S egja má að það sé hreinasta synd hversu margir sem ekki hafa heimsótt Amsterdam tengja borgina aðeins við hassreykingar og kynlíf. Að nokkru leyti er það skiljanlegt enda flestar fregnir frá Amsterdam jafnan tengt öðru hvoru en synd samt vegna þess að borgin er yndisleg og íbúar hennar ótrúlega gestrisnir. Hvar annars staðar er alls ókunnugum boðið sæti á fullum veitingastað bara til „að þurfa ekki að líða hungur.“

Amsterdam er ómissandi stopp öllum alvarlegum ferðamönnum. Það kemur líka flestum á óvart að þrátt fyrir slæma ímynd borgarinnar út á við er Amsterdam ein öruggasta borg í allri Evrópu.

Hvað gerir hana ómissandi? Í fyrsta lagi fólkið sem er oft vinalegt fram úr hófi gagnvart ferðafólki. Í öðru lagi lega borgarinnar og lögun en göngutúr meðfram síkjum þeim er setja svip á borgina er ógleymanlegur.Arkitektúr er hér merkilegur um margt og þá er óminnst á menningu og listir sem Hollendingar eiga nóg af.

Fyrir fólk með einfaldari smekk er heldur ekki amalegt að geta reykt kannabis án hættu á fangelsisvist ellegar rölta gegnum kynlífshverfi borgarinnar sem þrátt fyrir að vera skólabókardæmi um hnignun mannkyns er afar forvitnilegt að skoða.

Hér tala allir ensku og franska, þýska eða spænska sleppur víða líka. Svindl og svínarí gagnvart ferðamönnum er fáheyrt enda vita heimamenn sem er að sáttur ferðamaður er líklegri til að koma aftur síðar eða bera borginni vel söguna heima fyrir.

Aukinheldur er Amsterdam tiltölulega lítil með aðeins rúmlega milljón íbúa. Það aftur þýðir að miðborgin, sá hluti sem ferðamenn dvelja helst í og skoða í þaula, er smár og allt er þar í göngufæri fyrir alla sem sæmilegir eru til heilsunnar. Er enda Amsterdam eins og Holland allt flatari en pönnukaka og aldrei þarf að hafa áhyggjur af göngum upp eða niður brekkur eða hæðir. Slíkt fyrirfinnst varla í landinu.

Ratvísi

Sú Amsterdam sem langflestir ferðamenn láta sér nægja að skoða er miðbæjarkjarninn kringum Miðbæjarlestarstöðina, Amsterdam Centraal, en það er ennfremur elsti hluti borgarinnar. Heil fimm síki umkringja þennan kjarna; Singel, Herengracht, Keizergracht, Prinsengracht og Singelgracht en þau voru fyrr á öldum hluti af varnarvirki borgarinnar. Heita má að allar byggingar utan þessa svæðis séu yngri en 200 ára.

Áin Amstel rennur ennfremur gegnum borgina frá suðri. Radíus borgarkjarnans er í raun aðeins tveir kílómetrar en innan hans eru helstu söfn, minnismerki og hótel í borginni. Það er því auðsótt að skoða flest áhugavert á tiltölulega skömmum tíma.

Enginn skal halda að þó Hollendingar séu umburðarlyndir gagnvart vændi og vægari fíkniefnum sé slæmt að heimsækja borgir landsins. Merkilegt nokk þá verða gestir lítið sem ekkert varir við neitt óeðlilegt nema þá að þeir heimsæki kaffihúsin þar sem kannabisreykingar eru leyfðar eða Rauða hverfið illræmda. Að öðru leyti er Amsterdam fögur borg og skemmtileg og sannarlega borgarferðar virði.

Loftslag og ljúflegheit

Amsterdam er alltaf gaman að heimsækja og hver og ein árstíð setur svip á borg og heimamenn með eftirminnilegum hætti. Hún er æði vinsæl meðal ferðamanna og slíkt getur keyrt um þverbak yfir hásumartímann en þó aldrei svo að ekki sé hægt að rölta meðfram síkisbökkum, fá sér kaffi og njóta augnabliksins án vandkvæða. Allir tímar eru góðir tímar í þessari borg. Talsverður raki þýðir að hún er þó ansi köld yfir dimmustu mánuðina en síðan hvenær hafa Íslendingar kvartað yfir slíku?

Til umhugsunar: Þó lítil sé er stórmerkilegt hversu ægileg gerjun er öllum stundum í Amsterdam. Heil þrjú dagblöð/tímarit eru gefin út í borginni til að dekka það sem fram fer hverju sinni. Er afar hjálplegt að grípa eintök af þeim sé maður á ferð um og vilji menningu beint í æð. Amsterdam Weekly er á ensku og gefið út vikulega. Uitkrant er á hollensku en skiljanlegt útlendingum og Amsterdam Spoke er á ensku. Öll eru þau frí og fást á allnokkrum stöðum um borgina meðal annars á flestum kaffihúsum og börum.

Til og frá

Schiphol flugvöllur liggur um 15 kílómetra utan við borgina sjálfa en flugvöllurinn er einn sá stærsti og annasamasti í heimi. Þolinmæði því nauðsyn hér ekki síst við brottför þegar raðir við öryggishliðin geta orðið ansi hreint langar.

Til umhugsunar: Til er kort nokkuð, Privium, sem gefur handhafa leyfi til að fara framfyrir allar raðir á Schiphol flugvelli. Það kostar skildinginn, 17 þúsund krónur, en borgar sig sennilega ef farið er margar ferðir árlega.

