F jölmargir leggja leið sína til Andalúsíu á Spáni í sumarleyfum sínum. Margir eiga einnig íverustað nálægt Alicante eða Murcia og þar í kring. Þess vegna vekur það nokkra furðu hversu fáir vita af þeim ótrúlega mörgu hellahíbýlum sem finnast í grenndinni.

Sannarlega öðruvísi og gistimöguleiki sem Fararheill mælir heils hugar með

Sannarlega öðruvísi og gistimöguleiki sem Fararheill mælir heils hugar með

Um er að ræða íverustað heilu fjölskyldanna sem annaðhvort er að fullu eða að hluta til hoggið inn í mjúkt bergið á þessum slóðum. Upphaflega gerðu tatarar sér bústaði með slíkum hætti en þetta þykir verulega móðins í dag og dæmi um að ríkustu fjölskyldurnar á svæðinu búi í stórum helli.

Ferðamönnum gefst færi á að prófa herlegheitin ansi víða bæði gegnum opinberar hótelsíður en líka gegnum heimilisskipti enda fjölmargir útlendingar sem eiga slík mannvirki. Finna má slík til leigu í og við Granada, Baza, Cúllar og Guadix sérstaklega en þau eru mun víðar.

Ekkert að þessu. Hlýtt og gott á kvöldin og kælandi yfir hádaginn. Toppurinn.

Ekkert að þessu. Hlýtt og gott á kvöldin og kælandi yfir hádaginn. Toppurinn.

Ritstjórn Fararheill.is getur hiklaust mælt með þessum kosti nokkrar nætur eða svo. Velflestir hellar sem til leigu eru eru dásamlegir frá A til Ö. Uppábúnir og kósí í meira lagi. Sumir þeirra dýrari eru einnig með sundlaug og eða arinn í þokkabót.

Þetta er þó ekki gefins að upplifa slíkt. Helst er að fá gott verð fyrir lengri dvöl en það hentar kannski mörgum illa enda töluverður spotti til næstu borga eða strandar. Fyrir stöku nótt í helli fyrir tvo til fjóra má gera ráð fyrir að fjarlægja þurfi að minnsta kosti 20 þúsund krónur úr veskinu.

Á móti kemur að um töluverða upplifun er að ræða og hvaða líkur eru á að dvalið sé oft á lífsleiðinni í helli í fjalllendi erlendis?

Lítið mál er að finna hellahótel eða hús til leigu. Vænlegast að leita að húsaskjóli í einhverjum af ofannefndum bæjum á hótelleitarvél Fararheill. Ágætt að hafa í huga að hellir á spænsku er cueva og cuevas í fleirtölu ef þú vilt leita á google. Allnokkur fjöldi er að bjóða slíkt á þessum slóðum.