Þ að er engum blöðum um það að fletta að þeir eru fáir staðirnir sem betri eru til golfiðkunar en Orlando svæðið í Flórída í Bandaríkjunum. Hafa enda íslenskir kylfingar streymt þangað um árabil og notið veðurblíðu og fantagóðra valla á sæmilegustu kjörum.
Á stór-Orlando svæðinu, í gróflega klukkustundar radíus um borgina sjálfa, eru 22 átján holu golfvellir og ef fullyrða má eitthvað er það að í þeim hópi geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Byrjendavellir eru þó nokkrir og sömuleiðis nógu góðir vellir til að haldin hafi verið á þeim stórmót gegnum tíðina.
Hér fyrir neðan er listi yfir helstu golfvelli á svæðinu. Sumir þessara valla eru einkaklúbbar og inntökugjaldið verulega umfram árslaun forstjóra á Íslandi.
Standi hugur til að spila í Orlandó er ráð að fylgjast með heimasíðum klúbbanna séu þær til staðar enda ekki óalgengt að sértilboð bjóðist þar af og til. Öll verð miðast við gengi krónu gagnvart dollar í mars 2022.
Til umhugsunar: Þrumuveður er mjög algengt í miðhluta Flórída ekki hvað síst yfir sumartímann. Það getur þýtt úrhelli í tíu mínútur eða tveggja tíma stanslausa rigningu. Slíku fylgir mikill fjöldi eldinga og vilja sumir meina að hvergi í heiminum séu fleiri slíkar árlega en þar. Hvort sem það er rétt eður ei er það staðreynd að kylfingar eru í bráðri hættu úti á golfvöllum þegar slíkt veður brestur á og dauðsföll vegna eldinga verða á hverju ári á golfvöllum svæðisins. Gerist slíkt skal koma sér í skjól hið fyrsta og helst innandyra. Tré, ólíkt því sem margir trúa, vernda lítið sem ekkert ef eldingu lýst niður í það eða nálægt.
-
Bay Hill Club & Lodge – Tveir vellir, 18 og 9 holu, en víðsfjarri íslensku veski enda krafa gerð um inntökugjald jafnvel þótt um erlenda gesti sé að ræða. Ársgjaldið tæpar 2 milljónir króna.
-
Boggy Creek Golf Club – 9 holu völlur
-
Country Club of Orlando – 18 holu einkavöllur
-
Cypress Creek Country Club – Hringurinn hér með golfbíl kostar frá sex þúsund krónum. Öllum opinn.
-
Dubsdread Country Club – 18 holu völlur opinn ferðafólki. Vallargjald frá 4700 fyrir eldri borgara til 6700 fyrir yngri kylfinga.
-
Eagle Creek – Einn af nýrri völlum fylkisins og hefur fengið fína dóma. Hringur plús bíll plús hádegisverður frá 8.000 krónum.
-
Eaglewood Golf Club – Almenningsvöllur og því öllum opinn en heimamenn hafa forgang. Hringur frá 3.400 krónum.
-
Eastwood Golf Club – Opinn 18 holu völlur og með þeim ódýrari. Vallargjöld frá 2500 virka daga upp í 6.500 um helgar.
-
Fairways Country Club – 18 holu opinn völlur. Vallargjöld fást niður í 1.900 krónur og allt upp í sjö þúsund.
-
Faldo Golf Institute – Opinn völlur hannaður af Nick Faldo og rekinn í samvinnu við Marriott hótelkeðjuna. Hótelgestir hafa forgang.
-
Reunion Golf Resort – Þrír glæsilegir vellir hannaðir af Watson, Palmer og Nicklaus. Í boði eru margs konar mismunandi golfpakkar til lengri tíma en ráð fyrir gert að menn dvelji á staðnum.
-
Grand Cypress Resort – Fjórir 18 holu vellir og fjórir 9 holu vellir. Ráð fyrir gert að menn dvelji á staðnum og kosta þá átján holur milli 23 þúsund og 26 þúsund.
-
Grande Pines Golf Club – Stórglæsilegur opinn 18 holu völlur og vallargjöld á eðlilegri verðum en gengur og gerist. 18 holur frá 9.000 og uppúr.
-
Hunters Creek – Mjög fínn almenningsvöllur og öllum opinn. Vallargjaldið 6.500 krónur.
-
Lake Nona Golf Club – Lokaður einkaklúbbur.
-
Lake Orlando Golf Club – Opinn og ódýr en góður 18 holu völlur. Vallargjöld frá 3.500 til 5.000 um helgar.
-
MetroWest Golf Club – Þessi var valinn besti golfvöllurinn í Orlando fyrir skömmu og hannaður af Robert Trent Jones. Vallargjöld frá 3.200 og vel uppúr.
-
Orange Tree Golf Club – Lokaður einkaklúbbur.
-
Rio Pinar Golf & Country Club – Flottur klúbbur og einn sá elsti hér um slóðir. Meðlimir hafa forgang en þess utan hægt að ná hring fyrir um 5.000 krónur.
-
Ritz Carlton Golf Club – Flottur Greg Norman völlur en ráð fyrir gert að menn gisti á svæðinu til að geta spilað.
-
Shingle Creek Golf Club – Opinn 18 holu völlur. Vallargjald frá 10 þúsund en lægra eftir því sem líður á daginn.
-
Stoneybrook Golf Club – Opinn 18 holu völlur. Vallargjöldin frá 2.800 til 5.000.
-
Ventura Country Club – Opinn 18 holu völlur.