Sé gist á góðu hóteli í borginni er ráð að kanna fyrirfram hvort umrætt hótel bjóði skutlur frá flugvellinum. Mörg betri hótelin gera það eða senda bíl sérstaklega eftir viðskiptavinum sínum. Oftast er slíkt frítt eða lágmarksgjald innheimt.

Ekki er sérstaklega mælt með að fólk taki leigubíla frá flugvellinum enda ótrúlega dýrir og ferðalag inn í borgina getur tekið allt frá 25 mínútum til 50 mínútna eftir traffík og leiðinni sem valin er. Rokkar því fargjaldið milli 7 og 10 þúsund krónur sem er næsta fáránlegt miðað við að aðeins fimmtán kílómetrar eru inn í miðbæ Amsterdam.

Betra er að taka lest á Aðallestarstöðina, Centraal Stadion, en stöðin er undir flugvallarbyggingunni. Margar ferðir eru í boði en flestar koma við á Aðalstöðinni. Ganga lestirnar allan sólarhringinn þó fjöldi ferða yfir hánóttina geti farið niður í eina hverja klukkustund. Miðaverð er 900 krónur aðra leið og er lestin aðeins fimmtán mínútur á leiðinni. Miðasjálfsalar eru á brautarpallinum en þær vélar taka aðeins peninga. Einnig er sölubás inni í flugstöðinni þar sem hægt er að kaupa miða með kortum en þá bætist við örlítið gjald. Þar fást líka upplýsingar um næstu lest og leiðbeiningar aðrar. Hafðu einnig í huga að lestir fara beint frá stöðinni í Schiphol til annarra landa eins og Belgíu eða Þýskalands og strangt til tekið engin þörf að yfirgefa flugstöðina sé ætlunin að halda ferðinni áfram.

Til umhugsunar: Þjófnaður var algengur í og við lestarnar atarna. Ástandið hefur lagast frá því sem áður var en þjófnaður er enn vandamál. Þjófarnnir vinna gjarnan margir saman. Einn truflar þig meðan aðrir grípa farangurinn. Til dæmis er algengt að það sé gert í sama mund og hurðir lestanna lokast sem útilokar að þú getir elt þjófanna. Hafðu augun öllum stundum á farangri þínum.

Hægt er að spara einhverjar upphæðir með að notast við almenningssamgöngur. Þeir strætisvagnar sem eiga leið hjá flugvellinum fara víða um bæinn en ekki endilega niður í miðbæ. Nauðsynlegt er að eiga svokallað strippenkart sem greiða þarf með í vagnana. 30 mínútur tekur með þeim niður á fjölfarna staði á borð við Museumplein og Leidseplein sem eru rétt sunnan við miðbæjarkjarnann. Ferð þangað kostar milli 400 og 600 krónur eftir því hvaða vagn er tekinn. Er því aðeins um sparnað að ræða gagnvart lestinni sé áfangastaðurinn ekki í miðbænum. Vagnarnir sem um ræðir eru: 197, 370, N97 eða 358. Fara þeir allir hjá tvívegis á klukkustundarfresti.

Margar bílaleigur starfa innan veggja Schiphol flugvallar en A4 hraðbrautin kemur þér inn í borgina á 15 mínútum að öllu eðlilegu. Vertu undir það búinn að lenda í umferðateppu því nær sem dregur miðbæjarkjarnanum. Bílastæði eru víða en um þau setið og ekki er ókeypis að leggja neins staðar nema í nokkurri fjarlægð.

Samgöngur og snatterí

Eins og er raunin svo víða í borgum Evrópu er allra einfaldast að nota sína eigin fætur til að komast um og milli staða. Miðbær Amsterdam er eins og fram hefur komið lítill og flatur og ekki reynir mikið á fólk þó gengið sé lon og don. Þá er Amsterdam einhver hjólreiðavænasta borg heims og fjölmargar hjólaleigur um alla borg. Það er annar möguleiki ef fólk vill sjá sem mest á sem skemmstum tíma. Langflestar götur eru sérmerktar fyrir hjólreiðafólk og virðing borin fyrir slíkum fararskjótum. Á þrengstu götunum er ekki pláss bæði fyrir bíla og hjólreiðafólk en þar eiga hjólreiðamenn réttinn. Hjólaleigu má finna á Aðallestarstöðinni meðal annars og kostar dagurinn 1600 krónur. Hér má sjá leiðakort fyrir alla hvort sem gestir eru á hjólum eða bílum. Gæta skal þess vel að læsa hjólinu öllum stundum. Þá er ekkert sérstaklega vitlaust að kaupa sér hjól ef dvalið er lengur en örfáa daga því fá má ódýr hjól í smáauglýsingum blaðanna á vel innan við 5000 krónur.

Hjólaleigur: MacBike, Orangebike

Aðalsamgöngumáti bæjarbúa er með sporvögnum þó strætisvagnar séu líka í notkun og einar fjórar jarðlestir fara um borgina. Fyrirtækið GVB sér um allan rekstur þess kerfis og á heimasíðu þeirra eru fín kort til aðstoðar ferðafólki. Hér má sjá leiðakerfið allt. Ekki gleyma því að sá hluti borgarinnar sem er mest heillandi og býður upp á flest það er ferðamenn vilja upplifa og sjá er lítill og þörfin að fara útfyrir gamla miðbæjarkjarnann er í raun engin nema fyrir forvitnis sakir.

Nákvæm leiðakort og tímasetningar má finna á öllum stöðvum og ætti enginn að lenda í vandræðum með að nota almenningssamgöngur hér. Gróflega tekur um 20 mínútur að fara úr miðbænum í úthverfin.

