L esendur okkar vita að við hvetjum alla sem vettling geta valdið að drífa sig út í heim og njóta lífsins áður en við hættum að heyra og sjá, kúkum aftur í bleyju á elliheimilinu og fáum aldrei heimsóknir.

Best að geyma allt tengiflug næstu misseri.

Við höfum alla tíð líka lagt okkur fram um að finna lægstu hugsanlegu fargjöld hingað og þangað til að liðka fyrir slíkum ferðum. Oft er beint flug ekki í boði, oft er beint flug fáránlega dýrt og óbeint flug töluvert ódýrari kostur æði oft líka.

En hængur er á þessi dægrin. Hængurinn sá að tengiflug er líklega ekki sniðug hugmynd á meðan Kófið geysar og boð, bönn og reglur breytast nánast daglega í hverju landi undir sólinni. Útlitið kann að vera gott á Ítalíu þennan daginn og allt að opnast í Egyptalandi á morgun en svo líður sólarhringur til og allt í uppnámi aftur vegna vaxandi fjölda smita.

Þetta gerir öll ferðalög vægast sagt erfið jafnvel þó um beint flug sé að ræða. Þetta gerir það líka nánast vonlaust ef þörf er á tengiflugi. Reglurnar kveða víða á um sóttkví fyrir aðkomufólk og sú regla gildir þó þú sért aðeins að stoppa á flugvellinum í 50 mínútur. Þar með er tengiflugið farið fyrir lítið og engin endurgreiðsla.

Vænlegast að hinkra fram á sumar eða jafnvel haustið áður en þó bókar safaríkan túr til Mexíkó gegnum Kanada eða til Tyrklands gegnum Þýskaland. Flækjustigið er einfaldlega allt of mikið þessa dagana.