Orðsending hefur borist þess efnis að Vinnumálastofnun hafi hætt rannsókn sinni á flugfélagi Andra Ingólfssonar, Primera Air, sökum þess að flugfélagið sé ekki lengur rekið frá Íslandi.

Erfiðlega gengur að bóka flug hjá litháska flugfélaginu Primera Air
Ágætt dæmi um óþarfa fjárútlát opinberra stofnana því ár og dagur er síðan Andri flutti flugfélag sitt frá Íslandi með formlegum hætti en um leið lauk allri eftirlitsskyldu hér á landi. Í það minnsta hálft ár og merkileg tilviljun að gera það á sama tíma og flugfélagið er til rannsóknar hjá yfirvöldum vegna meintra brota gegn starfsfólki sínu. Það er hins vegar minna um opinbert eftirlit í Litháen þaðan sem flugrekstur Primera er nú gerður út.
Það breytir ekki því að þetta systurfélag Heimsferða hefur á köflum boðið okkur ágæt tilboð á flugi héðan og út í heim og þar skemmst að minnast 9.900 krónu fargjalda aðra leið til Billund og farangur þar innifalinn.
Þess vegna undrumst við að ekki hefur verið hægt að bóka nein flug á vegum Primera nú í vel rúma viku. Ábending er á vef þeirra um hugsanleg vandræði vegna nýrrar bókunarvélar en það er í allra daprasta kantinum að ekki sé hægt að bóka svo vikum skiptir.







