Skip to main content

A ð öllu eðlilegu er grænt ekki það lýsingarorð sem aðkomufólki dettur fyrst í hug þegar Boston er heimsótt. Veðurfar þar er nefninlega ekki ósvipað því sem hér gerist þó tæpar fimm klukkustundir skilji Boston frá Íslandi.

Grænn er engu að síður sá litur sem einkennir borgina og er tilkominn bæði vegna græns litar skóga og gróðurs allt í kring en ekki síður vegna þess að hvergi annars staðar í Bandaríkjunum komu írskir innflytjendur sér fyrir í eins miklum mæli og hér. Græni liturinn er þeim jafn mikilvægur og snjór er Vatnajökli.

Það voru leiðtogar í Boston sem hófu sjálfstæðisbaráttu gegn Englandi á átjándu öld og Boston var mekka uppreisnarandans í landinu. Það var einnig hér sem nokkrir af þýðingarmestu bardögum uppreisnartímans fóru fram.

Ekki aðeins varð Boston vagga sjálfstæðisbaráttunnar heldur og einnig vagga menntunar í landinu en þeirri stöðu hefur borgin að mestu náð að viðhalda. Einn af hverjum fimm íbúum borgarinnar yfir vetrartímann er nemi. Frægustu háskólar landsins, Harvard og Cambridge, eru hér í grennd. Fyrsti opinberi grunnskóli landsins var reistur hér sem og fyrsti leikskóli landsins. Þá var Boston fyrsta borg Nýja heimsins til að opna bókasafn.

Borgin sjálf er heimili 615 þúsund manns en séu stærstu úthverfi og bæir taldir með snarhækkar sá fjöldi í 4.5 milljónir manna. Hún er stærst borga í Nýja-Englandi og er einna vinsælust borga í öllu landinu til heimsókna sökum sögu sinnar og menningar.

Boston er merkilega evrópsk sem er nett kaldhæðnislegt þegar haft er í huga stórt hlutverk borgarinnar og fólks héðan í sjálfstæðisbaráttunni gegn Bretum á sínum tíma sem endaði með að Tjallinn flýði heim með skottið milli lappanna á síðari hluta 18. aldar.

Boston var lengi vel merkasta og mikilvægasta borg Bandaríkjanna og heimavöllur aðalsmanna og stjórnmálamanna. Hún er enn ein sú merkasta en mikilvægi hennar hefur dvínað gagnvart borgum á borð við New York, Chicago og Los Angeles.

Sögulega var Boston reist af enskum púritönum árið 1630 sem flúið höfðu heimalandið og settust að á allra fyrsta viðkomustaðnum í Nýja heiminum. Frábær lega hafnarinnar í borginni auk þess að vera sú höfn landsins sem næst var Evrópu gerði það að borgin gengdi mikilvægu hlutverki í viðskiptum milli Evrópu og Karabísku eyjanna.

Loftslag og ljúflegheit

Fyrir veðurbarða Íslendinga er ekkert sem á óvart kemur í Boston. Hún er sennilega sú borg í heiminum sem er með hvað keimlíkast veðurfar og er hér á landi. Sumrin þokkalega heit og mild en rakastig er oft hátt og gerir mönnum erfitt fyrir. Veturnir eru í meðallagi kaldir. Hausta fer alvarlega í október og frost venjan þegar komið er fram á seinni hluta nóvember. Þá getur á köflum snjóað talsvert í þessum landshluta yfir dimmasta veturinn.

Til og frá

Boston Logan flugvöllurinn er aðeins nokkra kílómetra frá miðdepli borgarinnar en þangað flýgur Icelandair ásamt sæg annarra flugfélaga. Fullt nafn þess ágæta flugvallar er hið þjála General Edward Lawrence Logan International Airport en það notar enginn.

Tveir minni flugvellir eru einnig í grenndinni en aðallega notaðir til innanlandsflugs. Sökum þess hve stutt er inn í miðbæ frá flugvellinum eru margir kostir í boði.

Leigubílar eru fremur dýrir í Boston en eru fljótlegasti mátinn inn í borgina. Tekur slíkur rúntur milli 15 og 30 mínútur eftur umferð. Meðalgjald inn í borgina er kringum 5 þúsund krónur.

