Hmmm. Hvort ættum við að kaupa Belfry golfpakka hjá GB ferðum í mars á næsta ári fyrir 238 þúsund fyrir okkur hjónin eða græja ferð sjálf heima í eldhúsi og fá sama pakka fyrir 200 þúsund kall rúman?

Toppgolf með 130 prósenta afslætti. Mynd Belfry

Toppgolf með 130 prósenta afslætti. Mynd Belfry

Það er ekki lítill sparnaður sem fólk nýtur ef þú barasta sest niður eitt fallegt vetrarkvöld og græjar þína ferð sjálf/-ur. Það tekur kannski 15 mínútur eða svo ef þú veist hvar á að leita og sparnaðurinn fyrir það korter af lífi þínu getur auðveldlega numið 40 þúsund krónum. Nema þú sért skiptastjóri Kaupþings eða af Engeyjarættinni eru það bestu laun sem þú hefur nokkurn tíma notið eða munt njóta.

Það gæti orðið sparnaðurinn ef áhugi er að spila golf við toppaðstæður á einum besta stað í Bretlandi í mars á næsta ári svo aðeins eitt dæmi sé tekið. Belfry skammt frá Birmingham er vafalítið eitt merkasta golfsvæði landsins og er þó af nógu þar að taka.

GB ferðir hafa í samvinnu við Icelandair sem flýgur til Birmingham verið að bjóða fína golfpakka á Belfry. Nú eru til sölu slíkir pakkar snemma í vor 2017 og lágmarksverð 119.900 krónur per mann miðað við tvo saman. Alls 239.800 krónur á par eða hjón.

Einhver hefði haldið að ferðaskrifstofa með sérsamninga bæði við golfvöllinn og flugfélagið gæti boðið góðan og sanngjarnan díl. En það er öðru nær. Við getum græjað sams konar pakka án allra sérsamninga og sparað pari eða hjónum litlar 40 þúsund krónur miðað við lægsta mögulega verð hjá GB ferðum.

Það gerum við með því að bóka flugið beint með Icelandair. Þegar þetta er skrifað fæst flugið fram og aftur fyrir 27.175 krónur á mann 23. – 27. mars. Samtals 54.350.

Svo einhendum við okkur yfir á opinberan vef Belfry-klúbbsins og þar gefur að líta ýmis sértilboð. Til dæmis tvær nætur í gistingu með morgunverði plús þrír hringir að eigin vali fyrir svo mikið sem tæplega 37 þúsund kall á kjaft eða 74 þúsund á parið. Við erum svo sniðug að panta tvo slíka pakka og fáum þannig fjórar nætur plús sex hringi að eigin vali fyrir alls 148 þúsund kall.

Sem merkir að ef við bætum við kostnaði við flugið erum við að spila Belfry eftir bestu lyst á sama tíma og viðskiptavinir GB ferða og greiðum fyrir 20% lægra verð en þeir sem bóka gegnum GB ferðir.

Og hvern munar ekki um 40 þúsund krónur…