A llir þekkja Frúnna í Hamborg en hversu margir þekkja Hamborg? Fullyrða má að margir eldri Íslendingar þekki Hamborg mætavel enda var borgin sú um tíma meðal vinsælli áfangastaða háskólastúdenta héðan. Þá þekkja fjölmargir sjómenn borgina vel líka enda ein helsta hafnarborg Evrópu og hefur verið það um langa hríð.
Hamborg er ein af mikilvægustu borgum Þýskalands þar sem hún stendur við Saxelfi, Elbe, ánna í norðurhluta landsins. Hana byggja 1,8 milljónir íbúa en að meðtöldum helstu úthverfum fer fjöldinn í fjórar milljónir. Hún er ein af sextán ríkjum, Länder, Þýskalands.
Borgin hefur alla tíð verið mjög alþjóðleg og ekki aðeins vegna þess að hún er borgríki heldur og vegna hafnarinnar sem er ein sú allra stærsta í veröld en sú staðreynd hefur í för með sér að um áratugi hafa hingað komið allra þjóða kvikindi og sett svip á borgarlífið. Það er líka höfninni að þakka að velmegun hefur hér ávallt verið með allra mesta móti og í dag er Hamborg og nágrenni það svæði í Evrópu þar sem meðallaun fólks eru hæst innan Evrópusambandsins.
Velmegunin skýrir hvers vegna Hamborg er nokkuð einstök hvað mörg hverfi borgarinnar varðar að þau eru að stórum hluta einbýlishúsahverfi í stað blokka og fjölbýlishúsa eins og raunin er víðast hvar annars staðar.
Hamborg var einnig sú borg Þýskalands sem varð hvað verst úti í Seinni heimsstyrjöldinni og stórir hlutar borgarinnar sprengdir í tætlur. Lítil merki sjást þó um það í dag og má í raun leita lengi að einhverjum minjum um hversu mjög borgin var illa leikin á þeim tíma.
Til umhugsunar: Það hljómar kjánalega að kalla borgarbúa Hamborgara en þessi vinsælasti skyndibiti jarðar varð til hér í Hamborg sem skýrir nafnið. Hamborgarinn náði þó ekki vinsældum fyrr en annars staðar mun síðar.
Til og frá Hamborg
Alþjóðaflugvöllur Hamborgar er Hamburg-Fuhlsbüttel sem er fjórði stærsti flugvöllur landsins. Sá liggur nánast í borginni sjálfri en það þýðir ekki að þangað sé auðvelt að komast. Þvert á móti tekur um 30 mínútur að fara héðan og inn í miðborgina.
Sjálfur er völlurinn tiltölulega nýtískulegur og er fjarska góður til brúksins á flestan máta. Þó geta gönguleiðir innan hans verið töluverðar.
Hvað fljótlegasta leiðin til og frá vellinum er með leigubíl en þeir geta verið töluvert dýrir og umferðartafir geta orðið hræðilegar hér á ákveðnum tímum. Ólíklegt er að fólk sleppi billegra inn í miðbæinn en fyrir 4.000 krónur. Sé förinni heitið annað en inn í borgina er hins vegar hægt að prútta um verðið. Allir leigubílar hafa mæla og tala langflestir ensku eða hrafl í henni.
Besta leiðin til og frá er með S-bahn lestinni sem fer héðan og að aðallestarstöð bæjarins, Hauptbahnhof, á 25 mínútum sléttum. Er lestarstöðin gegnt flugvellinum og þangað auðvelt að rata. Lestir fara reglulega til og frá og á ekki að þurfa að bíða lengur en tíu mínútur eftir næstu lest. Tekur aðeins 25 mínútur að fara inn í miðborg. Miðaverð fer eftir áfangastaðnum en í miðbæinn kostar farið 400 krónur. Sex ára og yngri ferðast frítt.