Jarðlest (metro) fer reglulegar ferðir frá Logan flugvelli og að South Station sem er nálægt helstu miðbæjarmenjum. Silver Line er eina lestin sem fer milli flugvallarins og borgarinnar en í South Station er hægt að skipta yfir í Red Line og þaðan í aðrar jarðlestir borgarinnar. Langflest hótel og gististaðir eru í grennd við umræddar tvær línur. Miðinn kostar 350 krónur. Hægt er einnig að taka Blue Line inn í borgina en þá þarf að taka skutlu frá flugvellinum og að lestarstöðinni. Er sú skutla, Massport, ókeypis en miðaverð á Bláu línunni 350 krónur. Sjá hér leiðakerfi Blue line. Hægt er að skipta yfir í Green line við Government Center og á State Street í Orange line.

Rútur eru nokkrar og misdýrar. Silver Line er lágbotna strætisvagn sem fer frá flugvellinum á 15 – 20 mínútna fresti. Fer sá sem leið liggur að South Station farþegamiðstöðinni sem er nálægt miðbænum. Þaðan er hægt að fara um allt í bænum með jarðlestum, strætisvögnum eða rútum út fyrir borgina. Í South Station er hægt að taka Red Line jarðlestina en flest hótel í borginni má finna meðfram þeirri leið. Þá er og hægt að tengjast öðrum jarðlestum í borginni með Red Line lestinni. Hvert far kostar 350 krónur en er ódýrara með svokölluðu Charliecard. Slíkt kort gefur einnig afslátt á öðrum samgönguleiðum. Sjá nánar um afsláttarmöguleika hér neðar.

Logan Express er annar möguleiki en þeir vagnar stoppa á fjórum mismunandi stöðum í borginni; Braintree (suður), Framingham (vestur), Peabody (norður) og Woburn (norður). Þeir fara frá flugstöðinni á klukkustundar fresti. Peabody er næst miðbænum sjálfum en þörf er á leigubíl alla leið á áfangastað. Ferðatími er milli 35 og 40 mínútur. Farmiði á öllum leiðum eru 1400 krónur fyrir fullorðna en frítt fyrir börn yngri en 12 ára. Hægt að greiða með öllum helstu greiðslukortum.

Skutlur eru hér líka og sennilega einfaldasti og besti ferðamátinn ef margir eru í hóp. Zebra Shuttle er ein slík en panta þarf slíkt með fyrirvara á netinu. Sex farþegar með sex töskur greiða til að mynda 8500 krónur fyrir skutl í miðbæ Boston sem er öllu hagstæðara en að taka tvo leigubíla sem dæmi.

Ratvísi

Boston er illskiljanleg þeim sem þar ferðast um fyrsta sinni. Ólíkt mörgum öðrum bandarískum borgum er ekkert sérstakt götukerfi í borginni og margar götur illa merktar. Skal alveg láta vera að þvælast þar á bíl enda umferð þung en ekki síður vegna þess að allir helstu merkisstaður Boston eru annaðhvort vel í göngufæri eða stutt þangað og fljótlegra með lestum eða strætisvögnum.

Sökum smæðar sinnar er auðvelt að þvælast um miðbæinn og helstu minjar á tveimur jafnfljótum en Boston fær engin verðlaun fyrir skemmtilegan miðbæ jafnvel þó evrópskt yfirbragð sé hér sterkara en annars staðar í Bandaríkjunum.

Samgöngur og skottúrar

Samgöngukerfið í Boston er gott til brúksins og tiltölulega ódýrt til notkunar. Sami aðili, Massachusetts Bay Transportation Authority, hefur umsjón með því öllu. Heimasíða þeirra hér. Miðakerfið er rafrænt en miða er hægt að kaupa á öllum stöðvum með peningum eða debit- eða kreditkortum. Hvert stakt far kostar 300 krónur en 240 krónur með CharlieCard afsláttarkorti.

Til umhugsunar: CharlieCard er afsláttarkort til brúks í samgöngutækjum borgarinnar. Slíkt kort er frítt og fylla þarf á það eins og símakort hér heima. Hægt er að kaupa allt frá stakri ferð til mánaðarskammts. Þau fást hjá miðasölum á stærri stöðvum en annars í flestum sjálfsölum. Kortið færir sjálfkrafa gjald per ferð úr 250 krónum í 210 krónur en það sem meira er um vert að án slíks er ekki leyfilegt að skipta milli vagna eða samgöngutækja án þess að greiða annað fargjald. Frekar um CharlieCard hér.

