Besti golfáfangastaður Evrópu er ekki í boði í beinu flugi frá Íslandi en fyrr í vikunni hlaut Portúgal þann titil í virtustu ferðaþjónustusamkeppni heims, World Travel Awards. Rúllaði Portúgal þar ívið vinsælli golfstöðum á borð við Spán, England, Írland og Skotland.

Pebble Beach? Nei, bara næsti golfvöllur við strönd Portúgal sem var valinn besti golfáfangastaðurinn þetta árið.
Mun þetta vera í fyrsta skiptið sem veitt eru sérstök verðlaun í þessum flokki en alls eru veitt yfir 30 verðlaun í ýmsum flokkum í öllum heimsálfum. Það sem gerir verðlaun WTA sérstaklega eftirsóknarverð er að atkvæði veita aðeins ferðaþjónustuaðilar sjálfir og þeir skipta tugum þúsunda sem þátt taka.
En ólíkt ferðaþjónustuaðilum erlendis hefur engum ferðaþjónustuaðilum hérlendis dottið í hug að bjóða golfferðir til Portúgal um árabil og segir enn eina söguna um hversu mjög hérlendir aðilar eru með puttana á púlsinum.
Á vef WTA er reyndar ekki að finna neinn sérstakan rökstuðning fyrir valinu enda engin sérstök dómnefnd sem tekur lokaákvörðun heldur einungis talin atkvæða þeirra sem þátt tóku.
Ritstjórn Fararheill hefur þó oggupons hugmynd hvers vegna Portúgal stendur uppi sem sigurvegari. Fyrir það fyrsta er verðlag í Portúgal almennt lægra en gerist hinu megin landamæranna á Spáni og mun ódýrara en norðar í álfunni. Vellir eru hlutfallslega fleiri í Portúgal en í samkeppnislöndunum og þeir eru alls ekki síðri en vellir annars staðar í álfunni. Síðast en ekki síst eru líka færri ferðamenn um hvern völl.
Út með þig. Lífið er ekkert að styttast 🙂