Skip to main content

F egurð er eðli málsins samkvæmt í augum sjáandans. Það sem einn kallar fegurð getur annar ekki endilega tekið undir. Nema í þeim fáu tilvikum þegar náttúrufegurð er svo stórfengleg að enginn verður ósnortinn. Einn slíkur staður er Sete Cidades á eyjunni São Miguel á Azoreyjum.

Sete Cidades, sem merkir sjö borgir á portúgölsku, er einhver fallegasti gosgígur veraldar en sá finnst í vesturhluta São Miguel eyju sem er stærst þeirra níu eyja sem saman kallast Azoreyjar.

Svona áður en við höldum áfram skulum við kíkja á nokkrar myndir sem ættu að sannfæra hörðustu andstæðinga fegurðar að Sete Cidades er sannarlega perla á heimsmælikvarða.

Sete1

Mynd Joao Campos

Sete 2

Mynd Jorge Casodo

Mynd Worldwanterista

Mynd Worldwanterista

Raunin er að þrátt fyrir að ljósmyndir sýni margt þá næst einhvern veginn ekki í gegn allt það dásamlega sem hér finnst. Með öðrum orðum; hér er enn fallegra í raun en sést á myndum.

Nafnið Sete Cidades er nánast tómt bull og tengist staðnum nánast ekki neitt. Enginn veit með vissu hvaðan það kemur en helstu kenningar gera ráð fyrir að hér hafi blandast saman aldagamlar mýtur portúgalskra sæfara. Gömul saga segir frá sjö prestum í borginni Porto á meginlandi Portúgal sem flýðu til hafs á skipum til að forðast slátrun af hálfu herja múslima sem gerðu óskunda á stórum hluta þess sem nú er Spánn og Portúgal fyrir margt löngu. Áfangastaður prestanna var „eyjurnar í vestri“ sem sjómenn þess tíma fullyrtu að væru til þó engar heimildir finnist um þann fund fyrir þann tíma. En árið 734 lögðu prestarnir á flóttann. Til að gera langa sögu stutta segir sagan að flóttinn hafi tekist og prestarnir sjö skipt áfangastaðnum bróðurlega á milli sín og þannig skapað hinar sjö borgir. Hér ágætt að hafa í huga að cidades merkir ekki borgir samkvæmt eldri latínu heldur lítinn hóp einstaklinga.

Sete Cidades er risastór gígur, alls 110 ferkílómetrar að stærð eða jafnstór og gígurinn sem finnst undir Mýrdalsjökli samkvæmt reikningum vísindamanna. Gígurinn er nánast hringlaga og heillegur og frá botni að toppi getur hæðin náð 400 metrum. Gönguleið er meðfram gígbarminum nánast öllum og að hluta akvegur líka þó vegurinn sá sé lítið meira en slóði og aðeins fyrir betur búna bíla. Gangan tekur um fjórar til fimm klukkustundir ef ekki liggur mikið á.

En það er ekki gígurinn einn og sér sem hefur komið Sete Cidades á kortið. Þar eiga tvö vötn í gígbotninum stóran þátt en þau eru þeim eiginleikum gædd að vera mismunandi að lit. Annað er blátt, lagoa azul, en hitt grænt, lagoa verde. Sagnir herma að litamunurinn skýrist af því að endur fyrir löngu þurfi ástfangið par, prinsessa og fjárhirðir, að skiljast að og harmurinn það mikill að grátur þeirra myndaði vötnin. Prinsessan bláeygð en fátæki hirðirinn græneygður.

Vísindamenn nútímans hlæja að þessu og segja skýringuna ekki einu sinni vísindalega. Litamunurinn skýrist einfaldlega af sólarljósi. Bláa vatnið nýtur miklu meiri sólar en það græna og það veldur muninum.

Vötnin tvö í ofanálag við íðilgrænar grundir skapa þann heillandi heim sem Sete Cidades er. En hér kemur fleira til. Mun fleira.

Til dæmis sú staðreynd að innan stóra gígsins eru aðrir minni gígar, sem allir eru þess virði að skoða líka, og önnur tvö vötn í viðbót við þau litfögru. Og alls staðar er allt grænt og lyngi eða skógi vaxið. Allan ársins hring.

En það er meira.

Á gígbotninum er líka að finna lítið og sætt þorp með um 900 íbúa. Þorpið heitir líka Sete Cidades og merkilegt nokk hefur hér fátt breyst þó gígurinn trekki að hundruð þúsunda ferðamanna árlega. Hér meira að segja erfitt að fá gistingu því hún er af skornum skammti. Jafnvel þó þú fáir herbergi hefurðu aðeins um tvo litla veitingastaði um að velja ef þú vilt fá mat í malla. Ekki er heldur neikvætt að hér stunda menn einnig ræktun af ýmsu tagi meðfram vötnunum tveimur.

Eitt kannski stingur í augu hér. Við einn allra besta útsýnisstaðinn yfir gíginn, Vista do Rei, er að finna leifar fimm stjörnu hótels sem hér var reist á hreint mögnuðum stað fyrir tæpum 40 árum. Hótelið var þó aðeins rekið í tæp tíu ár áður en starfsemi var hætt og nú er það ljótur blettur á annars gullfallegum stað.

Fjölmargir ferðaþjónustuaðilar bjóða hingað túra sem jafnan taka hálfan dag. Enn aðrir bjóða gönguferðir með leiðsögn sem taka undantekningarlaust heilan dag. Gönguleiðir hér eru margar og vel merktar en hafa skal í huga að þó sólin skíni linnilaust þá er efri hluti gígsins í töluverðri hæð og hér alltaf mun kaldara og blautara en gerist niðri á láglendi. Það aftur þýðir að stígar geta orðið drullusvað á skömmum tíma og ágætt að hafa í huga.

Fararheill lét reyna á þjónustu þriggja aðila sem ferðir bjóða til Sete Cidades. Fremstur jafningja í þeim flokki reyndist Pure Azores. Sá fór bæði óhefðbundar leiðir sem hinir buðu ekki og var meiri hafsjór af fróðleik um menn, málefni og móður náttúru en hinir aðilarnir. Fararheill hikar ekki við að mæla með þeim ef fólk finnur sig hér um slóðir.