Okkur grunar að innst inni langi marga ferðaglaða allavega einu sinni eða svo að heimsækja Marokkó og þá kannski efst á blaði hin líflega Marrakesh. Bresk ferðaskrifstofa er nú að bjóða fimm stjörnu Marrakesh pakka á verði sem Ari Eldjárn gæti notað í uppistand.
Ritstjórn hefur þrívegis heimsótt Marrakesh og kunnum afar vel við okkur í öll skiptin þó borgin sé sannarlega ekki fyrir alla. Ys og þys hér meiri en Shakespeare hefði getað ímyndað sér og áreitni sölumanna getur sett blett á ljúfa ferð.
Á móti kemur að óvíða er gestrisni meiri. Fáir hika við að bjóða inn í te og spjall og það af minnsta tilefni. Te heimamanna er heimsfrægt og eðlilega og nuddstaðirnir hér eru á heimsmælikvarða. Fyrir utan afar lágt verðlag náttúrulega.
Ferðaskrifstofan Broadway Travel í Englandi er nú að selja fjögurra daga pakka til Marrakesh næsta vetur þar sem gist er í hreinum fimm stjörnu lúxus með hálfu fæði. Þó stutt sé þá dugar þessi tími til að sjá það helsta og eiga tíma eftir til að njóta og sóla sig og allra best er að verð á þessum ferðum er aðeins 31 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman.
Þessar ferðir eru í boði frá október og fram í febrúar á næsta ári og tíminn því nægur til að grípa gott tilboð héðan til Englands og heim aftur og því njóta yndisstunda í Marrakesh nokkra daga í fyrirtaks yfirlæti fyrir rétt rúmar hundrað þúsund krónur samtals. Það köllum við sérlega yndislegan díl.