Flugrútur fara einnig til og frá en þær eru töluvert lengur á leiðinni og geta lent í verulegum umferðartöfum. Þær eru þó töluvert dýrari en lestin en stakt far til og frá miðbænum kostar 780 krónur. Ferðin tekur 25 mínútur að því gefnu að ekki sé mikil umferð.
Til umhugsunar: Lágfargjaldaflugfélög á borð við Wizzair og Ryanair bjóða ferðir til Hamborgar en þau félög nota Lübeck-Blankensee flugvöll sem er í 70 kílómetra fjarlægð frá borginni. Hafa skal það í huga sé ferðast með þeim félögum.
Samgöngur og snatterí
Almenningssamgöngukerfi Hamborgar er fyrsta flokks og gengur allan sólarhringinn. Samanstendur það af léttlestum, strætisvögnum og ferjum.
Strætisvagnarnir eru sennilega besti kosturinn enda kerfið víðfeðmt og tíðni ferða mikil. Þá ganga vagnar allar sólarhringinn ef vera skyldi að menn fái sér einum of marga á einhverjum af eðalgóðum börum borgarinnar. Hlemmur þeirra Hamborgara er við Rathaus en þaðan fara og koma allir vagnar.
Miða er hægt að kaupa bæði í sjálfsölum á flestum stöðvum eða hjá vagnstjórum og þá er einnig svokallað Hamburg kort í boði sem þýðir nokkurn afslátt í vagna og söfn. Þeir eru þó aðeins að gera sig ef dvalið er einhvern tíma í borginni.
Sex ferjur eru hluti af almenningssamgöngukerfinu og fara þær yfir Saxelf fljótið, Elbe, reglulega.
Leigubílar eru hér í tonnum og verðin viðráðanleg. Startgjaldið er 300 krónur og hægt að fara á velflesta staði innan borgarmarkanna undir tvö þúsundum. Allir eiga þeir að vera með mæli og flestir taka kreditkort.
Hér eru líka sex lestir, S Bahn, til úthverfanna og þrjá jarðlestir, U Bahn, en fjórða jarðlestin verður tekin í notkun árið 2012. Leiðakerfið hér.
Söfn og sjónarspil
>> Ráðhúsið (Rathaus) – Sitt sýnist hverjum en margir eru á þeirri skoðun að stórfenglegasta bygging Hamborgar sé ráðhúsið. Byggingin tilþrifamikla var byggð 1896, tók ellefu ár að byggja og er í nýendurreisnarstíl. Það ætti að gefa hugmynd um stærðina að þar eru 647 herbergi sem er meira en Buckingham höll bresku konungsfjölskyldunnar. Stóra Markaðstorgið fyrir framan ráðhúsið er vettvangur uppákoma velflesta daga þegar veður eru viðunandi. Ráðhúsið er opið alla daga milli 8 og 18 og túrar um húsið í boði á tveggja tíma fresti milli 10 og 15 virka daga. Aðgangur 440 krónur fyrir fullorðna. Heimasíðan.
>> Listahöllin (Hamburger Kunsthalle) – Stærsta listasafn Þýskalands er áhrifamikið og vert skoðunar jafnvel þó list heilli alla jafna lítið. Veggi þess prýða verk frægra listamanna frá ýmsum löndum en sérstök áhersla er að þýsk miðaldaverk. Opið þriðjudaga til sunnudaga milli 10 og 18 en til 21 á fimmtudögum. Safnið er á Glockengierßswall við aðalbrautarstöðina. Aðgangur 1600 krónur. Heimasíðan.
>> Kúltúrhöllin (Deichtorhallen) – Ekki aðeins eiga Hamborgarar stærsta listasafn Þýskalands heldur og stærstu kúltúrsafn Þýskalands. Það er staðsett í tveimur stórum húsum sem áður fyrr gengdu hlutverki markaða. 5.600 fermetrar af málverkum, ljósmyndum og skúlptúrum hvaðanæva að. Ávallt tvískiptar sýningar. Ljósmyndasýningar í öðru húsinu og málaralist í hinu. Jarðlest til Steinstraße. Opið þriðjudag til sunnudags 11 – 18. Aðgangur 1400 krónur. Heimasíðan.