Jarðlest (metro) – Jarðlestarkerfi Boston samanstendur af fjórum línum sem hver á sinn lit. Vagnar á rauðu og appelsínugulu línunum fara gróft til tekið norður og suður í borginni meðan sú bláa og græna fara vestur og austur. Með þeim er auðveldlega hægt að komast á alla merkilegustu staði borgarinnar. Sjá leiðakerfið hér en hafa skal í huga að silfur-línan er strætisvagn þó sú lína heyri undir jarðlestarkerfið. Þá skal og hafa í huga að græna og rauða línan skiptist á nokkrum stöðum og enda ekki alltaf á sama stað. Sjá kort. Þá eru vagnarnir sjálfir yfirleitt ekki merktir stöðvum heldur með „inbound“ eða „outbound“. Inbound þýðir að vagninn er á leið inn í bæinn en outbound út úr bænum. Þetta getur valdið ruglingi og best er að prenta úr leiðakortið í litaprentara ellegar verða sér úti um kort sem fæst á flestum stöðvum. Jarðlestir Boston ganga frá 5 á morgnana til miðnættis.

Strætisvagnar (Bus) – Strætókerfið í borginni er einnig óþarflega flókið en þó ódýrara en að ferðast um með jarðlest. Þeim er skipt í þrjá flokka; hefðbundna vagna, regular, inner express vagna og outer express vagna. Inner express eru ávallt á leið inn í bæinn meðan Outer express er á leið í úthverfin. Er ekki alltaf augljóst hvor er hvað og því vissara að hafa leiðatöflu meðferðis. Kostar hvert far 240 krónur.

Ferjur (Water Shuttle) – Allnokkrar ferjur eru hluti af samgöngukerfi borgarinnar og strangt til tekið er hægt að komast til og frá flugvellinum og inn í borgina með ferju. Þær ganga þó sjaldan og eru tiltölulega lengi á leiðinni. Hvað ferðamenn varðar eru ferjurnar athyglisverð leið að skoða borgina en með þeim er einnig hægt að komast út í nálægar eyjar og ekki síður að komast úr miðbænum út á Long Wharf þar sem sædýrasafn borgarinnar og fleiri söfn er að finna. Leiðakort hér. Fargjald ferjanna er misjafnt eftir lengd en er gróflega frá 270 krónum og upp í 1800 krónur.

Leigubílar (Taxi) – Nóg er af þeim um alla borg og nokkuð auðvelt að flagga þá á næstu götu. Þeir eru þó í dýrari kantinum við það sem gengur og gerist. Þjórfé, traffík, einstefnugötur og tollur geta gert lítinn rúnt að rándýrum pakka en farþegar greiða alla tolla og þeir eru allnokkrir um leið og komið er út fyrir miðbæjarkjarnann í Boston. Þannig getur ferð í úthverfi borgarinnar auðveldlega rúllað í tíu þúsund krónur.

Reiðhjól (Bicycle) – Líkt og aðrir Bandaríkjamenn lifa íbúar Boston ekki án bíls og hjólreiðafólk er litið hornauga. Engir sérstakir stígar eru fyrir hjólandi vegfarendur í borginni. Veður því að hjóla á götunum og því skal gleyma því samstundis nema þekkingin sé því meiri.

Söfn og sjónarspil

Til umhugsunar: Sé hugmyndin að heimsækja söfn eins og enginn sé morgundagurinn er hagkvæmt að verða sér úti um afsláttarkortin GoBoston eða City Pass. Veita þau afslætti á mörg safna í Boston en þau spara engar upphæðir nema farið sé víða. Sé um einfalda borgarferð að ræða skal sleppa þeirri fjárfestingu.

>> Barnasafnið (Boston Children Museum) – Eðalfínt ef þvælst er um með unga krakka enda heill heimur af leiktækjum og fróðleik á þessu safni sem á þó meira skylt við skemmtigarð en safn. Jarðlest: South Station og labbitúr yfir á Congress stræti. Opið alla daga frá 10 – 17. Aðgangseyrir 1500 fyrir fullorðna og 1100 fyrir börn og unglinga. Heimasíðan.

