Skip to main content

Heimur batnandi fer. Gréta lita Thunberg hefur vakið svo marga af þyrnirósarsvefni varðandi hlýnun jarðar að bókanir með lestum í stað flugvéla í Evrópu hafa þrefaldast á þessu ári.

Lestarferðir í Evrópu hafa sjaldan verið vinsælli. Ráð að bóka núna ef slíkar ferðir eru á dagskránni í framtíðinni.

Húha!

Hvern hefði grunað fyrir 24 mánuðum síðan að lítil sænsk stúlka sem tók sér frí frá skóla til að mótmæla hlýnun jarðar og aðgerðaleysi stjórnvalda myndi hafa slík áhrif?

Raunin er þó sú að tugþúsundir hugsandi fólks hafa tekið Grétu ltlu sér til fyrirmyndar og nú, ári síðar, er ásókn í lestarferðir sænskra lestarfyrirtækja með allra mesta móti. Farþegafjöldi sænskra lesta á þessu ári er 30 prósent meiri en nokkru sinni áður og það þrátt fyrir að sænskar lestir fái engin verðlaun fyrir stundvísi. Á sama tíma hefur farþegum í innanlandsflugi í Svíþjóð fækkað um tíu prósent.

Ekki halda að Svíar séu einir um að kveikja á þessari peru eða standa sig best. Á Ítalíu hefur lestarfarþegum fjölgað um 71 prósent það sem af er ári og það á sama tíma og flugfarþegum hefur fækkað um tólf prósent. Sama upp á tening hjá austurríska lestarfyrirtækinu ÖBB sem er eitt stærsta lestarfyrirtæki Evrópu. Þar hefur farþegum fjölgað um 10% án þess að hendi hafi verið veifað þetta árið. Það kann að hljóma ómerkilegt en forsvarsmaður ÖBB hefur sagt í fjölmiðlum að ástæðan sé helst sú að fyrirtækið hafi ekki séð fyrir snarfjölgun farþega. Fyrirtækið sé einfaldlega ekki að anna stóraukinni eftirspurn.

Sól og hiti er alltaf príma fyrir okkur Frónbúa sem erum vön almennum leiðindum í veðrinu svona heilt yfir. En 20 plús stig mánuð eftir mánuð er ekki það sem við viljum heldur.

Þess vegna er þjóðráð að bóka lestarferðir næsta árs núna 🙂