Ekki er svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott. Gömlu góðu páskahretin fara í taugar margra sem ár eftir ár eru hissa á að þau skuli koma. En það er líka þá sem heitt kakó, þykkt teppi, arineldur og kósíheit par exellans gera allt gott í heiminum. Það og þessi fimm ferðatilboð hér að neðan.

Ha Long flóinn í Víetnam er af mörgum talinn fallegasti staður í heimi. Mynd Meditationmusic.net

Ha Long flóinn í Víetnam er af mörgum talinn fallegasti staður í heimi. Mynd Meditationmusic.net

Margir eflaust þegar búnir að tryggja sér sumarleyfisferðir út í heim næstu mánuðina og geta sett sig í tilhlökkunargírinn. Þið hin sem enn eruð tvístígandi ættuð kannski að skoða þessi fimm ferðatilboð sem í boði eru þessa stundina en gegnum erlendar ferðaskrifstofur. Hver og ein þeirra ljúf eins og vorvindur á kinn.

>> Tveggja vikna lúxuspakki til Víetnam yfir jól og áramót  –  Við höfum áður sett fram rök fyrir hvers vegna dvöl erlendis yfir jól og áramót er ómótstæðilegt. Meðan aðrir hér heima eru með hjartsláttartruflanir í fokdýrum verslunum í skítaveðri á síðustu stundu ert þú að busla í flæðarmálinu við Ha Long flóann fagra og áhyggjur ekkert nema orð í orðabók. Afar fín Víetnamferð er í boði með Elegant Travel & Tours þar sem dvalið er tvær vikur yfir jól og áramót og það á þremur kostulegum stöðum plús sigling og nótt í skipi á Ha Long flóanum. Dvöl í Saigon, Hanoi og Hoi An og alls staðar gist á bestu fimm stjörnu hótelum. Tær snilld frá A til Ö og kostnaður aðeins 356 þúsund á mann miðað við tvo frá Bretlandi. Allt um málið hér.

>>  Stórfjölskylduferð til Orlando með haustinu  –  Stundum er flókið að ferðast þegar stórfjölskyldan ætlar að fagna einhverju með stæl og kostar oft töluverða leit að flugi og svo villu ellegar stórum hótelherbergjum svo allir komist nú fyrir. Ferðaskrifstofan Travel Planners í Bretlandi býður nú tveggja vikna Orlando pakka sem miðast við tíu manna hóp fyrir 126 þúsund krónur á mann í október og nóvember. Gististaðurinn ekki af verri endanum heldur Reunion Resort sem margir Íslendingar kannast við enda þar að finna þrjá fyrirtaks golfvelli. Ekkert slíkt er innifalið hér en verðið er líka dágott jafnvel þó fljúga þurfi til Bretlands til að nýta sér þetta. Nánar um þetta hér.

>> Sigling um grísku eyjarnar og Feneyjar í kaupbæti  – Þó allra best sé að eyða tíma í landi þegar kemur að hinum gríðarfallegu grísku eyjum eins og Mykonos, Korfu og Santorini þá er það næstbesta að njóta þeirra af sjó. Það er einmitt í boði með ferðaskrifstofunni Cruise Nation næsta nóvember fyrir einungis rúmar 80 þúsund krónur á mann í innriklefa fyrir sjö daga siglingu. Dugi þær grísku ekki til að koma blóðinu af stað þá er enginn mínus að stoppað er í Dubrovnik í Króatíu og nótt í Feneyjum líka áður en haldið er aftur heim á leið. Yndislegt með stóru ypsiloni og fyrir 40 þúsund krónur í viðbót fæst káeta með svölum sem er auðvitað eina leiðin til að sigla. Smáatriðin öll hér.

>> Hundrað prósent lúxuspakki með öllu á Maldives-eyjum  –  Komdu þér til London fyrir lok júní og fljúgðu þaðan til hinna stórkostlegu Maldives-eyja þar sem jafnvel örgustu fýlupokar brosa hringinn 24 tíma sólarhringsins. Engin sjoppa á næsta horni en heldur engin þörf því allt innifalið og það eina sem þú þarft að einbeita þér að er að elska og njóta. Varla mjög flókið. Né heldur mjög flókið að ákveða sig því verð á vikutúrnum til Kureda með ferðaskrifstofunni Letsgo2 er aðeins 244 þúsund á mann. Sem er brandari. Ferðalýsingin í heild sinni hér.

>> Líf og fjör í sjö nætur með öllu á Barbados  –  Karíbahafið klikkar bara aldrei sem áfangastaður og með haustinu í september og október er nú hægt að njóta þess besta á Barbados í vikutíma á fínu hóteli allt niður í 180 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman. Margir gætu líka notið þess að þessar ferðir eru barnlausar með öllu; það er að segja að þær eru ekki í boði fyrir sextán ára og yngri. Sem margir kunna eflaust að meta. Ekki skemmir heldur fyrir að það er British Airways sem hér er að bjóða og þeir fara seint í bækur sem vafasöm ferðaskrifstofa. Allt smáa letrið hér.

* Allar ferðaskrifstofurnar sem hér um ræðir vel þekktar og með öll leyfi og tryggingar. Verð rétt miðað við miðgengi þann 18. apríl 2014 en til viðbótar þarf að greiða fyrir flug til og frá Keflavík.

** Hafið samband ef einhverja hjálp vantar og við reynum að greiða úr ef hægt er. Fararheill@fararheill.is