Tíðindi

Eins og grautur kringum heitan kött

  02/11/2011desember 6th, 2014No Comments

Fregn DV þess efnis að eigandi Iceland Express, Pálmi Haraldsson, hafi verið fljótur að bjóða fyrirtæki sitt til sölu þegar fregnaðist af stofnun nýs flugfélags sem fengið hefur nafnið Wow hefur vakið athygli.

Ekki fórst nýjum forstjóra Iceland Express, Skarphéðni Berg, vel að útskýra í þeirri frétt að fyrirtækið væri alls ekki og hefði alls ekki verið til sölu en hefði samt verið boðið eigendum Wow í þetta eina skipti. Varð einum úr ritstjórn Fararheill að orði að Skarphéðinn hefði farið kringum spurninguna eins og grautur kringum heitan kött.

Lögmaður einn er sæmilega kunnugur er stöðu mála hjá Iceland Express og almennt í ferðabransanum á Íslandi fullyrðir að skjálfti sé í Pálma Haraldssyni. Hann geri sér ljóst að vörumerki Iceland Express sé alvarlega laskað en það hafi ekki skipt hann svo miklu máli meðan fyrirtækið sýndi góðan hagnað. Ljóst er þó að hagnaður þessa árs er lítill sem enginn og þess vegna hafi hann ekki sett sig gegn því að selja ef Skúli Mogensen og félagarnir á bak við Wow hefðu haft áhuga.

Boðinu var hafnað og Wow mun hefja hér starfsemi á vormánuðum. Ritstjórn telur engan vafa leika á að spennandi tímar fara í hönd fyrir ferðalanga. Útlit er loks fyrir alvöru samkeppni á Íslandi.