Ó kunnugir á leið um héraðið gætu auðveldlega dregið þá ályktun úr fjarska að smábærinn San Bartholomé de Pinares standi í björtu báli. Eldtungur teygja sig langt til himins og þykkur reykjarmökkur ljær öllu vofeiflegan svip. 

Bálkestir fylla aðalgötu San Bartholomé de Pinares og harðir kappar etja svo hestum sínum linnulítið gegn um allt saman. Mynd David Ramos

Bálkestir fylla aðalgötu San Bartholomé de Pinares og harðir kappar etja svo hestum sínum linnulítið gegn um allt saman. Mynd David Ramos

Þegar nær dregur kemur þó í ljós að hér amar ekkert að enda á sér stað sams konar viðburður hvert einasta ár þann 16. janúar.

Það er þessi smábær í um hundrað kílómetra fjarlægð frá Madrid og í korters keyrslu frá borginni Ávila á Spáni sem er nýjasti vígvöllur dýraverndunarsinna í landinu.

Ástæðan sú að hér er haldin í heiðri 500 ára gömul hefð þess efnis að ríða hörðustu hestum bæjarbúa yfir fimm hunduð metra langan bálköst í aðalgötu bæjarsins. Heimamenn kalla þetta Luminarias.

Þetta þykir töluvert afrek fyrir bæði knapa og hesta því ekki aðeins þarf að vaða hér eld heldur og þykkt reykjakóf sem byrgt getur alla sýn og orðið hesti og knapa að falli ofan í eldhafið.

Dýraverndunarsinnar hafa nýlega uppgötvað þetta litla leyndarmál og gera nú gangskör að því að fá bann lagt á gjörninginn en hafa hingað til ekki fengið ósk sína uppfyllta. Spánverjar láta gamlar hefðir ekki lönd og leið sísona. Engir hestar hafa þó meiðst síðustu árin enda sérstakt eldvarnarefni borið á bæði þá og knapann áður en látið er vaða. Þess utan eru hestar í hávegum hafðir hér og engir asnar fá að taka þátt heldur einungis góðir og gildir heimamenn.

Á hinn bóginn er viðburðurinn farinn að trekkja einn og einn ferðamann þó janúar sé fjarri því að vera spennandi mánuður svo hátt uppi í landi. Rúta fer hér í gegn á leiðinni milli Ávila og Madrid en þar sem viðburðurinn er um kvöldið er engin leið til baka nema koma á bílaleigubíl eða greiða fyrir rándýran leigubíl. Það gæti þó verið þess virði fyrir þá sem gaman hafa af óvenjulegum hefðum. Hér kostar ekkert inn og engum þarf að segja að mikið húllumhæ er á barnum eftir viðburðinn langt fram eftir nóttu. Sömuleiðis er hægt að gera bæinn að síðasta stoppi eftir rúnt að hinum stórkostlega kastala spænska konungsins við El Escorial sem er ómissandi stopp sé fólk í Madrid.