Skip to main content

V elflestir áhugamenn um göngur og útivist, ekki síst þeir sem eru trúarlega þenkjandi, þekkja mætavel hina frægu Pílagrímaleið til Santiago á Spáni. Líklega öllu færri vita að sams konar leið liggur um Danmörk, Svíþjóð og Noreg til Þrándheims.

Ganga í Noregi er góð hugmynd og landslagið ekki síðra en hér á Fróni

Ganga í Noregi er góð hugmynd og landslagið ekki síðra en hér á Fróni

Þar er vitaskuld um að ræða veg Ólafs helga Haraldssonar, Ólafs digra, sem tókst að sameina Noreg á sínum tíma með samningum en þó aðallega orrustum og var í kjölfarið konungur landsins.

Skömmu eftir lát Ólafs 1030 var karlinn kanóníseraður sem verndardýrlingur og í næstu aldir á eftir kom fólk langar leiðir frá Evrópu til Niðaróss, Þrándheims, til að leita aðstoðar og hylla hinn fallna dýrling. Var þessi pílagrímaleið ekki síður vinsæl en vegur Jakobs til Santiago á Spáni, Rómar á Ítalíu og síðast en ekki síst pílagrímaleiðin til Jerúsalem.

Eftir siðaskiptin 1537 bannaði lúterska kirkjan pílagrímaferðir um Noreg en nú á dögum er annað hljóð í strokknum og pílagrímaleiðin til Þrándheims er smám saman að verða ein af vinsælli gönguleiðum um Noreg.

Tæknilega séð er Vegur Ólafs í heild um fimm þúsund kílómetrar gegnum Danmörku, Svíþjóð og frá Osló til Þrándheims en sú leið sem nútímamenn taka flestir eru 640 kílómetra gangan frá Osló. Ólíkt því sem gerist á hinni vinsælu pílagrímaleið til Santiago á Spáni þar sem ólíklegt er að fólk spásseri lengi eitt og yfirgefið enda telur göngufólk þar tugi eða hundruð þúsunda árlega er líklegra að fólk þrammi lengi vel í Noregi án þess að sjái annað en guðsgræna náttúruna. Er þó vegur Ólafs vinsælli ár frá ári.

Sú leið, sjá kort að neðan, sneiðir að mestu leyti hjá þéttbýli eða vegum en hvoru tveggja er þó hvergi í mikilli fjarlægð fái þrammarar nóg af göngu sinni eða lendi í vandræðum.

Sérstakt norskt pílagrímasetur, Pilegrimsleden í Þrándheimi, veitir helstu upplýsingar um ferðina sem vitaskuld þarf að undirbúa vel en túrinn frá Osló tekur vart minna en tvær til þrjár vikur fyrir harðasta göngufólk og vel yfir einn mánuð hjá þeim sem fara þetta í hægðum sínum. Er þá miðað við að gengið sé yfir sumartímann en snjór og válynd veður geta lengt tímann til muna á veturna.

Auðvelt er að reikna að sé rólega farið yfir næst að fara þetta 15 til 20 kílómetra á dag meðan þeir sem skamman hafa tímann og eru í góðu formi ganga linnulaust 30 til 40 kílómetra hvern einasta dag.

Á leiðinni er töluvert um gististaði og sumir taka eingöngu við göngufólki en annars staðar verður að gista í tjöldum ellegar koma sér í næsta bæ og vera á gistiheimili eða hóteli. Fyrir Íslendinga, með sína lömuðu krónu, er þetta ferðalag skrambi dýrt enda verður gisting vart ódýrari en átta til tíu þúsund krónur og vel þurfa menn að mettast á leiðinni. Talið er ekki fjarri lagi að pílagrímsleiðin til Santiago kosti meðalgöngumanninn um 300 þúsund krónur að lágmarki. Hér má auðveldlega bæta hundrað þúsund krónum í þann pakka.

Best er að ganga Ólafsleiðina yfir sumarmánuðina og allra best að miða ferðina við að koma til Þrándheims í lok júlí þegar árleg Ólafshátíð fer þar fram.


View Ólafsvegur til Þrándheims in a larger map