Miða er hægt að kaupa um borð í strætis- og sporvögnum og víða í stórmörkuðum og blaða- og tóbakssölum um alla borg. Heimamenn sjálfir nota oftast svokallað OV kort sem er afsláttarkort en það hentar í raun ferðamönnum lítið enda ætlað til brúks um langt skeið.

Sé ætlunin að rúnta talsvert um borgina er best að kaupa Strippenkart á næsta sölustað. Eru það átta, fimmtán eða 45 miða kort sem stimpla þarf áður en ferð er hafin. Duga þau í klukkustund eftir stimplun. Átta miða kort kostar 1.400 krónur. Slík kort gilda ekki í lestir að Schiphol flugvelli.

Til umhugsunar: Afsláttarkortið I Amsterdam er segulkort sem veitir ferðamönnum umtalsverða afslætti á söfn og í samgöngutæki. Þau er hægt að fá víða á sölustöðum, sjoppum og á upplýsingamiðstöðvum. Gilda frá 24 stundum og til 72 stunda og kosta frá 7 þúsund krónum. Vænleg ef þú vilt taka söfnin eins og þau leggja sig á skömmum tíma. Sjá nánar um þau kort hér.

Mundu að í Amsterdam tala allflestir ensku og þjóðráð er að taka vagnstjóra tali ef eitthvað er óskýrt.

Allnokkrar ferjur fara um í Amsterdam og eru sumar þeirra alveg ókeypis. Það á til dæmis við um ferjur frá Aðalbrautarstöðinni, Centraal Stadion, en ferjubakki er bak við stöðina sjálfa. Skemmtilegt er að taka túr yfir til NDSM Werf sem er mesta uppgangshverfi borgarinnar. Það var áður úr sér gengið iðnaðarhverfi en er nú að breytast í fjörugt og fallegt lista- og kaffihúsahverfi. Þá er við bryggjuna þar að finna einn skemmtilegasta bát sem fyrirfinnst; Pönnukökubátinn, en meðan hann siglir um geta gestir hámað í sig fyrsta flokks pönnukökur eins og þeir framast geta.

Sem fyrr segir er næstum kjánalegt að þvælast um Amsterdam á bíl og sennilega sparar það engan tíma heldur ef það er hugmyndin. Bílastæði í miðborginni eru fá og dýr og það er ekki nema ætlunin sé að nota Amsterdam sem heimastöð meðan landið eða nágrennið er skoðað sem bíll verður sniðugur kostur.

Leigubílar eru út um allt í borginni en dýrir. Startgjaldið eitt nemur 1350 krónum. Allir nota þeir mæla en engu að síður reyna alltaf einhverjir að herja meira út úr ferðamönnum. Hafið einnig hugfast að margir bílstjórar neita að aka stuttar vegalengdir.

Í Amsterdam hefur verið að ryðja sér til rúms að nota Tuk Tuk vagna til að þvælast um. Tuk Tuk eru þriggja hjóla mótorkerrur að tælenskum hætti en með þeim er oft auðveldara og fljótlegra að komast um. Slík tæki er hægt að panta með fyrirvara en verðlagning er hverfaskipt; þ.e. fargjald miðast við hvort farið er milli hverfa. Innan eins hverfis kostar farið 650 krónur fyrir manninn og 900 krónur fyrir tvo. Sé farið yfir hverfamörk bætast aðrar 650 krónur við heildargjaldið og svo framvegis. Heimasíðan.

Söfn og sjónarspil

Eitt er það sem Amsterdam hefur fram yfir flestar aðrar merkilegar borgir Evrópu en það er hversu vel hefur tekist að varðveita gamlar byggingar í miðbænum. Þakka má bæði borgaryfirvöldum sem gera sér mikið far um varðveislu slíkra bygginga en ekki síður að Amsterdam slapp næsta alveg við sprengjur í Seinni heimsstyrjöldinni. Götumynd fjölmargra gatna í gamla hlutanum eru því nákvæmlega eins og þær voru á 19. öld.

Merkileg staðreynd um Amsterdam sem fáir vita af er að miðbær Amsterdam er ekkert annað en 90 litlar eyjur sem tengdar eru saman með rúmlega 400 brúm. Á þessum eyjum eru yfir sjö þúsund byggingar sem falla undir skilgreininguna menningarverðmæti og það er sannarlega forvitnilegt, og fyrir flesta gaman, að rölta um í hægðum sínum og dást að þeirri virðingu sem hinu gamla er sýnd í borginni. Sérstök samtök, BMA, sjá um varðveislu gamalla bygginga og götumynda og má á heimasíðu þeirra fá talsverðar upplýsingar þó hún sé aðeins á hollensku. Á vef þeirra er listi yfir hundrað merkilegustu byggingarnar í borginni.

Tvær elstu götur borgarinnar eru Warmoesstraat og Zeedijik og meðfram þeim er hver byggingin á fætur annarri þess virði að staldra við enda byggð á fimmtándu öld. Skammt þar frá er Begijnhof sem er lokaður miðaldagarður.

Kirkjur eru hér fimm talsins í gamla miðbænum. Sú elsta Oude Kerk var byggð árið 1306 og er staðsett í Rauða hverfinu. Westerkerk er stærst þeirra og sú eina sem er alltaf opin ferðafólki og meira að segja er hægt að labba upp í turn hennar sem á björtum degi gefur mikla útsýn yfir borgina alla og til sjávar. Kostar það 1100 krónur.

