[orbit]

Sitt sýnist hverjum hvaða golfvellir þykja bestir og fer oft æði mikið eftir gengi viðkomandi kylfings á viðkomandi velli. Gangi framar vonum fer sá völlur sjálfkrafa í toppsæti.

Það er því pínulítið erfitt að slá föstu hvaða golfvellir eru bestir eða verstir hér og þar um heiminn. Dálítið eins og veitingastaðir. Það sem einum líkar finnst öðrum miður og hefur auðvitað með smekk að gera.

Okkur datt í hug, svona með síauknum áhuga Íslendinga á golfi erlendis og þá helst á Spáni, að ekki væri úr vegi að lista þá tíu sem bestir þykja þar í landi.

Það reyndar flóknara en virðist í fyrstu sökum þess að tugir aðila birta slíka lista árlega og þeir með mismunandi kröfur eða viðmið.

Engu að síður eru þetta tólf til fimmtán vellir á Spáni sem komast nánast alltaf á topp tíu lista golfspekinga og það eru þeir sem eru listaðir hér að neðan. Við drógum sem sagt saman niðurstöður aðila á borð við Golf Digest, Golf Week, Golf.com og fleiri til að fá eftirtalinn lista.

Hér eru því tíu bestu vellirnir á Spáni og verð á mann per hring miðað við gengi í september 2016.

[sociallocker id=233949628]♥  Valderrama, Sotogrande, Cádiz – Ekki kallaður hinn evrópski Augusta fyrir ekki neitt. Fokdýr einkaklúbbur sem þó gefur áhugamönnum tækifæri að spila þar annars lagið. Hér fara reglulega fram sterk spænsk mót auk Volvo Masters á evrópsku mótaröðinni. Þá er enn talað um Ryder keppnina hér 1997 sem sannarlega fór í sögubækurnar. Punga þarf út 49 þúsund krónum fyrir hringinn hér og panta með góðum fyrirvara. Heimasíðan.

♥  PGA Golf de Catalunya, Malavella, Girona – Í tæplega 50 mínútna fjarlægð frá Barcelóna og spottakorn frá flugvellinum í Girona er þessi völlur sem sannarlega verður betri með hverju árinu. Ástæðan sú að hann er í eigu og rekinn af evrópsku mótaröðinni sem vildu byggja upp sinn eigin keppnisvöll. Kostnaður við hring ekki svo ýkja mikill miðað við marga aðra velli eða 13.380 krónur. Heimasíðan.

♥  Sotogrande, Sotogrande, Cádiz – Þessi magnaði völlur er að heita gengt Valderrama vellinum í hæðum Cádiz héraðs. Byggður fyrir 40 árum og hefur alla tíð verið fyrsta flokks á alla lund. Þetta var fyrsti evrópski völlurinn sem hinn virti golfvallahönnuður Robert Trent Jones hannaði og hefur alla tíð kallað vígvöll enda byggður þannig að sækja þarf verulega til að ná góðu skori. Hringurinn á 26.430 krónur. Heimasíðan.

♥  Real Sociedad Hípica Española, San Sebastián, Madrid – Besti golfvöllurinn sem finnst við höfuðborgina er þessi hér fyrir norðan Madríd. Einn af elstu golfvöllum Spánar byggður 1901. Hér eru reyndar tveir vellir, norður og suður, en norðurvöllurinn þykir bera af. Þessi völlur er aðeins fyrir félagsmenn og gesti þeirra. Heimasíðan.

♥  El Saler, El Saler, Comunidad de Valencia – Þessi ágæti völlur við ströndina í El Saler var árið 1968 þegar hann var opnaður talinn sá allra flottasti í Evrópu. Aðeins hefur dregið úr slíkum upphrópunum en hann er engu að síður í röð bestu golfvalla álfunnar og þótt víðar væri leitað. Ekki skemmir að hann er staðsettur í friðlandi með útsýn til hafs og þykir bölvanlega erfiður. Hringurinn á 14.041 krónu. Heimasíðan.

♥  Golf Santander, Boadilla de Monte, Madrid – Einn nýjasti völlur Spánar er Golf Santander sem tengist borginni Santander ekki neitt heldur vísar til bankans spænska. Ballesteros hannaði þennan ofan á gömlum ruslahaugum í tíu mínútna fjarlægð frá Madríd og þykir hafa tekist stórkostlega til. Er þetta einn lengsti golfvöllur landsins. Hringurinn á 18.171 krónu. Heimasíðan.

♥  Las Brisas, Marbella, Málaga – Golfvallahönnuðurinn Robert Trent Jones var ekki fyrr búinn að ljúka við Sotogrande fyrr en hann hóf hönnun þessa vallar. Þykir Las Brisas fremstur jafningja af öllum þeim aragrúa golfvalla sem liggja nálægt ströndum Costa del Sol eða Costa del Golf eins og gárungarnir kalla svæðið. Einn einasti hringur hér tæmir veskið um 27.256 krónur. Heimasíðan.

♥  Real Club Puerta de Hierro, Madrid, Madrid – Þeir eru ekki margir golfvellirnir sem finna má inni í borgum á Spáni en hér er einn slíkur ekki langt frá Barajas flugvelli. Einn elsti völlur landsins frá árinu 1904 og kemur vart á óvart að hér spila aðeins félagsmenn og gestir þeirra. Heimasíðan.

♥  La Reserva, Sotogrande, Cádiz – Örskammt frá hinum heimsklassa Valderrama og Sotogrande völlum er þessi hér sem var byggður árið 2005 en fyrir mikla peninga og er því strax kominn í hóp þeirra bestu. Margir telja reyndar að hann sé svo góður að hér eigi að halda stórmót. Verið er að byggja annan völl á sama stað undir sama nafni. Prís fyrir hring 26.430 krónur. Heimasíðan.

♥  Real Club de Golf Sevilla, Sevilla, Andalucia – Konunglegi golfvöllurinn í Sevilla þykir einn af þeim allra bestu en hann var hannaður af Jose Maria Olazabal. Hér hefur Opna spænska meistaramótið tvívegis farið fram og 2004 var hér vettvangur World Golf Championship. Kostnaður við hring þó aðeins 12.224 krónur. Heimasíðan.[/sociallocker]


View Bestu golfvellir Spánar 2014 in a larger map