>> Listasafn Boston (Boston Museum of Fine Arts) – Risastórt safn 450 þúsund verka frá hinum ýmsu tímum meðalannars veglegt safn verka frá Frakklandi og Japan og fimm þúsund ára gömul múmía. Vel heimsóknar virði sé listin áhugamál en dýr er Hafliði allur og þetta safn líka. Punga fullorðnir út 2200 krónum en frítt er fyrir börn og unglinga eftir klukkan 3 á daginn alla daga. Jarðlest: Museum of Fine Arts Station, Græn lína. Opið 10 – 17 alla daga en opið til 21:30 miðviku- til föstudaga. Heimasíðan.

>> Vísindasögusafn Harvard (The Harvard Collection of Historical Scientific Instruments) – Safn þetta er um margt merkilegt enda munir þarna úr heimi tækni og vísinda frá því vísindakennsla hófst í Harvard háskólanum en safnið er á lóð háskólans. Er hann vafalítið meðal virtustu háskólum í heiminum og ferð á safnið nýtist einnig að skoða sig um á skólalóðinni. Þar eru einnig til húsa Listasafn Harvard, Náttúrufræðisafn og nokkur önnur söfn en þau er opin klukkustund lengur virka daga. Þar þarf að greiða 1100 krónur í aðgangseyri. Jarðlest: Harvard Square, Red line. Opið frá mánudegi til föstudags milli 11 – 16. Aðgangseyrir er enginn að Vísindasögusafninu. Heimasíðan.

>> Nýlistasafnið (Institute of Contemporary Art) – Nýjasta safnið í Boston og hefur vakið lukku bæði fyrir bygginguna sjálfa sem og þær sýningar sem þar hafa verið. Það stendur við höfnina á besta stað. Jarðlest: Courthouse Station, Silver line. Opið 10 – 17 alla daga en til 21 miðviku- til föstudag. Aðgangseyrir 1900 krónur. Heimasíðan.

>> Safn Isabellu Stewart Gardner (Isabella Stewart Gardner Museum) – Nafnið á við um moldríka sérvitra kerlingu sem löngu er fallin frá en þótti eiga svo undarlegt safn muna að opnað var safn þetta í villu hennar forðum. Villan ekkert slæm og safnið athyglivert. Jarðlest: MFA station, Green line. Opið 11 – 17 alla daga nema mánudaga. Prísinn 1500 krónur fyrir uppkomið fólk. Heimasíðan.

>> MIT safnið (MIT Museum) – Annað háskólasafn sem þykir bæði skemmtilegt og forvitnilegt. Massachusetts Institute of Technology er annar bandarískur háskóli í allra fremstu röð í heiminum og það ekki að ósekju. Hér eru tækni og vísindi í forgrunni. Jarðlest: Central Square Station. Opið daglega frá 10 – 17. Miðaverð 950 krónur fyrir fullorðna og 400 fyrir alla undir 18 ára eða ellilífeyrisþega. Heimasíðan.

>> Peabody fornleifasafnið (Peabody Museum of Archeology and Etnology) – Enn eitt markvert safnið sem staðsett er í Harvard háskólanum. Um er að ræða eitt elsta fornleifasafn veraldar með yfir 40 þúsund muni úr vestrænni mannkynssögu. Jarðlest: Harvard Square. Opið 9 – 17 alla daga. 1100 krónur fyrir fullorðna en 600 fyrir yngri en 18 ára. Heimasíðan.

>> Freigátusafnið (USS Constitution Museum) – Boston var í fararbroddi í sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna gagnvart Bretum og Frökkum og margar hildir háðar þar á sjó og landi. Þetta safn er tileinkað þeim þriggja mastra freigátum sem heimamenn notuðu í stríði sínu og margir vilja þakka sigur að lokum. Ýmis fróðleikur þarna og safnið sjálft stendur á þeim stað sem það var upphaflega byggt á Flotasvæðinu, Navy Yard, skammt frá Logan flugvelli. Jarðlest: North Station, Green line plús labbitúr. Opið milli 10 og 17:30. Aðgangur ókeypis en framlög vel þegin. Heimasíðan.