>> Putaland (Miniatur Wunderland) – Þýska Putalandið er á aðeins tíu árum orðið eitt vinsælasta stoppið hjá ferðamönnum og ekki síður heimamönnum sjálfum. Putaland er í raun heimsins stærsta lestarmódel með tilheyrandi lestum, teinum og stöðvum auk stöku flugvalla og borga til að gera þetta spennandi. Ómissandi fyrir alla sem geyma barnið í hjarta sínu. Staðsett í Kehrwider götu skammt frá Aðalbrautarstöðinni við ánna Saxelfi. Opið 9.30 til 18 alla daga ársins. Aðgangseyrir 1800 krónur fyrir fullorðna en 900 fyrir börn undir 16 ára. Heimasíðan.
>> Rauða hverfið (Reeperbahn) – Frægasta gata Hamborgar enn þann dag í dag er Reeperbahn í St. Pauli hverfinu. Töluvert hefur verið lappað upp á hverfið og göturnar frá því sem var en þetta er engu að síður ennþá rautt hverfi þar sem vændi og misjafnar knæpur eiga sér samastað. Samhliða vændi eru fíkniefni töluvert vandamál hér. Að því sögðu er ómögulegt annað en rölta þar um eftir að skyggja tekur og er það tiltölulega öruggt noti menn heilbrigða skynsemi. Þetta er ekki staður til að hella sig fullan og vafra svo heim á leið. Svæðið er einnig vinsælt á daginn enda fara miklar sögur af því þegar þetta þótti eitt skemmtilegasta en jafnframt hættulegasta hverfi Evrópu á árum áður.
>> Innflytjendasafnið (Ballinstadt) – Þær fimm milljónir Evrópubúa sem fluttust búferlum til Bandaríkjanna árin 1850 til 1939 fóru sjóleiðina og velflestir þeirra fóru frá Hamborg. Þetta safn er tileinkað þeim búferlaflutningum og er merkilegt. Safnið er í byggingum sem reistar voru sérstaklega fyrir þennan fjölda fólks og var þar í raun um að ræða litla borg því þarna gisti fólk, borðaði og þarna voru líka verslanir um tíma. Þarna má líka fletta upp skrám yfir þá sem ferð þessa fóru og margt athyglisvert að sjá. Lestir S3 eða S31 að Buxtehude eða það sem betra er að taka ferjuna frá bryggu 10 sem fer beinustu leið og má útsýnistúr um höfnina í leiðinni. Opið 10 – 18 alla daga. Aðgangseyrir 1700 krónur. Heimasíðan.
>> Vaxmyndasafnið (Panoptikum) – Frægasta og elsta vaxmyndasafn Þýskalands er staðsett í Spielbudenpladz í St.Pauli við hlið Reeprbahn en þar eru til sýnis 120 vaxmyndir af frægu fólki dag hvern. Ágæt skemmtun ekki síst ef börnin eru með í för enda má hér sjá fígurur á borð við Harry Potter. Opið daglega 11 – 21. Punga þarf út 800 krónum og börnin helming þess. Heimasíðan.
>> Kryddsafnið (Spicys Gewürtzmuseum) – Hamborg er alla jafna ekki þekkt fyrir krydd í dag en það var hún á öldum áður þegar hingað komu Hansakaupmenn með allt það nýjasta frá Nýja heiminum. Allt um það hér og yfir 50 mismunandi tegundir af kryddum til sýnis og sum til smökkunar. Safnið stendur við Am Sandtorkai við Saxelfi. Opið þriðju- til sunnudaga milli 11 og 18. Aðgangseyrir 450 krónur.
