V ið hér höfum fullan skilning á fólki sem ekki hefur í sér að þvælast um á söfnum á ferðalögum. Leiðinlegu söfnin eru nefninlega jafn mörg og þessi stórkostlegu fyrir utan að málverk og skúlptúrar eða gjörningar ýmis konar eru einfaldlega ekki hvers manns tebolli. Gildir þá einu hversu „fræg“ verkin eru.

Að því sögðu þá eru söfn heimsins jafn mismunandi og fólkið á jörðinni og sum taka sig ekki sérstaklega alvarlega. Við hér erum til dæmis yfir okkur hrifin af Safni hræðilegra verka, Museum of Bad Art, í grennd við Boston í Bandaríkjunum. Þar svo auðvelt að skella upp úr yfir hörmungunum að magavöðvarnir eru sárir marga daga í kjölfarið. Ekki síður eftirminnilegt að skoða Hársafnið í Tyrklandi eða Safn brostinna ástarsambanda í Króatíu svo aðeins þrjú séu nefnd.

Nú ætlum við að bæta aðeins um betur og benda á fimm til viðbótar sem við höfum reynslu af og mælum sterklega með fyrir forvitið fólk og fróðleiksþyrst. Öll eru þau pínulítið sérstök svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Kynlífssafnið í New York

Hreint ekki allra að taka skrefið inn á kynlífssafn en slík söfn finnast merkilega víða í borgum heimsins. Eitt slíkt, Museum of Sex, finnst við hina frægu götu Fifth Avenue í New York. Hér ægir saman ýmsu því sem tilheyrir kynlífi manna og dýra. Sumt fáránlega kjánalegt eins og brjóstahoppukastali en annað í stíl eins og safn kynlífstækja langt aftur í fortíð. Það sem gerir þetta kynlífssafn æði sérstakt er að gestir eru hvattir til að prófa hlutina hér. Ekki alla hluti nota bene en hér blikkar enginn auga ef áhugasamir hoppa upp á stóran kynlífshnakk og setja græjuna í gang. Þar hjálpar að allt safnið er afar dimmt og vel stúkað niður svo einhverjir geta ímyndað sér að þeir séu einir í heiminum. Það fjarri því það eina sem hér má prófa.  Heimasíðan.

Doria Pamphilj höllin í Róm

Það fer sorglega lítið fyrir þessum stað í helstu ferðamannabókum um Róm. Að hluta til eðlilegt enda borgin svo full af menningardjásnum að enginn kemst yfir með góðu móti. Þetta er hreint ótrúlegt safn og fjöldi verka hér til sýnis sem vekja öfund þeirra sem reka bestu listasöfn veraldar. Fyrir utan veggi þess, loft og gólf sem færustu málarar á sínum tíma skreyttu eftir kúnstarinnar reglum. Það er þó líka annað sem er stórmerkilegt hér og stórkostlegir sportbílarnir í portinu við innganginn gefa sterklega til kynna. Höllin og safnið allt í einkaeigu og höllin sjálf með sín þúsund herbergi er talin vera stærsta íbúðarhús Ítalíu. Hér býr nefninlega fólk og sinnir sínu lífi eins og ekkert sé sjálfsagðara. Nánar tiltekið fjölskyldur tveggja munaðarlausra Breta sem ættleiddir voru á sínum tíma af prinsessu sem erfði allt góssið gegnum sína fjölskyldu sem aftur rak sínar ættir aftur til Innósentíusar páfa tíunda en sá sankaði að sér þeim heimsklassa verkum sem hér eru og keypti slotið undir. Heimasíðan.

Barbísafnið í Kaupmannahöfn

Barbí og Ken. Ken og Barbí. Hver einasta sála yfir þrítugsaldri þekkir þessar frægu dúkkur úr smiðju hins  bandaríska leikfangafyrirtækis Barbie. Mörg okkar, sem og margir úti í heimi, hafa safnað barbídúkkum frá barnæsku. Enginn þó tekið söfnunina jafn alvarlega og Lene Darlie Pedersen í Kaupmannahöfn. Kerlan atarna hefur gert það að sínum heilaga gral að safna saman Barbie dúkkum hvar sem þær er að finna og til að vega upp á móti töluverðum kostnaði vegna þess opnaði Lene heilt Barbísafn og það heima í stofunni við Vibevej 52 í Köben. Sökum þess að safnið er heima hjá gömlu þarf að hringja með fyrirvara til að komast í heimsókn en það aftur ekki leiðinlegt að ná tali af gömlu og forvitnast um hvers vegna hún á ekkert líf.  Heimasíðan.

Réttarmeinasafnið í Los Angeles

Kaninn er alvarlega í ruglinu. Ekki síst hvað viðkemur að fjármagna bráðnauðsynlegar opinberar stofnanir. Eins og Réttarmeinastofu Los Angeles. Þar láta menn ekki nægja að kryfja lík og annað eðli máls samkvæmt heldur halda úti heilu safni í leiðinni til að hjálpa til við að borga brúsann. Á því merkilega safni, sem er staðsett við hlið líkgeymslu stofnunarinnar, má fræðast kynstrin öll um krufningar og tæki og tól réttarmeinafræðinga til að úrskurða um dánarorsakir hins og þessa. Og ekki dapurt heldur að geta keypt kaffikönnur og servíettur með nafni stofnunarinnar eða stuttermaboli með alveg stórmerkilegum áletrunum. Aldeilis kostulegt safn sem aldrei líður úr minni. Heimasíðan.

Karrípylsusafnið í Berlín

Ef Kaninn er með lausa skrúfu hér og þar er Þjóðverjinn ekki skömminni skárri. Í hinni eiturskemmtulegu borg Berlín má finna það sem er líklega undarlegasta safn Þýskalands: Karrípylsusafnið við Schützenstraβe. Jú, ferðavant fólk veit að heimamenn elska sínar pylsur sem oft eru góðar í tóman maga. En stökkið frá því og að opna heilt safn tileinkað einni einustu tegund af pylsum er dálítið langt ekki satt. En hey, hér er hægt að kynna sér leyndardóma tómatsósu, sinneps og svo ekki sé minnst á hinar mismunandi framleiðsluaðferðir á karrípulsum víðs vegar í landinu. Karrí er heldur ekki alveg það sama í Bonn og Heidelberg. Alveg ótrúlega makalaust safn sem möst er að heimsækja jafnvel þó ekkert sé hér matarkyns. Hafa skal bak eyra að safnið er tímabundið lokað vegna faraldursins. Heimasíðan.