Holland í hugum flestra áður fyrr tengist túlípönum, tréskóm og vindmyllum. Einar átta vindmyllur finnast enn rétt utan miðbæjarkjarnans. Þær eru þó ekki allar starfandi. Þær eru:

 • De Goyer – Endurgerð mylla við Funenkade sem nú hýsir brugghús.
 • De Otter – Endurgerð mylla við Buyskade og er starfhæf þrátt fyrir hartnær 400 ára aldur.
 • De Bloem – við Haarlemmerweg.
 • De 1200 Roe – einnig við Haarlemmerweg.
 • D´Admiraal – við bakka Nordhollands kanalsins.
 • Rikermolen – við ánna Amstel á Kalfjeslaan götu.

Menning er Hollendingum í blóð borin og lítil tilviljun að margir hollenskir listamenn eru meðal þeirra allra frægustu í listasögunni. Fín söfn er að finna í Amsterdam og minnst eitt heimsklassa safn og mælt er sterklega með að heimsækja nokkur þeirra hið minnsta. Hafðu í huga að miða að langflestum söfnum er hægt að kaupa á næstu upplýsingamiðstöð og engin þörf að kaupa slíkt á staðnum.

Til umhugsunar: Svokallað Safnakort, Museumkaart, er í boði í Amsterdam eins og víðar í landinu. Gefur það umtalsverða afslætti að söfnum alls staðar í Hollandi. Það kostar 8.500 krónur fyrir fullorðinn og 6.200 krónur fyrir ungmenni en gildir í heilt ár og er fljótt að spara þér peninga ef heimsækja á fleiri en tvö til þrjú söfn. Á heimasíðunni má sjá á hvaða söfn það gefur afslætti og hve mikinn.

>> Safn Amsterdam skólans (Museum Het Schip) – Byggingarlist og arkitektúr í stíl í Amsterdam skólans frá a til ö. Fróðlegt mjög og sýningum reglulega breytt. Þá er safnahúsið sjálft og nálægar byggingar merkilegar fyrir margra hluta sakir. Opið frá þriðju – sunnudaga frá 11 – 17. Strætisvagn: 22 frá Centraal stadion og úr við Viktoríuhótelið. Aðgangseyrir 1.200 krónur. Heimasíðan.

>> Fornleifasafn Háskólans í Amsterdam (Allard Pierson Museum) – Safn hluta og minja frá 4000 fyrir Krist til 500 eftir Krist. Sporvagn: 4, 9, 16 og 24 fara allir framhjá safninu við Oude Turfmarkt. Opið 10 – 17 virka daga og 13 – 17 um helgar. 1200 krónur fyrir fullorðna en helmingur þess fyrir börn yngri en 16. Heimasíðan.

>> Sögusafnið (Amsterdams Historisch Museum) – Saga borgarinnar í máli og myndum. Sporvagn: 1,2 og 5 við Spui. Opið 10 – 17 virka daga en 11 – 17 um helgar. Aðgangseyrir er 1800 krónur fyrir fullorðna og helmingur þess fyrir yngri en 16 ára. Heimasíðan.

>> Hús Önnu Frank (Anne Frank House) – Sennilega frægasta safn Hollands að Ríkissafninu frátöldu. Allir þekkja Önnu og þann harm sem hún og fjölskylda hennar varð fyrir í Seinni heimsstyrjöldinni. Langar raðir vilja myndast hér sem oft vill verða til þess að fólk snúi við en láttu það ekki aftra þér því röðin gengur hratt fyrir sig. Þá eru raðirnar ólíkt minni eftir klukkan 17 á daginn og ennfremur er hægt að sleppa röðinni með því að kaupa miða fyrirfram á vefsíðu safnsins. Safnið er í miðbænum um 20 mínútna labb frá Aðalbrautarstöðinni. Sporvagnar 13 og 17 og strætisvagnar 170 og 171 fara þar framhjá. Fara skal út við Westermarkt. Yfir sumartímann er opið daglega frá 9 – 22 en skemur á veturna. Aðgangseyrir 1600 krónur.Museumkaart kortið gildir ekki hér. Heimasíðan.

>> Demantasafnið (Diamant Museum) – Holland er eitt af fimm löndum heims þar sem demantaverslun er hvað mest og er Amsterdam þar fremst meðal jafningja. Á þessu safni er saga demanta rakin og fjölmargir dýrgripir tengdir demöntum til sýnis. Sé fólk loðið um lófana er hægt að versla demanta í verslun safnsins að ferð lokinni. Aðgangur er ókeypis með Museumkaart. Safnið stendur við Paulus Potterstraat bakvið Ríkissafnið og gengt Van Gogh safninu. Opið alla daga frá 9 – 17. Sporvagnar: 2 og 5 stoppa hjá Ríkissafninu. Aðgangseyrir 1400 krónur. Heimasíðan.

>> Kattasafnið (Katten Kabinet) – Stórundarlegt safn tengt köttum á ríkulegu heimili manns sem missti köttinn sinn fyrir nokkrum árum og opnaði af því tilefni safn. Þar má meðal annars sjá tvo alvöru lifandi ketti. Sjálfur er eigandinn ekki köttaður. Húsið stendur við Herengracht 147 í fallegri byggingu. Opið 10 – 16 virka daga nema mánudaga. 12 til 17 um helgar. Þúsund krónur kostar að kíkja. Heimasíðan.

