Skip to main content

Hvort sem mönnum líkar betur eða verr eru fíkniefni mjög eftirsótt í flestum löndum heims og svo mjög reyndar að þeim fjölgar ört ríkisstjórnunum sem leyfa vægari slík efni. 

Í Portúgal er neysla „léttari“ fíkniefna leyfileg

Í Portúgal er neysla „léttari“ fíkniefna leyfileg

Eðlilega gætu sumir sagt enda fræðingar almennt sammála um að hálfrar aldar barátta löggæslu gegn slíku hefur lítinn sem engan árangur borið.

Jafnvel þó strangt til tekið séu öll slík efni ólögleg í nokkrum löndum er litið framhjá einkaneyslu á stöðum eins og í París, Madríd, Brussel eða Róm.

Portúgal hefur fyrir nokkru gengið mun lengra og þar er neysla „léttari“ efna beinlínis leyfð. Engar fregnir eru af sérstökum vandamálum þar þess vegna þau ár sem það prógramm hefur verið í gangi.

Hér er listi yfir nokkur lönd þar sem hassreykingar eru annaðhvort leyfilegar í litlu magni eða efnið bannað en lögum ekki harkalega framfylgt.

♥  Holland: Allir vita af Hollandi og reykhúsunum margfrægu. Stjórnvöld eru reyndar að loka mörgum slíkum búllum en það breytir ekki því að það er leyfilegt í landinu að reykja allt að fimm grömmum á dag. Algengt er að verða vitni að slíkum reykingum í almenningsgörðum og á öðrum opinberum stöðum.

♥  Þýskaland: Lög í landinu kveða á um að einstaklingar megi reykja lítið magn en þá aðeins á heimilum eða í slíkum rýmum en hart er tekið á því sjáist til einhvers bræla á almannafæri.

♥  Spánn: Strangt til tekið er neysla kannabis ólögleg þar í landi en litið er framhjá því að mestu og jafnvel þó lögregla nái þér við iðjuna er afar ólíklegt að gert verði annað en efnin verði gerð upptæk. Í landinu eru sérverslanir með fíkniefni sem leyfi hafa til rekstursins.

♥  Frakkland: Sömu reglur og á Spáni. Reykingar almennt litnar hornauga af löggæslu en efnin í versta falli tekin af þér án frekari aðgerða.

♥  Ítalía: Ólöglegt en lítið magn, gramm eða minna, sleppur komist lögregla í málið. Í smábæjum er þetta verr séð en í stórborgunum.

♥  Bandaríkin: Neysla kannabisefna í einrúmi er nú leyfileg í Washington- og Coloradofylki. Sérstakir söluaðilar selja vörunar og svo lengi sem þú smókar ekki á miðri götu er þetta í góðu lagi. Þá er það og staðreynd að lögregla í stórborgum Kaliforníu lítur mikið til framhjá notkun á vægari efnum.

♥  Portúgal: Neysla vægari efna leyfð og meira að segja horft fram hjá neyslu á sterkum efnum. Þó aðeins ef ljóst er að um eigin neyslu er að ræða. Leiki grunur á sölu eða dreifingu ertu í vondum málum.