Skip to main content

V el áður en kengrugluðum fasista, Donald Trump, hugkvæmdist að byggja múr milli Bandaríkjanna og Mexíkó var látið reyna á sömu hugmynd í Bretlandi. Með vægast sagt takmörkuðum árangri.

Enn má fylgja vegg Hadríans nánast þvert yfir Bretland. Mynd Andrew Cheal

Enn má fylgja vegg Hadríans nánast þvert yfir Bretland. Mynd Andrew Cheal

Hadrian Rómarkeisara datt snjallræði í hug 122 árum fyrir fæðingu Krists. Herir hans voru orðnir heldur teygðir í allar áttir og óhrjálegir barbarar stálu og plundruðu öllu sem þeir komust í á yfirráðasvæði hans í því sem nú er gróflega England. Barbararnir og óþjóðalýðurinn komu norðan að, frá því svæði sem nú nefnist Skotland.

Svo keisarinn ákvað að byggja múr einn mikinn þvert yfir norðurhluta Englands bæði til að vernda heri sína og ekki síður bændur þá er jörðina yrktu en stórir herir hans þurftu mikinn kost og hann fengu þeir frá bændum á nálægum jörðum. Með slíkum vegg gat Hadrian ennfremur krafið bændur um aukinn skatt. Allir græða nema fátækir bændurnir auðvitað.

Veggurinn var byggður og því lýst formlega í Róm yfir að veggurinn táknaði endimörk hins siðmenntaða heims. Norðan við vegginn áttu aðeins heima ribbaldar, dusilmenni og barbarar sem engu tauti var komið við. Glíma reyndar margir Englendingar enn þann dag í dag við þetta sama vandamál og vilja meina að Skotar séu ribbaldar og barbarar sem engu tauti er komið við. Ekki er annað vitað en veggurinn mikli hafi að vissu leyti staðið fyrir sínu þó aldrei hafi tekist að koma alveg í veg fyrir rányrkju norðanmanna og stöku innrásir.

Veggur Hadrians stendur enn að mestu leyti þó kvarnast hafi úr honum á stöku köflum. Þó eru virkisturnar er einnig voru reistir meðfram veggnum horfnir en veggurinn er engu að síður mikið stórvirki enda nær hann þvert yfir England alls 177 kílómetra leið. Fimmtán kílómetrum norðar eru núverandi landamörk Englands og Skotlands.

Afar vinsælt er að ganga eftir veggnum endilöngum endilöngum frá austurhlutanum við Newcastle og alla leið vestur til Carlisle. Sú leið gjarnan farin í sex þrepum á sex dögum en færri komast að en vilja því gisting er af skornum skammti á leiðinni og mikið af landinu sem um er farið er í einkaeigu.

Það er orðinn árlegur siður í mars ár hvert að fjölmennur flokkur sjálfboðaliða taki sér stöðu meðfram veggnum og kveiki á blysum og kyndlum. Það þykir stórkostleg sjón. Fyrst var það gert 2010 til að minnast sjálfstæðis Bretlands frá Rómverjum og hefur siðurinn haldist þó ekki taki jafn margir þátt og þá.