>> Amstelkring safnið (Ons Leve Heer Op Solder) – Eitt af merkilegri söfnum Hollands alls og það elsta í Amsterdam. Í raun er þetta ekki safn heldur kirkja á efstu hæð íbúðarhúss í miðborginni en nákvæmlega ekkert gefur til kynna að þarna sé kirkja með sætum fyrir 200 manns, orgel og altari. Það var einmitt hugmyndin enda kirkjan reist af kaþólikkum þegar þeir voru grimmilega eltir og myrtir vegna trúarskoðanna sinna fyrr á öldum. Urðu þeir því að fela kirkjur sínar og hér tókst þeim frábærlega upp. Þangað er gott að koma. Safnið er í miðju Rauða hverfinu, fimm mínútna gangur frá Aðallestarstöðinni en sporvagnar 4, 9,16 og 24 ganga þar nálægt. Fara skal út við Damtorg. Opið 10 – 17 alla daga nema sunnudaga þegar opið er frá 13 – 17. Aðgangseyrir 1300 en 150 krónur fyrir börn og ungmenni. Heimasíðan.

>> Vísindamiðstöðin NEMO (NEMO) – Stærsta vísindamiðstöð Hollands og afar skemmtilega uppsett. Hér una börnin sér dável og gleyma sér strax í öllum þeim undrum sem þar ber fyrir augu. Strætisvagnar 22, 42 og 43 stoppa fyrir utan á stöðinni Kajidiksplein. Opið 10 – 17 alla daga. Prísinn 2300 krónur fyrir manninn. Heimasíðan.

>> Hús Rembrandts (Museum het Rembrandthuis) – Eitt heimili listmálarans heimsfræga og margt ber þarna fyrir augu. Meðal annars fjöldi teikninga hans og skissa og farið gegnum ævi hans og feril allan. Opið daglega frá 10 – 17. Sporvagnar 9 og 14 og úr við Waterlooplein. 1500 krónur kostar að sjá þetta safn. Heimasíðan.

>> Ríkissafnið (Rijksmuseum) – Stærsta og merkilegasta safn í Hollandi öllu og í hópi bestu listasafna heims. Hér eru verk allra hollensku meistaranna auk þúsunda annarra merkisverka. Algjörlega ómissandi og gefðu þér góðan tíma. Sporvagnar 2 eða 5 til Hobbemastraat. Opið 9 – 18 alla daga og til 20:30 á föstudögum. Miðaverð 2000 krónur en frítt fyrir yngri en 18 ára. Heimasíðan.

>> Siglingasafnið (Scheepwart Museum) – Holland var á sínum tíma stórveldi í heiminum ekki síst vegna afreka á sjó. Hér má skyggnast inn í þann heim og er sérstaklega ómissandi áhugamönnum um seglskútur enda liggur þar við bryggju seglskipuð Amsterdam. Safnið er við Kattenburgerplein torgið. Aðgangur einn heill þúsund kall. Opið frá þriðjudegi til sunnudags milli 10 og 17. Heimasíðan.

>> Kynlífssafnið (Sexmuseum Venustempel) – Einhvern veginn á kynlífssafn meira heima í Amsterdam en annars staðar og þetta ákveðna safn er það vinsælasta af þessum toga í landinu öllu. Bannað yngri en 16. ára. Opið daglega frá 9:30 til 23:30. Aðgangur 550 krónur. Heimasíðan.

>> Kannabissafnið (The Hash, Marihuana & Hemp Museum) – Nema hvað! Fróðlegt og vinsælt safn um þessa umdeildu plöntu og afurðir hennar. Helst til dýrt en vel uppsett og svarar öllum spurningum sem fólk kann að hafa. Safnið stendur í Rauða hverfinu við Oudezijdsachterburgwalstræti. Opið alla daga frá 10 – 23. Aðgangur 1600 krónur. Heimasíðan.

>> Þjóðháttasafnið (Tropenmuseum) – Þjóðháttasafn á Linnaeusstraat með áherslu á muni frá Asíu, Afríku og Suður Ameríku. Opið daglega frá 10 – 17. Inngangseyrir 1400 krónur en frítt með museumkaart. Heimasíðan.

>> Van Gogh safnið (Van Gogh Museum) – Safn tileinkað þessum dáðadreng Hollands og allnokkur verka hans er hér að finna þó þau allra frægustu séu annars staðar. Hér má þó líta augum verk á borð við Sólblómin og Kartöfluátvöglin. Hér má líka sjá nokkur verk Monet. Sporvagnar: 2 eða 5 og út hjá Nieuw Sloten. Opið 10 – 18 alla daga og til 22 á föstudögum. Prísinn 2300 krónur en aðeins 300 fyrir börn og unglinga. Heimasíðan.

>> Andspyrnusafnið (Verzetsmuseum) – Hátt skrifað safn er lýsir sögu andspyrnuhreyfingar Hollands meðan á Seinni heimsstyrjöldinni stóð en sú saga hefur aldrei farið mjög hátt. Sporvagn: 9 til Plantage Kerklaan. Opið 10 – 17 alla daga nema mánudaga. Aðgangur 1200 krónur og helmingur fyrir ungmenni. Heimasíðan.

>> Lystigarður Amsterdam (Hortus Botanicus) – Vinsæll og fjölbreyttur garður og hvergi betra að slaka á tyggja strá í grænu grasi umkringdur stórfallegum plöntum. Einn elsti lystigarður heims. Opið 9 – 17 virka daga og 10 – 17 um helgar. Opið fram á kvöldin í júlí og ágúst. Sporvagnar: 9 og 14 til Visserplein. Verð 1.300 krónur fyrir fullorðna. Heimasíðan.

>> Dýragarðurinn (Artis) – Þessi ákveðni garður er mikið meira en aðeins dýragarður. Hér má einnig finna plöntugarð, sædýrasafn og söfn tengt dýrum, lífinu á jörð og jarðfræði. Skemmtilegur staður. Opið milli 9 og 17 alla daga og klukkustund lengur yfir hásumartímann. Prísinn brattur á 3.300 krónur en mikið fyrir peninginn ef fólk gefur sér góðan tíma. Heimasíðan.

