Það er víðar sem hlutir eru rotnir en í Danmörku. Það er ekki laust við það heldur í Flórída þar sem yfirvöld íhuga nú aðgerðir gagnvart bílaleigum sem bæta feitum aukagjöldum ofan á leiguverð til ferðamanna.

Yfirvöld í Flórída íhuga aðgerðir gegn Hertz og dótturfyrirtækjum fyrir væna smurningu ofan á gjöld ferðafólks.

Yfirvöld í Flórída íhuga aðgerðir gegn Hertz og dótturfyrirtækjum fyrir væna smurningu ofan á gjöld ferðafólks.

Fáum á að koma á óvart að þar er risinn Hertz fremstur í flokki og dótturfyrirtækið Dollar/Thrifty. Þau fyrirtæki leggja á hæstu gjöld af bílaleigum ef ferðafólk í fylkinu notar tollavegi án þess að gera sér grein fyrir.

Formáli þessa er sú staðreynd að Flórídafylki er að losa sig alfarið við mönnuð tollahlið. Þar hefur nánast verið lokið við að henda mannlegum tollurum á haugana og þess í stað brúka nýjustu tækni með eftirlitsmyndavélum.

Þetta hefur valdið töluverðum misskilningi hjá ferðafólki sem oft á tíðum áttar sig ekki á að það sé að nota þjóðvegi, sem eru yfirleitt þeir vegir sem greiða þarf sérstaka tolla til að nota. Þess vegna eru tollagjöld að detta inn á kreditkortareikning erlendra ferðamanna allt að tveimur mánuðum eftir að Flórídaferðinni lauk. Og eins og tollurinn sjálfur sé ekki nóg þá smyrja bílaleigur margar sérstöku gjaldi ofan á líka.

Þar fremst í flokki Dollar/Thrifty sem bætir tæpum tvö þúsund króna „vinnslugjaldi“ ofan á tollagjöld í hvert einasta sinn sem ekið er óafvitandi hjá tollaradar. Góður rúntur um góða vegi fylkisins geta því bætt tugþúsundum króna ofan á hefðbundið bílaleigugjaldið þegar öll kurl koma til grafar. Móðurfyrirtæki Dollar/Thrifty, Hertz, þykir líka smyrja of duglega á ferðamenn en þar telur „vinnslugjaldið“ einnig allt að tvö þúsund krónum í hvert skipti að því er fram kemur hjá dagblaðinu Miami Herald.

Það kannski segir sitt um einbeittan brotavilja að Hertz greiddi rúmlega 1,4 milljarð króna í sektir árið 2011 vegna innheimtu of hárra tollagjalda. Fimm mínútum síðar er fyrirtækið dottið í sama pakkann.

Sem þýðir auðvitað að fólk á að hætta viðskiptum við Hertz því hver sá sem leyfir fyrirtækjum að svindla á sér oftar en einu sinni án þess að læra nokkurn hlut er á brún þess að vera í flokki fávita.