Skip to main content

Það er hryggilegra en orð fá lýst að síðasta uppistandandi undrið af sjö undrum veraldar, Píramídarnir í Gaza, eru farnir að láta það verulega á sjá að fræðingar margir spá að með áframhaldandi ágangi manna og almennrar loftmengunar í Egyptalandi sé aðeins tímaspursmál áður en alvarlega fer að hrynja úr þeim.

Milljónir á milljónir ofan sækja Taj Mahal heim árlega og sá fjöldi skapar vandamál.

Milljónir á milljónir ofan sækja Taj Mahal heim árlega og sá fjöldi skapar vandamál.

Illu heilli eru Píramídarnir mikilfenglegu er ekki það eina sem mannkynið er að missa úr höndum sér. Hér eru fimm staðir á jörðinni sem ekki er víst að menn fái notið mikið lengur en orðið er.

 • Píramídarnir í Gaza
  • Það kann að hljóma fáránlega að heyra að Píramídarnir séu í útrýmingarhættu en leggja má efasemdir um slíkt til hvílu með því að benda á að sex undur af sjö alls eru fyrir löngu horfin og tilvist þeirra aðeins til á myndum og gömlum skjölum. Lengi hefur fallið úr Píramídunum og Sfinxinn hefur látið mjög á sjá um árabil. En nú hyggjast borgaryfirvöld í Kaíró bæta nýrri hraðbraut við vegakerfi sitt og sú hraðbraut er í næsta nágrenni við Píramídana. Sannað er að loftmengun sem er þegar mikil í landinu hefur umtalsverð áhrif og stóraukin bílaumferð til viðbótar mun hafa frekari áhrif. Ekki aðeins er umferðin að færast nær heldur byggð líka og virðast borgaryfirvöld ekki geta takmarkað þá þróun. Skólp og úrgangur frá þeim bæjarhluta fellur mikið til niður í jarðveginn sem svo vætlar undir sandana sem Píramídarnir sitja á. Þess utan er umgangur sífellt fleiri ferðamanna og sölumanna kringum þá ekki takmarkaður með neinum hætti.
 • Versalir í Frakklandi
  • Lítil hætta er á að Versalir per se fari fjandans til á næstunni en stærsti sjarmi þessa sögufræga staðar; garðarnir stórkostlegu er annað mál. Vegna þess að Versalir er byggt á mýri geta tré og runnar ekki skotið rótum sínum nógu langt niður og það þarf ekki mikið óveður til að feykja mörg hundrað ára gömlum trjám burt eins og eldspýtum. Það var einmitt það sem gerðist síðast með alverlegum hætti árið 1999 þegar stormur stórskemmdi bygginguna sjálfa og reif upp tugi gamalla trjáa með rótum. Næsti alvarlegi stormur mun gera slíkt hið sama.
 • Babylon í Írak
  • Þær minjar sem enn standa um hina merkilegu fornu borg Babylon eru að hverfa og hafa orðið fyrir gríðarlegum skemmdum eftir innrás Bandaríkjamanna í landið árið 2002. Þessi mikla söguborg þar sem Hammurabi meðal annarra réði ríkjum lengi og þar sem fyrstu lög mannkyns voru skrásett hefur ekki hlotið sérstakan virðingarsess þeirra stríðandi afla sem í Írak eru eða voru. Ekki aðeins gat bandaríski herinn ekki fundið annan stað fyrir þyrlupalla en ofan á minjunum heldur hafa bandarískir hermenn og heimamenn reyndar líka farið um ránshendi um það sem hægt hefur verið að taka með sér.
 • Galapagoseyjar
  • Fæðingastaður Þróunarkenningar Darwins er heimsþekktur og voru eyjurnar lengi vel ein af örfáum perlum heims sem voru ósnertar. Ekki lengur. Þrátt fyrir miklar tilraunir yfirvalda í Ekvador að takmarka aðgang að eyjunum tekst það illa og fer bæði fjölgandi ferðamönnum sem og einnig þeim er setjast að á eyjunum. Ferðamenn hafa komið með aðskotadýr sem hafa illvænleg áhrif á alla flóru eyjanna og þykir sýnt að staðan geti aðeins versnað og að eyjarnar verði ekki mikið lengur svo einstakar eins og þær hafa verið um aldahríð.
 • Taj Mahal
  • Ekki í útrýmingarhættu í því tilliti en fjórar gjaldskrárhækkanir hafa orðið á tveimur árum en það sér ekki högg á vatni þegar kemur að fjölda ferðamanna sem heimsækja þetta einstaka indverska musteri og grafhýsi. Sex milljónir manna sóttu staðinn heim 2018 og sá fjöldi er einfaldlega allt of mikill að mati indverskra stjórnvalda. Íhuga þau að loka musterinu og verður því aðeins hægt að sjá Taj Mahal utanfrá í framtíðinni ef þau áform ganga eftir.