>> Dýflissurnar (Hamburg Dungeon) – Það eru stór og mikil gögn undir Hamborg eins og raunin er með fjölda miðaldaborga Evrópu. Hér er mikil saga og allt sett í vinsælar ferðamannabúning. Við Kehrwieder skammt frá Putalandi. Jarðlest U3 til Baumwell. Opið 10 – 17 alla daga. Miðaverð 2700 krónur en 2000 fyrir börn og unglinga. Heimasíðan.
>> Hafnarborgin (Hafencity) – Hafnarborgin er viðamikið verkefni borgaryfirvalda sem skipulögðu þetta hverfi frá grunni með það í huga að fríska upp á hafnarsvæðið. Vinnu er langt í frá lokið en forvitnilegt að sjá nýtískulegar byggingarnar ofan í gamla hafnarsvæðinu. Þarna er ágætt að rölta um á sumrin enda töluvert mannlíf.
>> Dýragarðurinn (Hagenbeck Tierpark) – Dýragarður Hamborgar þykir einn sá besti í Þýskalandi og er ákjósanlegt að kíkja þangað ef smáfólk er með í för. Þar má sjá 2500 dýr og 360 mismunandi tegundir. Jarðlest að Tierpark. Opið 9 – 17 daglega. Prísinn 2200 fyrir fullorðna og 1400 fyrir börn og unglinga. Heimasíðan.
]
>> Außenalster (Außenalster) – Yfir sumartímann finnst borgarbúum fátt meira spennandi en eyða tíma við tvö af þeim manngerðu vötnum sem við borgina eru en Außenalster er það stærra og Binnenalster það minna. Þar má leigja skútur og kænur og margir baða sig og sóla þegar veður leyfir.
>> Kirkja heilags Nikulásar (St.Nikolai kirche) – Ein af fimm kirkjum í borginni nema þessi var sprengd í tætlur í Seinni heimsstyrjöldinni en látin standa til minningar um hrylling stríðsins. Turn hennar og framhlið stendur ennþá og hafi menn nennu til að rölta upp er hægt að fá fína útsýn yfir borgina. Önnur kirkja með sama nafn er nýrri og stendur í norðurhluta borgarinnar en það er yfirleitt þessi sem menn meina þegar talað er um St. Nikolai. Aðgangur að útsýninsturninum kostar 700 krónur. Þess má geta að annar ágætur útsýnisturn er í annarri kirkju, St. Michelis, en þar er straumur ferðamanna yfirleitt meiri.
>> Gamla höfnin (Alte Deichstraße) – Á leiðinni frá miðbænum gegnum Willy Brandt Straße og að Alte Deichstraße má sjá gamlar byggingar sem víða hefur verið vel haldið við. Við Alte Deichstraße var svo fyrsta höfnin í borginni og eru þar nokkur síki og skammt frá er hið fræga Putaland.
>> Cap Santiago (MS Cap Santiago) – Cap Santiago er gamaldags flutningaskip sem hefur verið breytt í safn og það er hægt að skoða allt að innan. Ekkert stórkostlega spennandi þó nema helst fyrir áhugafólk um skip. Skipið liggur við Uberseebrücke farþegaskipabryggjuna í Hamborg. Opið 10 – 18 daglega. Aðgangur 1100 krónur. Heimasíðan.
>> Sílehúsið (Chilehaus) – Þessi bygging á Fischertwiete götu er ein merkilegasta bygging borgarinnar hvað arkitektúr varðar enda kennt við stefnu sem gengur undir nafninu kontorhaus stíll. Tíu hæðir úr dökkum merkilegum steini og úr fjarska lítur framhlið þess út eins og stefni á skipi.
>> Plöntu- og blómagarðurinn (Planten und Blomen) – Ágætur garður ekki langt frá miðbænum þar sem áherslan er lögð á plöntur og blóm. Afar fallegur á sumrin þegar allt er í blóma en öllu lakari áfangastaður á öðrum árstímum. Mjög vinsæll hjá barnafjölskyldum um helgar. Heimasíðan.
