Skip to main content

S trandbærinn Carmel í Kaliforníu er sennilegast ekki mikið á korti ferðamanna frá Íslandi. En fari svo að fólk eigi þar leið um einhverra hluta vegna er þetta sennilegast eini staðurinn í heiminum þar sem færi gefst að gista hjá Clint Eastwood.

Hversu rómantískt er þetta? Eitt húsanna í boði á sveitahóteli Clint Eastwood í Carmel í Kaliforníu

Hversu rómantískt er þetta? Hluti Mission Ranch sveitahótels Clint Eastwood í Carmel í Kaliforníu

Karlinn var á sínum tíma bæjarstjóri Carmel en þar hefur hann búið sjálfur um áraraðir. Hann er að mestu hættur í pólitík, ef frá eru talin leikræn tilþrif með stól á flokkssamkomu Repúblikanaflokksins árið 2012, en hann rekur enn þann dag í dag hótel eitt sérstakt í bænum.

Mission Ranch hótelið þykir sérstakt fyrir margra hluta sakir. Það er eitt örfárra sveitahótela við strönd Kaliforníu þar sem öllu algengara er að sjá stór og mikil sundlaugahótel.

Eastwood keypti eignina þegar til stóð að jafna staðinn við jörðu og byggja blokkir á sínum tíma en þetta er gamalt sveitabýli og eitt fyrsta mjólkurbú sem reist var í Bandaríkjunum var staðsett hér. Lítið safn á hótelinu gerir þessu öllu góð skil.

Sjálft hótelið samanstendur svo af litlum en fallegum sveitahúsum sem hvert er öðru fallegra. Engum sögum fer af því hvort karlinn sjálfur er mikið á vappi enda líklega önnum kafinn við kvikmyndagerð en hver veit.