Skip to main content

Ferðaskrifstofan Heimsferðir býður þessa stundina upp á nettar fjögurra daga páskaferðir til Mílanó á Ítalíu eins og sjá má hér. Flug eitt og sér með farangri í boði fyrir 35 þúsund kall á kjaft sem er príma. Hið sama ekki sagt um gistinguna.

Sumt gerir Heimsferðir vel. Annað illa.

Við hér finnum oftar nálar í heystökkum þessi dægrin en góð flug- eða ferðatilboð út í heim. Hrap Primera Air og Wow Air auk þess sem fjöldi erlendra flugfélaga hafa dregið drjúgt úr ferðaframboði hafa leitt til þess að ferðir hingað og þangað kosta nú hand- og fótlegg og greiðsluskiptingu í tólf mánuði fyrir okkur meðalplebbana.

Það þarf því lítið til að gleðjast fyrir ferðaþyrsta og eitt það tilboð sem óhætt er að mæla með er 35 þúsund króna flug fram og aftur til Mílanó 8.- 12. apríl næstkomandi eða páskahelgina með öðrum orðum. Farangur innifalinn.

Láttu hins vegar alveg vera að bóka þennan túr með gistingu. Það er nefninlega svo að við hér finnum sömu gistingu og Heimsferðir eru að bjóða þennan tíma á allmiklu lægra verði en ferðafræðingarnir.

Sem dæmi um það kostar það tvo saman 169.490 krónur að fljúga og gista á fjögurra stjörnu AC Hotel Milano með morgunverði á vef Heimsferða. Þar líka um 70 þúsund króna afslátt að ræða ofan á hefðbundið verð. Ef við drögum flugið frá þá kostar gistingin hér alls 99.590 fyrir tvo saman.

En ef þú neglir bara flugið og græjar hótelið hér á hótelvef Fararheill þá kostar sama gistingin með morgunverði alls rétt rúmlega 83 þúsund krónur. Það sparnaður upp á tæpar sautján þúsund krónur. Það er því sem næst ein nótt frí miðað við tilboð Heimsferða. Hvern munar ekki um það?

Óskandi væri að þetta væri eina tilfellið en svo er auðvitað ekki. Það má spara feitar upphæðir á að bóka gistingu sjálf ef flug er á annað borð í boði eitt og sér. Það höfum við sýnt fram á um tíu ára skeið.

PS: tæknilega séð er auðvitað meira innifalið í tilboði Heimsferða en bara flug og gisting enda ber ferðaskrifstofan ábyrgð gagnvart viðskiptavinum. En það er ekkert sem þú ert ekki að njóta annaðhvort með ferðatryggingu eða kortatryggingu hvort sem er og hvað getur mikið farið úrskeiðis á fjórum dögum í Mílanó?