Þeir eru tveir staðirnir í Marokkó sem sérstaklega hafa verið kynntir hin seinni ár sem ákjósanlegir áfangastaðir fyrir sólþyrsta ferðalanga. Agadir er sá fyrri en Essaouira sá seinni. Auglýsingarnar hafa náð takmarki sínu því Essaouria er kominn á kort ferðalanga sem vilja ódýran valmöguleika við sífellt dýrari Kanaríeyjar sem eru aðeins í tveggja daga fjarlægð héðan með báti.

Og sannarlega er uppihald í Marokkó mun ódýrara en allt á hinum spænsku Kanaríeyjum. Gróflega má segja að gisting og matur hér sé 30 til 50 prósent ódýrari en sambærileg dvöl á Kanarí eða Tenerife. Munar sannarlega um minna.

En það er eitt stór EN sem bætist við þegar Essaouira er borin saman við helstu staði á Kanaríeyjum. Hér er nefninlega lítið í boði annað en flatmögun á strönd og hangs á hótelstólum. Hér eru ekki ennþá neinar verslunarmiðstöðvar þar sem þeir kaupglöðu geta eytt stundum þegar sólarleiði gerir vart við sig. Sömuleiðis líður mörgum mun verr umkringdir múslimum en kaþólskum þó það sé í raun fráleitt.

Essaouira er vissulega valkostur við sólbaðsfrí en nokkur uppbygging þarf að eiga sér þar stað áður en hún kemst í flokk með Benídorm eða Playa Inglés hvað ferðamenn varðar. Ströndin er sérstaklega vinsæl meðal þeirra sem stunda seglbrettasiglingar og reyndar líka meðal flugdrekaáhugamanna sökum þess hve vindasamt er hér alla jafna.

Borgin, ef borg má kalla, er lítil og ekki ýkja mikinn tíma þarf til að skoða hana alla. Hún er tiltölulega örugg og bæjarbúar vinsamlegir að mestu. Og strandlengjan jafnast á við það besta sem evrópskir sólarstaðir bjóða þó vissulega sé hér aðeins vindasamara en víða annars staðar. Það aftur er bara jákvætt þegar sólin verður hvað heitust.

Til og frá

Langstærsti gallinn við Essaouira er að þangað er aðeins komist með bíl eða lest frá öðrum stöðum í Marokkó. Næsti alþjóðaflugvöllur er í Marrakesh og þangað er fjögurra klukkustunda keyrsla. Þó er ritstjórn Fararheill á þeirri skoðun að það sé jákvætt því borgin verður fjöldatúrisma ekki að bráð á meðan.

Tvær leiðir eru færar frá Marrakesh. Annars vegar að leigja svokallaðan grand taxi, sem er stór og þægilegur leigubíll, til að aka með fólkið. Þetta er fín leið ef fjórir ferðast saman en miðaverð á einstakling er 12 þúsund krónur.

Hin leiðin er með rútum og er það hræbillegt eða kringum 1.300 krónur ásamt vægu gjaldi fyrir farangur. Engin klósett eru um borð í rútunum sem eru flestar þokkalegar en eitt stopp er á leiðinni.

Samgöngur og snatterí

Engin þörf á neinu slíku innan borgarinnar. Eini hlutinn sem heillandi er við Essaouira fyrir utan ströndina sjálfa er gamli miðbærinn, medina, en sá hluti er enn þann dag í dag innan heilla borgarveggja frá fyrri tíð. Töluvert líf er ávallt í þessum hluta bæjarins og þar er allt það að sjá sem merkilegt er. Að öðru leyti er borgin aðeins íbúðarhúsnæði að mestu. Auðvitað eru hér leigubílar og ýmsir fararskjótar í boði vilji menn taka túr og sjálfsagt að prútta í tætlur.

