Skip to main content

B lue Mountains, eða Bláfjöll þeirra Jamaíkubúa, er eini fjallgarðurinn á þeirri ey allri en pílagrímsferð þangað er skýlaus krafa fyrir alla þá sem ferðast á þessum slóðum og eða öllum þeim er finnst kaffi gott.

Falleg eru þau Bláfjöllin þar ekki síður en hér. Mynd Pix68

Falleg eru þau Bláfjöllin þar ekki síður en hér. Mynd Pix68

Það er nefninlega í neðri hlíðum Bláfjalla sem það heimsfræga kaffi sem ber sama nafn, Blue Mountain, er ræktað og hver veit nema gestrisnir íbúar fjallaþorpa bjóði þér inni í einn bolla eða svo.

Hægt er að komast langt upp í hlíðar Bláfjalla á ökutækjum en vinsælt er einnig að labba upp á tindanna en þar bíður sjón sem er sögu ríkari því á góðum degi má frá þeim nánast sjá útlínur landsins alls og fróðir segja að ef skyggni er sérstaklega gott má sjá langt í fjarska útlínur Kúbu. Við seljum það þó ekki dýrara en við keyptum.

Við göngu upp í Bláfjöll þó erfið hljómi þarf ekki að óttast 35 stiga hitann sem öllu jöfnu vermir heimamenn því hlíðar Bláfjalla eru skógi vaxnar og þar næstum fullkomið skjól fyrir sól og hita. Hitastigið á tindum Bláfjalla er aðeins kringum 5 gráður að meðaltali. Hæsti tindurinn á fjallgarðinum er tæplega 2.300 metra hár eða nokkuð á pari við okkar eigin Hvannadalshnjúk.

Sé kaffið ekki að heilla er margt annað sem gerir það. Skógurinn hér er stórkostlegur og á köflum í neðri hlíðum er um raunverulegan hitabeltisskóg að ræða. Fjölbreytt dýralíf þrífst í hlíðunum. Meðal annars eru hér heimkynni 500 plöntutegunda sem hvergi finnast annars staðar í heiminum. Þá er dýralíf ekki síður mikið en fara skal þó með gát enda er skógurinn einnig heimkynni slanga og annarra miður skemmtilegra íbúa.

Tæplega 200 ekrur af fjalllendinu er nú þjóðgarður en töluvert hefur verið gengið á skóganna gegnum tíðina, ekki síst af spænskum landnemum sem komu í kjölfar Kólumbusar. Sjálfir hafa heimamenn nútímans ekki látið sitt eftir liggja og skógur á Jamaíka nú aðeins 50 prósent af því sem var í fyrndinni.

Heimamenn sjálfir ganga mikið á tind Bláfjalla og auðvelt er að finna hæfa leiðsögumenn. Þeir vilja þó undantekningarlítið leggja af stað um miðja nótt svo tindinum sé náð þegar sólarupprás hefst. Óhætt að gera ráð fyrir að dagferðin með leiðsögn kosti frá fjögur til átta þúsund krónur.

Fáir hætta sér þó upp hlíðarnar frá maí til desember en þá er rigningatími í landinu og ólgandi lækir og ár geta valdið skriðum hvenær sem er.