Skip to main content

Flugfélagið Icelandair er í vondum málum á föstudaginn kemur takist ekki að berja saman kjarasamning sem flugmenn félagsins eru sáttir við en þeir hafa boðað tímabundið verkfall þann daginn og fleiri í kjölfarið.

Eðlilegt er að starfsfólk njóti þess líka þegar vel gengur en krafa flugmanna er víðs fjarri raunveruleikanum.

Eðlilegt er að starfsfólk njóti þess líka þegar vel gengur en krafa flugmanna er víðs fjarri raunveruleikanum.

Vandamálið er að flugmennirnir gera sér fulla grein fyrir ljómandi góðu gengi fyrirtækisins og vilja eðlilega mola af gnægtarborði. Og þeir eru sannarlega með handhægt vopn í höndum því pása þeirra í sex klukkustundir eða svo á föstudag hefur áhrif á ferðalög allt að átta þúsund ferðalanga þann daginn.

Það er ekki lítið verk að láta alla þá vita, breyta flugi, seinka eða flýta og enginn afsláttur er af hugsanlegum skaðabótum þó verkfalli sé um að kenna. Slíkt er ávallt fyrirséð og því ávallt skaðabótaskylt.

Hið lapþunna Fréttablað greinir frá því í dag að heimildir þeirra hermi að flugmenn hjá Icelandair séu að fara fram á allt að 30 prósent hækkun ofan á núverandi laun en það vill formaður kjaranefndar flugmanna ekkert segja um.

Það er segin saga að þegar menn neita að tjá sig um hluti hafa þeir eitthvað að fela og séu heimildir Fréttablaðsins réttar er full ástæða til. Þrjátíu prósent hækkun á laun fólks sem tekur heim 1,5 til 2,2 milljónir króna í laun í hverjum mánuði er í öllu eðlilegu íslensku samhengi glórulaus. Þó ekki taki Fréttablaðið þann útreikning, enda Icelandair stór auglýsandi í blaðinu, þá þýðir 30% hækkun á tveggja milljóna króna laun að viðkomandi fær 600 þúsund krónur í viðbót í budduna. Laun flugstjóra, verði gengið að kröfum þeirra, verða því um 2.6 milljónir króna á mánuði að meðaltali.

Hægt væri að taka langar freudískar samræður um hversu mikið flugmenn eru með þessum kröfum að gefa skít í aðra launþega landsins sem þegar hafa gengið frá samningum um margfalt lægri kauphækkun. Það eru þeir sannarlega að gera burtséð frá því hvort þeir eiga 30 prósenta hækkun skilið eða ekki.

Verst er þó að stjórnendur Icelandair munu að öllum líkindum henda öllum kjarasamningshækkunum beint út í verðlagið eins og hefð er fyrir hérlendis. Með öðrum orðum; allar hækkanir flugmanna Icelandair koma úr vasa okkar sem fljúga með félaginu í framtíðinni. Rándýr fargjöld Icelandair munu því hækka töluvert meira en þegar er orðið og hafa ollið því að fleiri og fleiri lággjaldaflugfélög sjá sér hag í því að fljúga hingað og taka slaginn við sífellt stirðbusalegri íslenska risann.

Í alþjóðlegu samhengi eru kröfur flugmannanna ekki svo fáránlegar. Eftirspurn er eftir vönum flugmönnum á heimsvísu ekki síður en læknum og nenni menn er einfalt að skrá sig nokkur ár hjá Emirates eða Qatar og fljúga mun nýrri vélum en Icelandair er að nota fyrir helmingi hærri laun. Nýrri vélar þýða minni vinnu fyrir flugmenn.

Ef við tökum þau flugfélög út úr jöfnunni og kíkjum vestur um haf þá voru árslaun flugstjóra hjá stóru flugfélagi þar í landi árið 2012 milli átján og tuttugu milljónir króna samkvæmt lista flugvefsins Fapa.aero sem birt hefur nokkrar kannanir þar að lútandi. Hinir íslensku flugmenn eru í þeim samanburði fjarri því illa launaðir.

Góðu heilli er flóra flugfélaga sem hingað til lands flýgur öllu meiri en hún var áður fyrr og því þurfum við ekki bara að kyngja öllum hugsanlegum hækkunum hjá þessu fyrrum ríkisflugfélagi Íslands. Við höfum valið og miðað við gríðarlegar hækkanir á fargjöldum Icelandair er ekki langt í að þeir verðleggi sig alfarið út af hinum íslenska markaði. Til marks um það nægir forvitnum að skoða hversu mörg „sólarhringstilboð“ Icelandair hefur boðið það sem af er þessu ári samanborið við fyrri ár.