Skip to main content
Tíðindi

Svona áður en þú pantar hjá easyJet

  12/10/2012No Comments

Fararheill hefur fjallað töluvert um aukagjöld þau er íslensku flugfélögin leggja á viðskiptavini sína og finnst mörgum nóg um. En aukagjöldin sem flugfélagið easyJet bætir við allar bókanir þar á bæ eru töluvert hærri.

Auglýst verð á vef easyJet er fjarri því það sem þú þarft að greiða á endanum

Þau fargjöld sem það flugfélag auglýsir eru nefninlega töluvert frá því að vera sú upphæð sem fólk greiðir á endanum.

Tökum dæmi um forsjálan mann sem vill komast til London í apríl á næsta ári.

easyJet, ólíkt þeim íslensku, birtir lista yfir sín ódýrustu fargjöld hvern mánuð langt fram í tímann og því fljótlegt að sjá að ódýrasta fargjaldið í boði aðra leiðina í apríl kostar viðkomandi 6.840 krónur miðað við miðgengi krónu gagnvart evru föstudaginn 12. október.

Það er fantagott verð aðra leiðina til London og sýnir ljóslega að hægt er að spara töluverðar upphæðir með því að panta með góðum fyrirvara.

En babb kemur í bát þegar bóka á flugið á þessu úrvalsverði. Í fyrsta lagi bætist á bókunargjald fyrir allar bókarnir. Það gjald er 1.750 krónur. Hægt að lifa með því og fargjaldið því komið í 8.590 krónur.

Nú er hugmyndin að staldra aðeins við í Englandi og því þörf á að taka með eina tösku. Það er fjarri því gefins því ein slík undir 20 kílóum kostar þig 6.400 krónur. Í einni svipan er fargjaldið frábæra hætt að vera frábært og orðið svipað og tilboðsfargjöld þeirra íslensku eða 14.990 krónur nákvæmlega.

En ekki er allt búið enn því þú verður að greiða fyrir herlegheitin með íslensku kreditkorti og ofan á slíkt leggst einnig gjald fyrir. Það fer eftir verði ferðar en er að lágmarki 900 krónur íslenskar.

Gjaldið sem þú greiðir þannig fyrir flug með easyJet aðra leið til London endar þannig í 15.890 krónum eða meira en tvöfalt hærra en auglýst verð á heimasíðu flugfélagsins og það á lægsta mögulega fargjaldi langt fram í tímann.