Til umhugsunar: Borgaryfirvöld gefa ár hvert út þykkan bækling um öll söfn borgarinnar, helstu dásemdir þeirra og helstu upplýsingar. Þessi bæklingur, Museemswelt Hamburg, er ókeypis og fæst á öllum upplýsingastöðum fyrir ferðamenn.
>> Altonaer safnið (Altonaer Museum) – Þetta má kalla borgarsafnið enda saga borgarhluta Hamborgar skýrð hér í máli og myndum. Við hliðina er Altonaer leikhúsið. Museumstraße. Opið þriðju- til sunnudaga milli 11 og 18. Aðgangur 950 krónur. Heimasíðan.
>> Þjóðmenningarsafnið (Museum für Völkerkunde) – Fróðlegt safn við Rothenbaumchaussee um heiminn og þá sem þar lifa. Ýmislegt merkilegt að sjá og jafnvel snerta og uppákomur reglulega. Jarðlest U1 að Hallerstraße. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga. Prísinn 1200 krónur. Heimasíðan.
>> Flotkirkjan (Flussschifferkirche) – Ef þú kemst ekki í kirkjuna þá kemur kirkjan til þín. Það er slagorð þessarar merkilegu kirkju sem er um borð í gömlum dalli á Saxelfi. Báturinn sjálfur er ávallt á sínum stað og þar er hægt að ganga að messum vísum hvern sunnudag og vinsælt er að láta gefa sig saman um borð. Báturinn liggur við hina skemmtilega nefndu Hohe bryggju númer 2. Jarðlest að Baumwall. Opið á messutíma. Aðgangur ókeypis. Heimasíðan.
>> Borgaróperan (Hamburgische Staatsoper) – Óperuhöllin í Hamborg er meðal þekktari óperuhúsa í norðanverðri Evrópu og meðal annars þar sem nokkrir af okkar ágætu söngvurum böðuðu sig fyrst í ljósi frægðarinnar. Hér má ganga að fínum sýningum vísum. Theaterstraße 25. Miðaverð frá 1400 krónum og uppúr. Heimasíðan.
>> Borgarleikvangurinn (Volksparkstadion) – Tuðruáhugamenn gætu haft gaman af því að sjá eins og einn leik með hinu fræga liði borgarinnar Hamburger Sportverein, HSV, sem hér spila. Leikvangurinn einn sá skemmtilegasti í þýsku deildinni. Miða er yfirleitt hægt að kaupa á leikdegi og miðaverð er frá 1200 krónum. HSV rekur líka safn hér þar sem saga liðsins er rakin og auðvitað hægt að kaupa fullt af drasli. Heimasíðan.
Verslun og viðskipti
Hamborg er stærsta verslunarborgin í norðurhluta Þýskalands en ólíkt Berlín til að mynda er hún talsvert dýrari og hæpið að Íslendingar með sína bækluðu krónu rokki mikið í verslunum þar. Flestar verslanir eru opnar frá 10 til 20 á kvöldin.
Búðir er að finna um alla borg en vinsælustu verslunargöturnar eru Mönckebergstraße, Spitalerstraße og breiðgatan Jungfernstieg. Þá er mjög að aukast úrval verslana í Hafencity en þá eru ótaldar einar þrjár vinsælar verslunarmiðstöðvar.
- Colonnaden
- Europa Passage
- Neuer Wall
- Hansa Viertel
Töluverður fjöldi afsláttarverslana, outlets, er að finna í og við Hamborg. Þær helstu eru:
Markaði er að sjálfsögðu hér að finna líka. Einn slíkur, Hopfenmarkt, er staðsettur við kirkju heilags Nikulásar.
