Þ eim fer hægt og sígandi fjölgandi sem reyna að komast leiðar sinnar erlendis á eigin spýtur og fljúga þá gjarnan til London og halda þaðan áfram lengra út í heim.

Það getur verið hræðilega flókið að veltast milli flugvalla í og við London

Það getur verið hræðilega flókið að veltast milli flugvalla í og við London

Þetta hefur þann leiða í för að stundum þarf að flakka milli flugvalla til að komast leiðar sinnar og í London getur slíkt flakk orðið að martröð. Þar eru einir ellefu flugvellir sem teljast til London þó aðeins fimm þeirra séu flokkaðir sem alvöru millilandaflugvellir.

Slíkt vefst fyrir mörgum enda óþægilegt að þvælast milli flugvalla með farangur og ekki síður tiltölulega dýrt. Fyrir utan að oft á tíðum er um töluverðan biðtíma að ræða og fátt í þessum heimi er þreyttara en hanga lengi í flugstöð.

Fararheill.is hefur tekið saman þá möguleika sem ferðalangar hafa á að komast á sem stystum tíma milli flugvallann kringum London. Oftast nær er langfljótlegast að taka leigubíl á milli en þeir eru fokdýrir og hafa takmarkað pláss fyrir farangur ef margir ferðast saman. Einfaldast er að taka rútur sem fara reglulega á milli þeirra flestra en á sumum völlum er í boði að taka lestir hluta leiðar eða alla leið.

Hafa skal í huga að það er alltaf í boði að fara inn í London, skipta um lest eða rútu og halda áfram för sinni en þetta getur verið martröð ef farangur er mikill eða tíminn knappur. Best að sleppa borginni sé þess kostur.

* Verð miðast við gengi krónu gagnvart pundi í mars 2015.

HEATHROW og GATWICK og öfugt

 1. Það er aðeins ein bein leið milli þessara flugvalla og það er með rútu frá National Express. Yfir hundrað slíkar fara 65 km ferðalagið á milli dag hvern og tekur ferðalagið klukkustund og 20 mínútur ef umferð er eðlileg. Ráð er þó að reikna með að rútan sé lengur á leiðinni því umferðartafir eru nokkuð algengar á þessari leið. Mælir Fararheill með að vera komin á brottfararflugvöll alls ekki síðar en tveimur stundum fyrir brottför. Rútur National Express finnast við allar flugstöðvarbyggingar Heathrow og vagnarnir stoppa við allar byggingar Gatwick. Stakur miði fyrir fullorðinn aðra leið kostar 4.700 krónur en hægt er að lækka það verð gegnum netið séu fleiri að ferðast saman. Rútur National Express eru þægilegar og allar með klósettaðstöðu. Gert er ráð fyrir að einstaklingur sé aðeins með 20 kíló af farangri en annars þarf að greiða aukagjald.
 2. Öllu ódýrari kostur en talsvert seinlegri er að sameina Gatwick hraðlestina til East Croydon og þaðan með X26 strætisvagni til Heathrow eða öfugt. Vagninn stoppar fyrir utan lestarstöðina og eru ferðir mjög reglulegar. Sú leið tekur að minnsta kosti tvær klukkustundir og getur farið í þrjár en ferðin alla leiðina kostar kringum 1.600 krónur.
 3. Þriðja leiðin er að fara með neðanjarðarlest frá Heathrow inn í London að Viktoríu stöð en þaðan eru bæði vagnar og lestir til Gatwick. Hægt er að sleppa með tæplega þúsund krónur þá leiðina en ferðalagið tekur aldrei minna en þrjár og hálfa klukkustund og þar er alltaf erilsamt í lestunum.