>> Rauða hverfið (Rosse Buurt) – Það sem í daglegu tali er nefnt Rauða hverfið í Amsterdam er tæknilega séð alls ekki eitt hverfi heldur samheiti yfir þá þrjá staði þar sem vændissala er mest áberandi í borginni; De Wallen, Singelgebied og Ruysdealkade. Hvort sem siðprúðum líkar betur eða verr eða þrátt fyrir aragrúa góðra safna og afþreyingar um alla borg er Rauða hverfið í dag og hefur alltaf verið vinsælasta hverfi borgarinnar að heimsækja. Sinn þátt í því á sú staðreynd að þetta alræmda hverfi er staðsett í elsta borgarhluta Amsterdam og því mikil saga í raun við hvert fótmál jafnvel þó berbrjósta stúlkur og heldrukknir Bretar skyggi verulega á þá sögu um kvöld og helgar. Margir eru feimnir eða hræddir við að labba um á þessum slóðum og vissulega heyrast bæði ljúf köll vændiskvenna og röfl og læti kófdrukkinna útlendinga á eftir þeim er þar fara um en engu að síður vilja margir meina að þetta sé öruggasta svæðið í allri Amsterdam. Það helgast af því að lögregla er alltaf með mikinn fjölda manna á vakt í hverfinu, mun fleiri en finnast í öðrum hverfum. Sé einhver að gerast nærgöngull nægir yfirleitt alltaf að öskra hátt á viðkomandi að láta þig vera. Alls ekki láta hverfið fram hjá ykkur fara því þarna er töluvert fleira í boði en kynlíf og kannabis. Fjölmörg smærri leikhús starfa hér. Nóg af ágætum hefðbundnum kaffihúsum og börum og nóg af kannabiskaffihúsum einnig reyndar. Allnokkrir aðilar bjóða gönguferðir með leiðsögn um Rauða hverfið að kvöld- eða næturlagi og er það vert að skoða öryggisins vegna. Upplýsingar um öll slík fyrirtæki fást á næstu Upplýsingamiðstöð en hér eru tvö slík: Toptours, ZoomAmsterdam. Bæði þessi fyrirtæki fá ágætar einkunnir hjá ferðamönnum.

Til umhugsunar: Eitt og annað ber að varast á ferð um Rauða hverfið. Ekki er ólíklegt að þér séu boðin harðari fíkniefni en hass eða kannabis en hafnaðu öllu slíku. Öll fíkniefni eru strangt til tekið ólögleg í Hollandi og það er aðeins á kannabis kaffihúsum sem lögregla lítur framhjá notkun. Harðir dómar fást við notkun, kaup eða sölu á harðari efnum. Vertu þess viðbúin að stöku vændiskonur í gluggunum frægu séu alveg naktar og ófeimnar að sýna sig. Samkeppnin er hörð á þessum slóðum og vilji menn eiga viðskipti er í fínu lagi að prútta. Eðlilegt verð á munnmökum og síðan kynmökum er frá tíu þúsund krónum. Þarna finnast einnig vændiskarlar í og með. Að síðustu skal aldrei taka myndir af vændiskonum við störf svo sjáanlegt sé. Sjáist til þín er ekki ólíklegt að myndavélin sé rifin af þér og hún eyðilögð af athugulum hórmöngurum.
>> Bátsferðir – Allnokkur fyrirtæki bjóða upp á bátsferðir um síki og skurði borgarinnar. Slíkar ferðir eru full túristalegar fyrir marga en ástæðan vinsælda þeirra einfaldlega sú að slíkar ferðir eru oftar en ekki afskaplega indælar og afslappandi. Taka þær flestar um klukkustund og fara flestar frá bryggju við Prins Hendrikkade beint mót Aðallestarstöðinni.
>> Wynand Fockink (Wynand Fockink)  –  Nafnið skondið en þetta er heiti einnar elstu bruggverksmiðju Amsterdam sem hóf starfsemi 1679. Enn er þar bruggað og innandyra er allt að mestu í sama stílnum og var þegar dyrnar opnuðu fyrir 330 árum síðan. Afar fróðlegt allt saman en panta verður með viku fyrirvara til að fá að rölta þar um ganga og smakka guðaveigarnar. Þá er einnig í boði að taka stutta kúrsa í framleiðslu sjénivers eða líkjöra. Heimasíðan.
>> Pönnukökubáturinn (Pannenkoekenboot)  –  Hér er sérdeilis fínt að lyfta sér upp á laugardagskvöldi en túrar með pönnukökubátnum eru aðeins í boði þau kvöld. Um er að ræða rúmlega tveggja klukkustunda bátsferð úti fyrir borginni og pönnukökur í boði eins og hver getur í sig látið. Hafi enginn lyst á pönnsum er líka hægt að fá sér mat úr litlu hlaðborði. Fínt að njóta og sjá Amsterdam frá öðruvísi sjónarhorni en annars. Miðaverð 3.400 krónur. Heimasíðan.
>> Heineken brugghúsið (Heineken Experience) – Hægt er að heimsækja fyrrum brugghús þessa frægasta hollenska bjórs í veröldinni en segja verður eins og er að það er heldur dapurt prógramm og dýrt í þokkabót. 90 mínútna rúntur um autt brugghúsið og tveir heilir bjórar í kaupbæti. Sporvagnar: 16, 24 og 25. Opið 11 – 19 alla daga. Miðaverð 2800 krónur. Heimasíðan.
Sé ys og þys stórborgarlífsins að ná til þín finnst mörgum ráð að planta sér í almenningsgarði með góða bók eða góðan vin og slaka. Nokkra fína garða er að finna í Amsterdam en flestir eru þeir í nokkurri fjarlægð frá gamla miðbænum.
 • Vondelpark er eini garðurinn í eldri hluta Amsterdam og eðlilega fjölsóttur af heimamönnum. Þá státar þessi garður af sinni eigin heimasíðu hér sem verður að teljast mikil framsýni.
 • Rembrandtpark er nokkuð vestur af Vondelpark en miklu stærri og veitir gestum mun meira næði.
 • Wertheimpark liggur beint andspænis Lystagarðinum. Lítill en yndislegur garður við síki og í honum er minnismerki um fallna í Seinni heimsstyrjöldinni.
 • Westerpark liggur við Haarlemmerweg. Þar var áður gasverksmiðja.
 • Oosterpark er vinsæll og gjarnan haldnir þar tónleikar og smærri hátíðir. Sporvagnar: 3, 7 eða 9. Garðurinn er bakvið Þjóðháttasafnið.
 • Sarphatipark er vel staðsettur og umkringdur fínum kaffihúsum og börum. Stutt í matvöruverslun. Sporvagn númer 3.
 • Beatrixpark er nefndur í höfuðið á Beatrix drottningu. Garðurinn stór og fallegur og heillar barnafólk einna mest. Sporvagn númer 5.
 • Museumplein er ekki garður í orðsins fyllstu heldur slétt grasflöt umkringd helstu söfnum borgarinnar; Ríkissafnið og Van Gogh safnið. Mikið líf þarna og meðal annars lítil tjörn sem breytist í skautasvell á veturna. Minnismerki út um allt hér og flott útsýni yfir hið mikla Ríkissafn.

