Skip to main content

Í  99,9 prósent tilvika er raunin sú að listasöfn heimsins opna ekki dyr sínar nema falleg, fágæt eða sérstök verk prýði hólf, gólf og veggi. Á þessu er minnst ein undantekning; Safn slæmra verka, MOBA, sýnir aðeins listaverk sem eru svo arfaslæm að ekki er nokkur leið önnur en sýna þau.

Húsnæðið flott og verkin líka. Eða ekki. Mynd Chris Devers

Húsnæðið flott og verkin líka. Eða ekki. Mynd Chris Devers

Hugmyndin er reyndar fantagóð því ötulir ferðamenn geta nú fengið nægju sína af Da Vinci og Van Gogh.

Þá er ráð að halda til Massachusetts í Bandaríkjunum. Nánar tiltekið til smábæjanna Dedham og Somerville því Safn slæmra verka, Museum of Bad Art, er of gott til að einskorðast við eina staðsetningu.

Flest verka til sýnist í MOBA eru þessleg að hafa verið gerð af hóp ósammála þriggja ára barna í leikskóla og kristaltært að enginn heimsækir safnið án þess að skella upp úr einu sinni eða tvisvar.

Ein 600 verk eru í eigu safnsins en aðeins er hægt að sýna 60 í einu enda söfnin staðsett í litlum kjallara og nálægt almenningsklósettum. Hófst rekstur þess árið 1993 þegar tveir núverandi stjórnarmenn safnsins fundu verk sem var svo viðurstyggilega ömurlegt að það varð að sýna opinberlega.

Safnið er opið þegar eigendum hentar en yfirleitt eftir klukkan 17 og fram á kvöld. Hið stærra af söfnunum tveimur er staðsett við Dedham torg í bænum Dedham. Aðgangur er ókeypis en öll framlög þegin.

Mælum eindregið með heimsókn því hér er auðvelt að skemmta sér dável og fá jafnvel krampa í maga.