Til umhugsunar: Engin skortur er á margbreytilegum hlutum í Boston og ógerningur að gera öllu skil með góðu móti hér. Ein besta leiðin til að komast að því hvað er í gangi hverju sinni er að grípa eintak af Boston Weekly Dig blaðinu sem fæst gefins á helstu götuhornum borgarinnar. Þeir hafa einnig heimasíðu hér.

>> Mary Baker Eddy bókasafnið (Mary Baker Eddy Library) – Ekki sérstaklega frábært að eyða dögum í erlendri borg mikið á bókasöfnum en þetta ákveðna safn verðskuldar tíu mínútur eða svo og ekki útaf bókakosti. Þarna innandyra er nefninlega risastórt líkneski af heimskringlunni úr steindu gleri og er það sannarlega kostulegt fyrirbæri. Safnið tilheyrir höfuðstöðvum Kristnu vísindakirkjunnar sem þarna er einnig staðsettar. Jarðlest: Prudential, Green line. Opið alla daga nema mánudag frá 10 – 16. Prísinn 750 krónur. Heimasíðan.

>> Sædýrasafn Nýja Englands (New England Aquarium) – Ósköp dæmigert sædýrasafn en í stærri kantinum og þar var til langs tíma stærsta fiskabúr heims. Jarðlest: Aquarium, Blue line. Opið 9 – 17 virka daga og 9 – 18 um helgar. Ekki alveg ókeypis enda miðinn á 2600 krónur fyrir fullorðna og 1700 fyrir smáfólkið. Heimasíðan.

>> Warren virkið (Fort Warren) – Ein ástæða þess hve Boston var vel varin er hér á Georges eyjunni. Mikið og stórt virki og staðurinn afar vinsæll meðal heimamanna til útiveru á góðum degi. Ferja frá Sædýrasafninu fer að eyjunni og öðrum eyjum í grennd. Heimasíðan.

>> Lystigarður Boston (Boston Common) – Elsti almenningsgarður í öllum Bandaríkjunum og ómissandi yfir sumartímann. Fyrir utan grænt og fallegt umhverfið er fjölmargt hér í boði fyrir alla. Jarðlest: Park Street, Green eða Blue line.

Til umhugsunar: Standi vilji til að kynnast borginni á ódýran hátt á skömmum tíma er ráð að mæta á suðausturhorn Ráðhúss borgarinnar. Þar bjóða samtökin AM upp á fría skoðunarferð og leiðsögn um helstu staði fótgangandi. Hvern miðviku- til sunnudags klukkan 10:30 er lagt í hann. Þekkja má leiðsögumenn þeirra á grænum merktum peysum þeirra. Framlög er vel þegin. Nánar hér.

>> Frelsisstígurinn (Freedom Trail) – Umræddur Frelsisstígur er í huga Bandaríkjamanna svipaður og Þingvellir fyrir Frónbúa. Á þessari leið má rekja ótrúlega margt það sem varð þess valdandi að landið vann sjálfstæði. Eðli málsins samkvæmt er slík sögusýning þó meira fyrir innfædda. Þú getur fylgt leiðinni á rauðri málningu eða múrsteinum í gangstéttinni alla fjóra kílómetrana sem hann nær. Sjá nánar um Frelsisstíginn hér. Jarðlest: Margar stöðvar en Park Street er við upphaf hans.

>> Quincy markaðurinn (Quincy market) – 250 ára gamall útimarkaður við Faneuil Hall sem er gaman að týna sér í á góðum degi. Um hann er farið þegar Frelsisstígurinn er genginn. Markaðurinn nokkur túristagildra en þar má gerasæmileg kaup ekki síst á mat og ýmsir staðir eru með borð og stóla svo hægt sé að virða fyrir sér mannlífið á meðan. Strangt til tekið heitir markaðurinn Faneuil Hall Market Place en heimamenn kalla hann bara Quincy markaðinn. Ýmsar uppákomur eru þar algengar og sjá má hvað er í boði á heimasíðunni. Jarðlest: Government Center, Blue line. Opinn 10 – 21 alla virka daga og 12 – 21 um helgar. Heimasíðan.

