G etur það verið satt að fólk geti lifað allgóðu lífi og sparað tugþúsundir króna í mat með því einu að drekka áfengi og það tvisvar til þrisvar hvern einasta dag?

Dæmigert tapa á bar í Almeríu á Spáni. Einn stór bjór og glas af hvítvíni. Með koma frítt tvær samlokur kjaftfullar af kjöti og góðgæti. Slíkt eðlilegt á þessum slóðum.

Þó farið hafi batnandi síðustu árin er áfengisdrykkja heimavið oftar en ekki litin hornauga. Í siðuðum löndum þykir hins vegar alls eðlilegt að „fá sér” reglulega yfir daginn og skiptir þá engu hvort það er laugardagur eða mánudagur. Munurinn kannski sá að í siðuðum löndum drekkur fólk sjaldan frá sér vit, rænu og innihaldið í veskinu með eins og í sumum löndum sem við þekkjum 😉

Fyrir fimmtán árum síðan veðjaði erlendur skólafélagi eins úr ritstjórn um að hver sem er gæti dvalið í Almeríu á Spáni í vikutíma hið minnsta án þess að draga einu sinni upp veskið til að borga fyrir mat.

Það hljómar spennandi áskorun. Hvar er hægt að lifa og njóta án þess að punga duglega út fyrir mat?

Jú, reyndin sú að í þeim hluta Andalúsíu sem tilheyrir Almeríu, austast í því héraði, er að finna eina hérað Spánar þar sem tapa, smáréttur, kemur með ÖLLUM ÁFENGUM DRYKKJUM, og það alls ókeypis. Við hér að tala um alvöru mat eða smárétti sem eru það stórir og veigamiklir að lítil þörf er á að planta rassi á sérstökum veitingastað svo lengi sem fólk fær sér reglulega bjór, vín eða eitthvað sterkara á næsta bar.

Með einum litlum bjór í borginni El Ejido sem tilheyrir Almeríu-héraði fylgdu fjórar nýveiddar steiktar rækjur og brauð með án kostnaðar.

Við létum á þetta reyna fyrir nokkru síðan og skemmst frá að segja að veðmálið tapaðist. Það er raunverulega hægt að dúllast í Almeríu og fá vel í svanginn án þess að gera nokkuð annað en fá sér rautt, hvítt eða bjór þrisvar til fjórum sinnum yfir daginn.

Í hvert skipti var í boði að fá smárétt með áfenginu og það sem meira var; í öllum tilvikum var smáréttamatseðill á borðum og fólk gat valið hvers kyns ókeypis smárétt það vildi með hvítvíninu. Mun Almeríu-héraðið það eina á Spáni þar sem smáréttir eru ekki aðeins ókeypis og vel útilátnir heldur og hefur fólk val um rétti. Þykir það mikil hneisa á þessum slóðum ef fríir smáréttirnir eru ekki fyrsta flokks og sá bar endist ekki lengi í bisness.

Ekki svo að skilja að þetta virki nema fólk sé þokkalega í réttri þyngd því ef ekki þarf mun meira til að fylla mallakút en ella. En ef landinn er á þvælingi um Almeríu og nágrenni er vel hægt að lifa til fulls án þess að stíga eitt skref inn á veitingahús eða kokka heimavið 🙂

PS: einhver gæti haldið að þar sem ágætlega útilátnir réttir fylgja með áfengi á þessum slóðum að þeir séu dýrari fyrir vikið. Ekki svo. Algengt verð fyrir lítinn bjór er 250 krónur og 400 krónur fyrir hálfan lítra. Verð á vínum fer eftir aldri og gæðum eins og gefur að skilja 😉