Sérstök áramótagolfferð Express ferða til Spánar í lok desember er enn sérstakari en ella fyrir þá sök að Express ferðir, sem er ferðaskrifstofa Iceland Express, hyggst brúka flugfélagið easyJet til að koma farþegum sínum frá London til áfangastaðar síns á Spáni.
Er um að ræða ágæta vikuferð yfir áramótin til Alicante á Spáni. Nánar tiltekið til Bonalba golfvallarsvæðisins þar sem gist er í hótelíbúðum og ótakmarkað golf innifalið auk hálfs fæðis. Þá er og fararstjórn og akstur til og frá flugvelli en svæðið er skammt frá flugvelli Guðbergs Bergssonar í Alicante. Herlegheitin kosta fyrir tvo saman 339.600 krónur en tekið er fram að það verð gæti breyst fyrirvaralaust.
Er ferðin semsagt ekki í beinu flugi og alls ekki alla leiðina með þotum Iceland Express eins og eðlilegt væri heldur er flogið til London og þaðan með breska lágfargjaldaflugfélaginu easyJet til Alicante. Heimferðin er hins vegar í beinu flugi.
Ekki reyndist ritstjórn unnt að framkvæma nákvæman verðsamanburð enda golfhótelið Bonalba uppselt umræddan tíma.
Þó má komast þessa daga með Iceland Express til London og til baka fyrir 89.900 krónur fyrir tvo og komast má áfram til Alicante og til baka með easyJet fyrir röskar 72 þúsund krónur samanlagt. Vikugisting á Bonalba í tveggja herbergja íbúð kostar í desember 66.400 krónur og 2-fyrir-1 tilboð er á golfi þann mánuðinn. Sjö hringir kosta þannig 55.400 krónur.
Samanlagt kostar slík ferð alls 283.700 krónur fyrir tvo en er þó ekki sambærileg þar sem dýrara getur verið að gista yfir áramótin, engin er fararstjórnin og enginn matur er innifalinn í útreikningi Fararheill. Þá er heldur ekki beint flug heim á leið aftur.
Þá er einnig athyglisvert að bera saman þessa vikuferð Express ferða við sams konar vikuferð til Bonalba sem Iceland Express bauð upp á á vormánuðum 2007. Voru þar fjórir golfhringir innifaldir og morgunverður og kostaði ferðin þá 84.900 á mann í beinu flugi báðar leiðir. Munar því 84.900 krónum á mann á þeirri ferð 2007 og ferðinni núna 2011.