>> Prudential setrið (Prudential Center Skywalk Observatory) – Sé lofthræðsla ekki vandamál er fín hugmynd að leggja leið sína í þennan annan hæsta turn Boston. Á efstu hæðinni er útsýnispallur og sést þar vel í allar áttir. Jarðlest: Prudential Center, Green line. Opið 10 – 22 alla daga frá apríl til nóvember en 10 – 20 þess utan.

>> Cheers barirnir (Bull & Finch Pub) – Fyrirmyndin af hinum geysivinsælu gamanþáttum Cheers, Staupasteini, er hér og vinsæll mjög meðal ferðamanna. Barinn heitir í raun Bull & Finch en þeir græða töluvert meira að kalla sig eftir sjónvarpsþættinum. Prísarnir vel dýrari en gengur og gerist og enginn heimamaður stígur fæti hér inn en forvitnilegt að reka inn nefið. Eru staðirnir reyndar tveir. Annar sá upprunalegi sem lítur ekki út eins og barinn í þáttunum og hinn sem er nákvæm eftirlíking. Sá fyrri á Beacon stræti en sá síðari við Quincy markaðstorgið. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Eigi þarf að óttast skort á verslunum í neinni bandarískri borg og Boston þar ekki undantekning. Verðlagning er þó í dýrari kantinum enda laun óvíða hærri en í Boston í öllu landinu.

  • Cambridgeside Galleria við sjávarsíðuna. Út við Lechmere stöð á Green line ellegar taka ókeypis skutlu frá Kendall Square stöðinni. Algengar verslanir og ágætt úrval. Opið 10 – 21 virka daga, 12 – 17 um helgar.
  • Copley Place í miðbænum. Stendur við Prudential Center en þessi kringla er töluvert dýrari. Opið 10 – 20 mánudaga til laugardaga og 12 – 18 á sunnudögum.

Kaninn hefur aldrei verið sérstaklega spenntur fyrir gönguferðum og því er fátæklegt um að litast hvað hreinar verslunargötur varðar. Helstar eru:

    • Newbury stræti í Back Bay hverfinu. Fjölmargar verslanir af ýmsum toga en í dýrari kantinum þó. Mikið mannlíf og gnótt veitingastaða og bara. Jarðlest: Arlington, Copley eða Hines á Grænu línunni.
    • Downtown Crossing við Washington stræti er skammt þar frá. Töluvert ódýrari verslanir en í Newbury en úrvalið engu minna. Jarðlest: Downtown Crossing á Rauðu eða Appelsínugulu línunum.
    • Charles stræti er verslunarsvæði mikið og hægt að eyða fúlgum þar á skömmum tíma. Jarðlest: Charles Street á Rauðu línunni.
    • Harvard Square er miðpunktur háskólans en ekki síður torg hinna kaupglöðu. Sérstaklega góðar bókaverslarnir hér eðli málsins samkvæmt. Fjölmörg söfn tengd skólanum í göngufjarlægð. Jarðlest: Harvard Station á Rauðu línunni.

Engum þarf að koma á óvart að fátt fellur þessi dægrin undir að vera „ódýrt“ fyrir Íslendinga með krónuna sína. Tveir staðir koma þó helst til greina sé ætlunin að versla út í eitt án þess að tæma veskið á fimm mínútum. Það kostar þó ferðalag út fyrir borgina i báðum tilfellum.

      • Í um klukkustundar fjarlægð frá miðbæ Boston má finna Wrentham Village sem er eina outlet miðstöðin á þessu svæði. Þar eru 170 verslanir á einum bletti með vöru gærdagsins en líka á talsvert lægra verði en gengur og gerist. Lofað er milli 25 og 65 % lægra verði en gengur og gerist en tveimur sögum fer af hvort það stemmir. Flest hótel geta útvegað skutlu á staðinn en og þessi og þessi rúta tekur farþega upp við helstu hótel fyrir fimm þúsund krónur báðar leiðir. Undir engum kringumstæðum fara þangað á eigin bíl enda martröð að fá bílastæði í grennd.
      • Coolidge Corner er verslunarhverfi í bænum Brookline sem er aðeins fyrir utan Boston. Allt smærra í sniðum og engar lágvöruverðsverslanir en verðlag lægra en í borginni. Þá er þar nálægt fæðingarstaður John F. Kennedy fyrrum forseta landsins og bræðra hans. Jarðlest: C leið Grænu línunar að Coolidge Corner.

