fyrir 2,6 milljónir af fjögurra milljóna árslaunum í heildina og greiða hvert snifsi með Amex kortinu. Er þar miðað við ódýrustu tegundina af American Express korti Kreditkorta.

Nær væri kannski að vinurinn borgi fyrir sig sjálfur svo ekki þurfi að koma til gjaldþrots þess sem kortið hyggst nota fyrir 3/4 af heildarlaunum sínum.