Tíðindi

Eftirspurn eftir ferskum og framandi ferðalögum

  12/01/2012desember 22nd, 2013No Comments

Ef marka má niðurstöður síðustu könnunar Fararheill er töluverð eftirspurn meðal fólks á nýjum, ferskum og framandi stöðum í heiminum. Litlu færri kjósa fremur slík ferðalög en þeir sem setja sól og sand í fyrsta sætið.

Ritstjórn Fararheill hefur gagnrýnt töluvert lítið úrval ferðamöguleika landans gegnum tíðina. Ef frá eru taldir góðkunningjar á borð við Kanaríeyjar, Alicante og flugferðir til Köben, London og New York er íslenskum ferðalöngum mjög takmörk sett að skoða heiminn nema leggja á sig tengiflug með tilheyrandi leiðindum.

Undir þetta virðast lesendur taka því 42 prósent þeirra sem svöruðu hvers lags ferð þeir færu í næst hökuðu við nýtt og framandi. 48 prósent nefndu sól og sand og tíu prósent kjósa gönguferðir af einhverjum toga. Alls bárust 218 svör í heildina í þetta sinn.

Reyndar er aðeins farið að örla á breyttum áherslum þegar skoðuð eru tilboð ferðaskrifstofanna og flugfélaganna fyrir vorið og sumarið.

Í fyrsta sinn verður hægt að komast annað í Frakklandi en til Parísar þegar Wow Air hefur flug til Lyon í  vor. Vita ferðir hafa þegar kynnt að einn helsti áfangastaður þeirra þetta sumarið verði á Algarve í Portúgal en þangað hefur ekki verið boðið upp á ferðir síðustu árin. Sömuleiðis hyggjast Heimsferðir bjóða upp á ferðir til Malaga á Spáni og því verður Costa del Sol innan færis á nýjan leik í beinu flugi. Þá er flugáætlun Icelandair viðamikil og Denver í Bandaríkjunum nýr áfangastaður þeirra.

Allt er þetta á réttri leið en samanborið við frændur okkar á Norðurlöndum sem spóka sig vandræðalaust á grískum, tyrkneskum, króatískum og ítölskum ströndum svo dæmi séu tekin og það með beinu flugi eiga íslenskir ferðaþjónustuaðilar drjúgt í land enn.