Hallelújah! Allir þessir mögnuðu staðir á Indlandi og við bara að eldast hratt fyrir framan sjónvarpið í Breiðholtinu. Af stað eigi síðar en núna. Nema kannski ef þú glímir við einhvers konar öndunarsjúkdóma. Þá er Indland síðasti staður á jörð að heimsækja.

Fáar byggingar af manna höndum jafn fallegar og Taj Mahal. Þetta er myndin sem við fáum oftast af þeirri byggingunni í fjölmiðlum.

Jamms, astmasjúklingar og börn með óþroskuð öndunarfæri gætu gert betri hluti en álpast til Indlands. Þar er mengun orðin svo alvarleg að tæplega 50 borgir landsins eru á lista yfir hundrað menguðustu borgir heimsins. Þær tíu menguðustu svo mengaðar að þú getur alveg eins setið heima og reykt hálfan pakka af Camel sígarettum til að fá sömu líðan.

Af fimm hundruð menguðustu borgum heims á Kína reyndar metið. Á þeim lista ekki nema 230 kínverskar borgir og kemur fáum á óvart. Það sem kannski kemur fólki á óvart er að menguðustu borgirnar eru nánast allar á Indlandi. Þar af þrettán af 20 menguðustu borgunum.

Hér þó raunverulegri mynd af Taj Mahal. Slæm loftmengun er normið hér og mengunin fer versnandi dag frá degi.

Þær allra verstu svo slæmar að ferðafólk eru tæknilega að reykja hálfan pakka af sígarettum hvern einasta dag sem fólk dvelur í þeim borgum. Sem auðvitað er lítt spennandi heilsufrömuðum af klakanum.

Þar sem ástandið er alls ekki að fara að skána neitt enda Indland bláfátækt land og stjórnvöld þar ekki beint með mengun í hávegum er ráð að sleppa Indlandsferðinni þessa ævina. Kíkja frekar bara upp á Snæfellsjökul og lifa aðeins lengur…