Söfn og sjónarspil

Eins og komið hefur fram er ekki ýkja mikið að sjá í bænum og ekkert frámunalega heillandi er hér ef frá er talin menningin sjálf og vissulega er áhugavert að ganga um gamla borgarhlutann. Það sem vekur mesta athygli við Gamla bæinn, Medina, er að sá er alfarið hannaður af Evrópubúum. Vildi konungur gera virki og þorp við sjó eins nálægt Marrakesh og mögulegt var og hófst verkið aðeins á átjándu öld. Hér eru töluvert líf alla daga. Sölubásar víða og allgóður markaður. Þröng strætin eru skemmtileg og hér hafa allnokkrar kvikmyndir verið teknar.

Erfitt er að mæla sterklega með öðru í Essaouira því annað markvert að sjá er ekki mikið. Helst mun höfnin vekja athygli en þó vart fyrir annað Þó eru ýmis konar styttri og lengri ferðir héðan í boði en helst er skemmtilegt að taka þátt í einhverju sporti á ströndinni. Þar er ýmislegt í boði og nægir þar að nefna kamelferðir eða það sem betra er hestaferðir á stórum og fallegum arabískum hestum. Er það töluvert frábrugðið því að ríða íslensku hestunum.

Hafi menn áhugi á seglbrettasiglingum eða flugdrekaflugi er nóg um að vera á ströndunum Essaouira, Sidi Kaouki og Mouley Bouzertoune. Þar er hægt að leigja ýmis tæki og tól til ýmissa athafna en prísinn er töluvert hár og um að gera að reyna prútt hér.

Matur og mjöður

Essaouira fær ekki háa einkunn hjá matgæðingum og heldur ekki hjá drykkjufólki. Matur er almennt dýr hér á hótelunum. Öllu ódýrari er hann á götum borgarinnar en ekki leggja allir í þá rétti sem þar eru í boði. Eðlilega kannski enda er niðurgangur algengur hjá ferðamönnum sem óhræddir eru að leggja sér vafasaman mat til munns.

Fiskurinn er hér hvað mesta ljúfmetið enda kemur hann ferskur daglega víðast hvar. Hann er þó töluvert dýr. Margir veitingastaðir eru í gamla miðbænum og margir ágætir þó úrvalið sé takmarkað og fæstir bjóði alkóhól með.

Að sama skapi er áfengi strangt til tekið bannað hér en það er auðvitað engu að síðu fáanlegt á erlendu hótelunum. Þess utan getur verið flókið að finna veitingastað eða kaffihús þar sem bjór eða vín eru fáanleg.

Djamm og djúserí

Það er töluvert líf á þeim erlendu hótelum sem hér eru því sökum verðlagsins eru þau ódýr á alþjóðlegan mælikvarða. Hversu mikið fjör er veltur á þeim hópum sem hótelin trekkja að hverju sinni en yfir sumarmánuðina er hér töluvert líf í tuskum.

Það fer reyndar fram hér ein hátíð árlega sem er þess virði að leggja sig eftir. Er það heimstónlistarhátíðin Essaouira Gnaoua þar sem fram koma ýmsir frábærir listamenn sem enginn hefur heyrt um.

Verslun og viðskipti

Fyrir þann sem er að koma til Marokkó fyrsta sinni er ýmislegt handverk heimamanna forvitnilegt og hægt er að gera ágæt kaup hér svo lengi sem menn prútta og það af alvöru. Eins og annars staðar í landinu má gróflega gera ráð fyrir að vara fáist á helmingi þess verðs sem krafist er í upphafi.

Slíka muni er að finna víða í gamla borgarhlutanum og farandsölumenn eru hér líka sem flakka á milli hótela og gistihúsa. Sjálfsagt er að skoða og láta ekki undan þó sölumenn beri sig illa.

Líf og limir

Margir óttast glæpi í Marokkó þó sjaldan geti þeir gefið ástæðu fyrir því. Þvert á móti er afar ólíklegt að eitthvað komi fyrir hér enda gegn trú heimamanna að ræna eða stela. Svindl eða hark er aftur á móti þjóðariðja og menn hika ekki við að selja muni á yfirverði.