Matur og mjöður

* Ólíkt öðrum ferðavefum mælir Fararheill.is hvorki með né mót veitingastöðum sökum þess að hver og einn einstaklingur hefur ólíka bragðlauka og sýn á hvað er gott veitingahús eða ekki. Í staðinn bendum við á nokkra trausta veitingahúsvefi.

Eins og gefur að skilja í velmegunarborg á borð við Boston eru veitingastaðir þar óteljandi og jafn misjafnir og þeir eru margir. Sem hafnarborg er töluverð hefð fyrir sjávarréttamenningu í bænum jafnvel þó Írar, hvers afkomendur eru flestir í Boston, hafi seint verið sérstakir sjávarréttamenn.

Til umhugsunar: Betri veitingarstaðir í borginni eru flestir meira eða minna fullbókaðir hvert kvöld. Vilji ferðamenn tryggja sér sæti á slíkum stað er ráð að panta borð með fyrirvara.

Ekki þarf að fara langt til að finna ágæta veitingastaði en sé fólk á höttum eftir einhverju sérstöku eru nokkur hverfi betri en önnur. North End og Chinatown eru velþekkt. Chinatown eðlilega fyrir kínverska staði og reyndar asíska staði almennt. Ítalskir veitingastaðir eru flestir í North End hverfinu. Leitaðu uppi Hanover stræti og í allar áttir þaðan er vart þverfótað fyrir veitingastöðum. Sá staður er frábær á sumrin líka þegar götum er gjarnan lokað og hátíðir hvers konar og skrúðgöngur algengar.

        • Hér má sjá þrjá heitustu veitingastaðina í Boston samkvæmt vefnum Epicurious.com.
        • Útgáfufyrirtækið Dummies er velþekkt og mark á takandi. Hér eru þeirra ráðleggingar.
        • Ferðavefur Frommers mælir með þessum hér.

Hvað bari varðar er hið sama uppi á teningnum. Ákvörðunarfælni er skaðlegt hér enda skipta barirnir þúsundum. Besta stemmningin er sennilega á Harvard Square enda troðfullt þar af ungu velmegandi fólki. Sækir enda enginn Harvard sem ekki á vellauðuga foreldra ellegar kemst inn sökum fáránlega merkilegs gáfnafars.

Írskir pöbbar eru hér einn á hvern einn íbúa að því er virðist og flestir keimlíkir. Einn vinsælasti bjór Bandaríkjanna, Samuel Adams, er bruggaður hér og Írar hrifnir af þeim mjöði. Vilja forsvarsmenn meina að enginn bjór í veröldinni hafi hlotið eins mörg verðlaun og Samuel Adams bjórinn. Hægt er að skoða bruggverksmiðju þeirra í Jamaica Plain. Upplýsingar hér.

Bestu pöbbastrætin eru Canal stræti, Boyleston stræti, Downtown Crossing og kringum Faneuil Hall auk háskólasvæðanna.

Líf og limir

Boston öll er eins örugg og hægt er að vera í landi sem leyfir vopnaburð. Glæpir eru til staðar en ekki stórvandamál og glæpir gegn ferðamönnum sjaldgæfir. Almenn skynsemi kemur sér vel og varast skal þetta venjulega:

          • Öll dimm stræti að næturlagi og ekki þvælast um í almenningsgörðum þegar skyggja tekur. Sértu á ferð utan miðbæjarkjarnans eru glæpir algengari í hverfunum Roxbury og Manpattan en annars staðar.
          • Berðu ekki á þér skartgripi og klæðstu látlaust. Þjófar meta fólk út frá klæðnaði þess og skartgripum.
          • Slepptu aldrei hendinni af veskjum eða augum af kreditkortum.
          • Sé á þig ráðist eða þér hótað skaltu bara slaka, afhenda alla peninga eða verðmæti og krefja tryggingarfélag þitt um skaðabætur. Vertu viss um að ferðatrygging þín dekki slíkt áður en lagt er í hann.
          • Fara skal með gát yfir allar götur í borginni. Ökumenn margir líta á það sem hreinustu móðgun að til séu gangbrautir og aka blákalt yfir á rauðu ef því er að skipta.
          • 911 er númerið að hringja í ef alvarlegt atvik á sér stað.

View Larger Map