Hátíðir og húllumhæ

Hollendingar kunna að skemmta sér og það er varla á nokkurn hallað að fullyrða að þeir almennt séu með skemmtilegri þjóðum í Evrópu. Gestrisnir og vinalegir og temmilega sama um smáatriði. Hvergi er það sýnilegra en á Drottningardaginn, Konunginnedag, um allt land en sýnu mest í borgunum. Springur allt í litagleði og vart er fólk á ferli án þess að klæða sig í eitthvað appelsínugult. Þann dag er öllum heimilt að selja allt sem þeir vilja á götum úti og mismerkilegir og forvitnilegir markaður finnast í öllum helstu götum. Götupartí og veislur á hverju götuhorni og öllum er boðið. Án alls efa ein skemmtilegasta hátíð heims. Fer hún fram ár hvert þann 30. apríl nema sá dagur komi upp á sunnudegi. Er hann þá færður til laugardagsins af virðingu við trúarhópa sem halda sunnudaginn heilagan.

Önnur hátíð sem er ekki minna litrík þó minni sé er Canal Pride sem er gay pride hátíð þeirra í Amsterdam. Sérstaklega skemmtileg er „skrúðgangan“ sem fer fram á bátum í Prinsengracht skurðinum. Hún er alltaf haldin fyrstu helgina í ágúst.

Verslun og viðskipti

Amsterdam hefur aldrei náð á radarinn hjá kaupglöðum Íslendingum og ástæðan einföld; borgin er tiltölulega dýr og ekki batnaði það þegar krónugreyið datt á hausinn. Að því sögðu er rétt að hafa líka í huga að verslanir á Íslandi eru fokdýrar og í þeim samanburði er Amsterdam ekki slæmur kostur.

Helstu verslunargötur Amsterdam liggja nánast allar í línu frá Aðallestarstöðinni að Leidseplein. Viljir þú gera ágæt kaup eru þar göturnar sem þú vilt kíkja í. Þær eru: Nieuwendijk, Kalverstraat, Heiligweg og Leidsestraat. Mest er um fataverslanir og er úrvalið gott og fjölbreytt. Einnig eru þar aðrar verslanir en láttu það ekki aftra þér að þessi hluti borgarinnar hefur heldur látið á sjá og göturnar í nokkurri niðurníðslu.

Skipti merkjavara sköpum fyrir þína verslun er ráð að bregða sér í átt að Ríkissafninu en þar finnur þú P.C. Hoofstraat en við hana standa margar dýrari verslanir.

Aðrir staðir þar sem auðvelt er að týna sér í verslunum eru kringum Haarlemmerstraat, Utrechtsestraat og Spiegelstraat. Þá eru fjölmargar af smærri áhugaverðari verslunum borgarinnar að finna við stærstu síkin. Labb meðfram Prinsengracht, Keizergracht eða Jordaan leiðir í ljós fjölda smærri verslana með varning úr öllum mögulegum áttum.

Annars þarf ekki sérstaklega að tiltaka ákveðna bæjarhluta í þessu tilviki því verslanir eru ansi víða og rölt um einn dag eða svo gefur þér góða hugmynd um hvar þær er að finna.

