Skip to main content

Andri Már Ingólfsson, forstjóri og eigandi Primera Air, hefur fyrirskipað sínu fólki að hundsa alfarið kröfur fjölda viðskiptavina flugfélagsins sem þurftu að þola að vera rúmlega sólarhring á leiðinni frá Tenerife til Íslands í lok ágúst.

Tuttugu og sex stundir á leiðinni frá Tenerife en farþegar mega samt bara eiga sig samkvæmt Primera Air. Mynd Rúv

Tuttugu og sex stundir á leiðinni frá Tenerife en farþegar mega samt bara eiga sig samkvæmt Primera Air. Mynd Rúv

Þetta kemur fram í bréfi Primera Air til þeirra farþega sem ekki voru sáttir við tómt rugl flugfélagsins þegar 26 stundir liðu frá brottför frá Tenerife á Spáni þangað til hjól snertu steypu í Keflavík.

Margt kom forsvarsmönnum Primera Air á óvart í umræddu flugi. Þyngd vélarinnar óvenju mikil, slæmt veður á Akureyri eins og skratti úr sauðalegg og engum datt í hug að senda áhöfn sem mögulega gæti tekist á við hugsanlegar tafir á leiðinni. Nei, sendum bara staff sem er alveg á nippinu að geta eða mega starfa svo lengi í einu. Um að gera að þræla staffinu eins og við getum. Enda það væntanlega hugmyndin með að flytja flugstarfsemi Primera Air til Lettlands í stað Íslands að geta brúkað starfsfólk sem ekki er alltaf að væla um lág laun og langan vinnutíma.

Nú er enginn á ritstjórn Fararheill með gráðu í lögum. En við höfum æði góða þekkingu á því sem telst vera bótaskylt hjá flugfélögum og ferðaskrifstofum eftir margra ára skrif um slík mál. Þó aldrei sé hægt að slá neinu 100 prósent föstu þá er málatilbúnaður Primera Air að mestu byggður á sandi. Og blási maður nógu duglega á hús úr sandi…

Hvetjum alla farþega til að sækja bætur til Primera Air gegnum Samgöngustofu með kæru. Það tekur einhverja mánuði að fá niðurstöðu en ritstjórn skal öll hundur heita ef niðurstaðan verður ekki sú að seðlar detta í vasa á endanum. Rök Primera halda nefninlega hvorki vatni né vindum. Þess utan er hægt að ganga á Úrval Útsýn sem seldi umrædda ferð og hafnar líka alfarið að koma til móts við fólkið. Það er nefninlega svo undarlegt á klakanum að seljandi vöru reynist alls ekki ábyrgur fyrir vörunni þegar allt kemur til alls.

Svo er það hitt að allir þekkja mann og annan. Segið öllu ykkar fólki að Primera Air, móðurfyrirtæki Heimsferða, og Úrval Útsýn hundsi að koma til móts við fólk sem þurfti að eyða tuttugu og sex klukkustundum á leið sem alla jafna tekur sex stundir. Það kannski verður til þess að fólk snýr viðskiptum sínum annað með tilheyrandi tapi fyrir þessi fyrirtæki 🙂

PS: ef þér þykir voða vænt um Primera Air er kannski ráð að kíkja á eldri greinar okkar um þetta lettneska fyrirtæki hér og hér og hér og hér.

Lifið svo heil 🙂