Matur og mjöður
Einir sextán veitingastaðir í borginni eru með eða hafa fengið Michelin stjörnu og eru flestir dýrir eftir því. Fimm þeirra eru:
Annars er enginn einasti skortur á matsölustöðum í borginni og víða hægt að fá mat fyrir lítið. Hundruð staða í miðbænum einum saman. Þá er alltaf gott ráð að forvitnast hjá heimamönnum hvaða staður sé vinsæll þá og þá stundina. Góð hverfi með fjölbreyttum veitingastöðum eru til dæmis Schanzenviertel þar sem unga fólkið er meira áberandi en annars staðar. Sama má segja um Karolinenviertel sem er vasaútgáfa af Schanzenviertel en þar eru mun færri ferðamenn alla jafna.
Norðaustur af miðbænum er að finna Sankt Georg sem er miðpunktur samkyneigðra í borginni og þeir eru ekki fáir. Fjölbreytt úrval staða þar líka.
Hvað mjöðinn varðar er það ennþá minna vandamál. Barir og knæpur í tonnatali um allan bæ en Reeperbahn er staður númer eitt, tvö og þrjú. Þar er fjöldi staða af ýmsu tagi. Þá eru og fjöldi staða meðfram Saxelfi.
Hátíðir og húllumhæ
Frægasta hátíð borgarinnar, Dommarket, er bæði markaður og tívolí en sá fer fram aðeins þrisvar á ári hverju í St.Pauli hverfinu. Dom fer fram í mars, júlí og nóvember heilan mánuð í senn. Opnar þá daglega klukkan 15 og er opið frameftir kvöld og yfirleitt ekki lokað fyrr en svæðið fer að tæmast. Öll föstudagskvöld er mikil flugeldasýning. Heimasíðan.
Fiskimarkaðurinn, Fischmarkt, er annar stór og vinsæll markaður en ber ekki nafn með rentu því lítið er af fisksölumönnum og meira af annars konar sölumönnum. Þessi elsti markaður borgarinnar á rætur að rekja til ársins 1703 og er opinn alla sunnudagsmorgna á sumrin frá 5 til 9:30 og frá 7 til 9:30 á veturna. Heimasíðan.
Það er hins vegar Hafnardagurinn, Hafengeburtstag, sem er að öðrum ólöstuðum merkilegasta hátíð Hamborgara fyrir ferðafólk. Þá blása velflest skip í allri höfninni í borginni í lúðra sína og höfnin og svæðið kringum hana fyllist af lífi og fjöri. Er þetta langstærsti slíki viðburðurinn í heiminum og mannfjöldinn skiptir jafnan milljónum. Ýmislegt forvitnilegt í boði sem of langt mál væri að telja upp. Þessi hátíð fer fram árlega í byrjun maí. Lestir S1 eða S3 að Landungsbrücken eða jarðlest U1 að Baumwall. Heimasíðan.
Skammt fyrir utan Hamborg í Eichbaumsee fer árlega fram í lok ágúst vinsæl rokktónlistarhátíð sem Wutzrock heitir. Sú er ágæt sé fólk á ferð um borgina þá en aðgangur er ókeypis. Heimasíðan.
Líf og limir
Í raun er aðeins eitt svæði sem getur verið varasamt í Hamborg og það er eðlilega á Reeperbahn og nálægum götum í St.Pauli. Þar eru reyndar líka flestir lögregluþjónar á miðbæjarsvæði í öllu Þýskalandi en það er ástæða fyrir því. Þar er auðvelt að lenda í ryskingum bæði við heimamenn og drukkna ferðamenn sem eru karlmenn í yfirgnæfandi meirihluta.
Til umhugsunar: Sérstaka aðgát skal hafa kringum mótmælagöngur sem eru æði algengar yfir sumartímann og fara nær allar gegnum Reeperbahn. Hvorki mótmælendur almennt né lögregla hafa mikla þolinmæði fyrir ferðamenn á slíkum stundum.
Hægt er að baða sig í Saxelfi á sólardögum og það gera margir. Hafa þarf samt í huga að fara ekki of langt út í og hafa sérstaka gát á bátum og skipum.
Að öðru leyti er heilbrigð skynsemi sterkasta vopnið gegn áföllum.