Að síðustu er engin ferð til Amsterdam fullkomin án þess að kíkja við á útimarkaði en þeir eru vinsælir meðal heimamanna. Hollendingar taka markaðina sína alvarlega og eru þeim meðal annars gefin einkunn árlega. Þessi síða hér er tileinkuð mörkuðum landsins. Þeir helstu í Amsterdam eru:

 • Albert Cuyp markaðurinn er stærsti markaður í Hollandi með hátt í 270 sölubása öllu jöfnu. Glingur og góðmeti eins og þú getur á þig og í þig látið. Opinn alla virka daga frá 9 – 18. Staðsettur við Albert Cuypstraat í De Pijp hverfinu. Sporvagnar: 16, 20, 24 eða 25. Athugið að hann lokar fyrirvaralítið ef veður er slæmt.
 • Waterlooplein er flóamarkaður af gamla skólanum. Drasl á drasl ofan að mestu en ekki er allt gull sem glóir. Opinn 9 – 17 alla daga nema sunnudaga. Staðsettur við Ráðhúsið. Sporvagnar: 9 eða 14 eða með Metró 51 eða 53.
 • Dappermarkt hefur oftar en einu sinni verið valin besti markaður landsins. Allt mögulegt hér til sölu og fróðir vilja meina að þessi markaður sé sá ódýrasti af mörkuðum öllum í Amsterdam. Opinn 9 – 18 alla daga nema sunnudaga. Sporvagnar: 3, 7,9 eða 10. Strætisvagnar: 22 og 37.
 • Lindengracht er stærsti ávaxta, grænmetis og blómamarkaðurinn þó einnig sé þar að finna aðra hluti einnig. Frábær þessi og úrvalið ferskt og ljúft. Opinn milli 9 og 16 á laugardögum. Staðsettur í Jordaan við kanalinn. Sporvagnar: 3 og 10 að Marnixbad.
 • Noordermarkt er tvíhöfða markaður einnig í Jordaan hverfinu. Á mánudögum milli 9 og 13 er þetta flóamarkaður í slakari kantinum en á laugardögum milli 9 og 16 er þetta stórfínn markaður með lífrænar vörur í forgrunni. Grænmeti, ávextir, vín og ostar og ýmislegt fleira spennandi. Sporvagnar: 3 eða 10 að Marnixbad og stutt rölt niður Westerstraat.

Matur og mjöður

* Fararheill.is mælir hvorki með né mót veitingastöðum eða börum. Þess í stað bendum við á þrjá viðurkennda veitingahúsavefi og vonum að lesandinn finni þar eitthvað við hæfi.

Sé buddan tómleg á ferð um Amsterdam má fá samlokur og annan mat á skikkanlegu verði í öllum matvöruverslunum Albert Heijn. Eru þær víða um borgina.
Í Amsterdam er sægur af góðum veitingastöðum og eru langflestir í háum klassa enda láta heimamenn ekki bjóða sér neitt minna. Sem fyrr mælir Fararheill með að hafa augun hjá sér á röltinu og muna eftir þeim stöðum sem heimamenn sjálfir virðast fylla. Er það hundrað prósent ávísun á góðan veitingastað.
Enginn skortur er að bandarískum skyndibitastöðum í miðbænum en reynið fyrir alla muni að forðast þá því þann mat er hægt að fá alls staðar auk þess sem skyndibitinn er ekkert mikið ódýrari kostur en á smærri veitingastöðum borgarinnar.
Að því sögðu er ekki neitt eitt hverfi sem mæla skal með. Góðir veitingastaðir eru á hverju strái og fjölbreytni þeirra merkileg. Eiga enda Hollendingar mikla sögu sem nær vel út fyrir Holland sjálft og það má merkja í fjölda staða sem bjóða rétti frá karabíska hafinu og víðar. Fer góðum sögum af þeim sem og einnig indónesískum mat meðan Indverskir staðir þykja á heildina séð dýrir og í slakari kantinum.
Sértu í vandræðum má finna fjölda staða við Albert Cyupstraat eða Haarlemmerstraat. Nokkra dýrari og fínni veitingastaði má finna á Utrechtsestraat.
♥ Veitingasíða Michelin mælir með þessum stöðum í Amsterdam.
Hér eru meðmæli breska tímaritins Seethru.

♥ Ferðavefurinn Thalys er jafnan traustur þegar kemur að veitingastöðum.

Líf og limir

Amsterdam er líkt og aðrar borgir heimsins ekki laus við slæm element. Smáþjófnaður er algengur og hið klassíska að leggja verðmæti aldrei frá sér á almannafæri á sannarlega við hér. Þjófar eru eðli málsins samkvæmt fjölmennastir á sömu stöðum og ferðamenn. Best er að geyma kvenmannsveskin heima þegar farið er á fjölfarna staði. Geyma skal kort eða peninga í buxum að framanverðu og hafa hendur í vösum.
Betlararar finnast hér þótt lögregluyfirvöld hafi gert skúrk í þeim málum undanfarin ár en þeir eru oftast ekki vandamál.
Farið varlega við gönguferðir að labba ekki á hjólreiðastígum sem eiga að vera sérmerktir en eru það ekki alltaf. Hjólreiðafólk ber litla virðingu fyrir gangandi vegfarendum og margir láta alla þá sem fyrir verða heyra það.
Veitingamenn á smærri veitingastöðum eða við sölubása úti á götum reyna gjarnan að gefa of lítið til baka ef áberandi er að viðskiptavinurinn veit hvorki upp né niður á evru. Fylgist einnig með að gefa ekki þjórfé á veitingastöðum nema kanna reikninginn fyrst því oft er þjórfé reiknað inn í hann.

Fara skal varlega með að prófa fíkniefnin sem til sölu er á kaffihúsunum. Aldrei skal fara alein þangað nema þú sért sjóuð/aður í neyslu. Mikill munur getur verið á styrkleika kannabis eða sveppa sem selt er á hverjum stað fyrir sig og auðvelt að lenda í svo mikilli vímu að þú veist hvorki í þennan heim né annan. Þó lögregla láti slíkt afskiptalaust innan kaffihúsanna er annað uppi á teningnum utandyra.