Skringilegt að vera að skrifa um byrjendamistök hjá ferðaskrifstofu sem er að nálgast þrítugsaldurinn. En það er samt raunin með GB Ferðir.

Skrambi góður staður til skíðaiðkunar en ýmislegt vantar upp á í ferð GB Ferða.
Ferðakrifstofan þessi dægrin að auglýsa skíðaferðir til Sviss í vetur og þar vekur athygli æði fínn túr til Andermatt í Alpafjöllunum. Aldeilis stórgott skíðasvæði sem trekkir ferðamenn víða að.
Verð á skíðatúrum GB Ferða til Andermatt frá 159.000 á mann miðað við tvo saman og upp í 229.000 á haus. Gist á fínu fjögurra stjörnu hóteli í Andermatt og morgunmatur innifalinn.
Sófar sógúdd.
En svo þurfa áhugasamir að rýna vel í smáa letrið því þá bætast við heil ósköp af aukakostnaði sem GB Ferðir telur óþarft að tíunda fyrr en þú ert búin(n) að fletta tíu blaðsíður eða svo.
Vandamálin eru þessi:
A) GB Ferðir auglýsa skíðaferð til Andermatt. Sem er ekki alls kostar rétt því þér er bara flogið til Zurich. Frá þeirri ágætu borg er lágmark ein og hálf klukkustund á skíðasvæði Andermatt og þið þurfið sjálf að koma ykkur þangað. Toppþjónusta (ekki.)
B) Lent í Zurich rúmlega tólf á hádegi í öllum ferðum. Einn og hálfur tími ofan á það að lágmarki merkir að þið eruð komin á hótelið í Andermatt klukkan hálftvö í allra besta falli. Tvö, hálfþrjú þó nærri lagi. Með tilliti til að síðustu túrar með skíðalyftum á svæðinu er almennt klukkan 16 alla má fólk vera stálheppið að ná einni eða tveimur bunum fyrsta daginn og þann síðasta. Sem aftur merkir að þetta er í raun aðeins fimm daga „skíðaferð.”
C) Oft talað um rúsínuna í pylsuendanum. Í þessu tilfelli eru þær tvær. Í fyrsta lagi sú staðreynd að í skíðaferðaverði GB Ferða er enginn skíðabúnaður innifalinn. Ef þú ætlar að taka skíðin þín eða brettin með fyrir tvo einstaklinga í þessa „skíðaferð” þá bætast við 15.040 krónur miðað við tvo saman. Sem merkir að lægsta verð fyrir tvo saman er alls 333 þúsund krónur en ekki 318 þúsund krónur eins og GB Ferðir vilja vera láta.
D) Seinni rúsínan er jafnvel merkilegri. Það er engir lyftupassar innifaldir í verðinu!!! Ímyndaðu þér ferðaskrifstofu sem auglýsir golfferð en ekkert golf er innifalið. Galið ekki satt? Skíðagöngufólk þarf svo sem ekkert á lyftupössum að halda enda einfalt að þramma um trissur vandræðalaust. En það fólk sem vill upp í fjöllin með lyftum skal greiða aukalega fyrir. Dagspassi fyrir einn í lyftur Andermatt kostar að lágmarki 7.500 krónur þegar þetta er skrifað eða 15 þúsund krónur fyrir tvo saman. Dreymi hjónakorn um rennsli niður fagrar brekkur Andermatt þá fimm daga sem fólk hefur til umráða er óhætt að bæta 75 þúsund krónum ofan á klabbið. Ofan á þetta má bæta 20 þúsund krónum fyrir lestarferð til og frá Andermatt frá Zurich.
E) Sem merkir að fyrir par eða hjón er lágmarksverðið alls ekki 318 þúsund krónur heldur 428 þúsund. Það er hvorki meira né minna en 35 prósent dýrara en GB Ferðir vilja vera láta.
Vægast sagt dapurt prógramm ef þú spyrð okkur 🙁