Skip to main content

Það var og! Loks búin að eyða um 600 dögum í að skoða hið fræga safn Musée du Louvre í París í þaula aðeins til að komast að því við brottför að til standi að opna heila nýja álmu.

Sem vitaskuld er fagnaðarefni jafnvel þótt meðaltími til að skoða safnið vel og duglega lengist við þetta í tæpa 700 daga eða svo.

Um er að ræða álmu tileinkaða íslamskri list en af slíkum munum á safnið gnótt verka eða alls rúmlega 14 þúsund talsins. Sem Louvre er von og vísa eru mörg þeirra verka ekkert minna en stórkostleg.

Álman er reyndar ekki glæný af nálinni því einn hluti safnsins var áður tileinkaður íslamskri list og sögu en fjórtán þúsund verk komast illa fyrir í þúsund fermetra salarkynnum og því var álman stækkuð í þrjú þúsund fermetra.

Til stóð af hálfu safnsins að opna nýju álmuna sumarið 2012 en því frestað fram til. september.  Kannski ráð að hinkra með ítarlega heimsókn sé sérstakur áhugi á slíkri list.

Þak nýju álmunar hefur vakið athygli en það er eins konar segl úr gulli og gleri sem breytir töluvert ásýnd hússins. Eru þetta mestu breytingar á safninu sem gerðar hafa verið síðan glerþríhyrningurinn umdeildi var settur upp fyrir 20 árum.