
Delta eða United. Góðir kostir vestur um haf? Samsett mynd
Delta Air Lines og United Airlines eru velþekkt fyrirbæri á heimsvísu enda tvö af þremur stærstu flugfélögum Bandaríkjanna. Nett leit Fararheill leiðir í ljós að hvorugt flugfélaganna bandarísku eru að bjóða eitthvað súperspennandi og bæði eru nokkuð á pari við Icelandair hvað varðar verðlagningu. Stundum lægri og stundum hærri.
En spurning dagsins er hins vegar hvort flugfélagið er betra/þægilegra ef vera kynni að þú finnir flug hjá þeim á betra verði en hjá því íslenska?
Allur slíkur samanburður er vitaskuld „í augum sjáandans,” því öllum líkar ekki það sama. En að því sögðu þá eru hér örfáir punktar sem kannski hjálpa til við valið:
- Mengun og vibbi – United Airlines tekur þann titil umsvifalaust. Rellur fyrirtækisins næstum jafn gamlar og þær hjá Icelandair eða 16,3 ára að meðaltali yfir flotann. Rellur Delta eru aðeins yngri eða 14,4 ára gamlar að meðaltali.
- Þægindi og þjónusta – Delta hefur mörg undanfarin ár verið valið flugfélag ársins vestanhafs og ástæðurnar helstar þær að sætisbil hjá þeim er örlítið meira en hjá samkeppnisaðilum, net um borð er yfirleitt súper og sæmilega ódýrt og þeim tekst betur en öðrum að halda seinkunum og aflýsingum í lágmarki. Þá eru skjáir í sætum í öllum vélum Delta en bara hluta véla United. Afþreyingarpakki í boði miklu stærri hjá Delta á almennu farrými. Bæði flugfélög bjóða máltíðir á lengri flugleiðum innifalið.
- Sæti og seðlar – Sætisbil á almennu farrými er yfirleitt hið sama hjá báðum aðilum eða 78 sentimetrar. Sömuleiðis elta bæði hvort annað í verðlagningu eins og Bónus og Krónan. Það er því nánast alltaf gefið að verðmunur á flugi er sáralítill.
- Farangur og fumlausheit – Farangursheimildir eru keimlíkar og lítið heimilt meðferðis á sardínufarrými. Ef taska fylgir með heimtar Delta aðeins minna eða 3600 fyrir 20 kílóa tösku meðan United vill næstum 4000 fyrir sama pakkann. Svipað kostar að færa sig úr sardínufarrými yfir í sardínufarrými plús hjá báðum aðilum.
- Lok og læs – Delta hefur vakið sérstaka athygli vestanhafs fyrir að halda miðjusætum auðum meðan Kófið gerir usla. United hins vegar selt allt klabbið og glott í kamp eins og Icelandair. Þegar þetta er skrifað er Delta enn með öll miðjusæti tóm sem merkir að þú þarft ekki að hafa ókunnan svitastorkinn og andfúlan einstakling hrjótandi á öxlinni. En það líklega bara tímabundið.