GATWICK og STANSTED og öfugt

 1. Aðeins ein bein leið í boði milli þessara flugvalla og það með National Express rútufyrirtækinu. Vegalengdin er 116 km og tekur vart undir þremur klukkustundum undir venjulegum kringumstæðum. Miði aðra leið fyrir fullorðinn kostar 5200 krónur. Þessir vagnar ganga ört til kl.21 á kvöldin en stöku ferðir þeirra taka önnur stopp á leiðinni. Spyrjið vagnstjóra til öryggis hvort svo sé eða skoðið uppfærða leiðatöflu National Express hér.
 2. Einnig er hægt að taka Gatwick hraðlestina að Viktoríustöð. Þaðan taka neðanjarðarlestina að Tottenham Hale stöðinni og þaðan bíða eftir NXEA lest sem fer beint til Stanstead. Þetta tekur tvo og hálfan til þrjár tíma í heildina og kostnaður kringum 5500 krónur.
 3. Hægt er að sameina rútu og lest með sama hætti. Taka Gatwick hraðlestina að Viktoríustöð en það er einnig samgöngumiðstöð og fyrir utan bíða vagnar National Express sem fara beint til Stanstead. Þessi kostur tekur svipaðan tíma, tvo og hálfan til þrjá tíma, og kostnaður er svipaður eða rúmlega 5000 krónur.

LUTON OG GATWICK og öfugt

 1. Hér gefst fólki kostur að taka lest á milli. First Capital Connect býður einar átta til tólf ferðir daglega en þó er hængur á að ekki er farið alla leiðina að flugvellinum í Luton. Er stoppað í grenndinni og þaðan verður að taka skutlu alla leiðina. Skutlurúnturinn tekur um tíu mínútur. Öll ferðin tekur þó rúmar tvær klukkustundir og á köflum tvær og hálfa klukkustund. Stakur miði kostar 5.200 krónur.
 2. Önnur leið er með National Express rútum sem fara frá flugstöð til flugstöðvar. Aðeins lengur á ferð en lestin en meðalrúnturinn getur tekið tvær og hálfa klukkustund og jafnvel lengur ef umferðartafir eru miklar. Gefa skal sér minnst fjórar til fimm klukkustundir milli fluga. Miðaverð aðra leiðina 4.600 krónur.
 3. Lengsta leiðin en jafnframt sú ódýrasta er að taka rútu til London. Nokkrir möguleikar í boði en rútur easyBus bjóða ferðir inn að Viktoríustöð á 600 krónur aðra leiðina og þar skipta yfir í easyBus rútu til Luton eða Gatwick sem kostar sama. Þannig er komist á milli fyrir um 1.200 krónur alls í viðbót við stundarkorn á Viktoríustöð við að skipta. Það er þó ekki flókið og fólk fær smá London í lungun meðan beðið er. Lægstu verð hjá easyBus fást aðeins fyrirfram gegnum netið.

STANSTED og LUTON og öfugt

 1. Að frátöldum leigubílum er aðeins ein leið fær hér á milli og það er með rútum National Express. Tvær slíkar fara á klukkustundarfresti á milli og tekur túrinn eina og hálfa klukkustund að jafnaði. Best að miða við tvær klukkustundir ef umferð skyldi vera í þyngri kantinum eins og oft er á þessum slóðum. Fullorðinsgjaldið er 2.400 krónur aðra leiðina. Sé tíminn nægur er hægt að fara gegnum miðborg London en það er nokkuð vesen. Það þýðir lest til London, neðanjarðarlest milli stöðva og svo aðra lest til Luton auk skutlu allra síðasta spölinn. Ekki mælt með því af hálfu Fararheill.

HEATHROW og STANSTED og öfugt

 1. Enn og aftur er rútufyrirtækið National Express með einkaleyfi á þessari leið. Rúnturinn milli tekur um eina og hálfa klukkustund og miði fyrir fullorðinn kostar um 5.000 krónur aðra leiðina.
 2. Hin leiðin er að fara inn í London en aftur þarf að þvælast milli stöðva og með neðanjarðarlest og er tómt vesen. Það tekur aldrei minna en þrjár klukkustundir og er ekki mikið ódýrara.

SOUTHEND og STANSTED og öfugt

 1. Nýjasti flugvöllurinn sem talinn er sem einn af flugvöllum London er Southend á austurströndinni en þaðan hófu nokkur lágfargjaldaflugfélög að fljúga sumarið 2012 og búist er að við að þeim fjölgi. Southend er í klukkustundar fjarlægð frá Stansted flugvelli sem aftur er í rúmlega klukkustundar fjarlægð frá miðborg London. Þangað er komist með rútufyrirtækinu Firstgroup frá Stansted fyrir 2.900 krónur á mann aðra leiðina.