Skip to main content

Samkvæmt fregnum hafa um 200 farþegar Wow Air nú beðið í sólarhring eftir að komast heim frá Kanaríeyjum eftir að ein vél flugfélagsins bilaði ytra. Í fréttum kemur fram að margir séu óánægðir en það er alls engin ástæða fyrir fýlu. Þvert á móti eiginlega.

Brosandi vélar. Og strandaglópar á Kanarí ættu líka að brosa í stað þess að setja upp skeifu

Brosandi vélar. Og strandaglópar á Kanarí ættu líka að brosa í stað þess að setja upp skeifu

Tvær ástæður fyrir að þeir sem fastir eru ættu að taka gleði sína að nýju. Annars vegar sú staðreynd að það er enginn dauðadómur að fá aukadag undir Kanarísól. Jafnvel þó það sé á flugvellinum. Það er jú ekki mjög langt að fara á næsta matsölustað, kaffihús eða bar.

Hin ástæðan þó öllu betri. Hún sú að þessi langa töf gulltryggir að Wow Air skal greiða bætur vegna tafanna og þær bætur nema litlum 84 þúsund krónum á hvern einasta kjaft. Töfin hefur með öðrum orðum farið langleiðina með að greiða fríið á Kanarí.

Þar með er ekki sagt að Wow Air greiði það þegjandi og hljóðalaust. Það þarf að ganga á eftir hlutum. Fyrst með skriflegri fyrirspurn til flugfélagsins og ef þar fæst neitun þá kæra það til Samgöngustofu. Tafir vegna vélabilana í flugi eru undantekningarlítið skaðabótaskyldar.

Aukasól á kropp og peningar í budduna. Hvað er svo neikvætt við það?