Skip to main content

Ó kunnum bregður oftast nokkuð við séu þeir á vappi um borgina Chicago ákveðin kvöld yfir sumartímann. Upp úr þurru, að því er virðist, upphefst æði glæsileg flugeldasýning eins og ekkert sé eðlilegra. Fáir nokkru nær um hverju sé verið að fagna.

Kostuleg sýning og rómantísk í leiðinni. Mynd Aurimas

Kostuleg sýning og rómantísk í leiðinni. Mynd Aurimas

En þar liggur hundurinn grafinn. Það er ekki verið að fagna neinu sérstöku öðru en lífinu í borginni.

Sjáið til, borgaryfirvöld punga út fyrir dágóðri flugeldasýningu tvisvar sinnum í viku allt sumarið í Chicago. Upphaflega til að trekkja að og heilla ferðafólk en uppátækið vakti ekki lítið viðbrögð borgarbúa sjálfra og þetta nú fastur liður tvisvar í viku hverri yfir sumartímann.

Sjónarspilið fer fram klukkan 09:30 á miðvikudagskvöldum og aftur klukkan 10:30 á laugardagskvöldum. Sýningin stendur ekki lengi í hvert sinn, fáeinar mínútur í besta falli, en það er ekki verið að skjóta einhverjum Rúmfatalagersrakettum heldur.

Reyndar eru smá ýkjur að sýninguna megi sjá og heyra um alla borg. Best er og vænlegast að koma sér fyrir við bakka Michigan vatns en flugeldunum er skotið á loft við eina þekktustu bryggju við vatnið: Navy Pier. Eðli málsins samkvæmt er því langbesta útsýnið frá vatninu sjálfu og einir átta aðilar bjóða „rómantískar“ kvöldferðir kringum þann tíma sem sýningin varir.

Eins og flugeldasýningin ein og sér sé ekki nóg þá bæta menn hér um betur. Flugeldasýningin er nefninlega listaviðburður í leiðinni. Það helgast af því að hér skjóta menn ekki upp í loftið og láta duga. Ekki aldeilis. Flugeldasýningin er samtvinnuð við hin ýmsu klassísku tónverk í þokkabót og stórir og miklir hátalarar við vatnið duga til að flestir hverjir í grennd eiga að geta greint og notið.

Algjörlega ómissandi sé einhver á leið til Chicago. Ef flugeldasýningar eru sérstakt áhugamál einhvers þarna úti er kannski vert að vita að útsýn frá Four Seasons hótelinu hér í borg er einstakt útsýni yfir vatnið og þar með sýningarnar enda það hótel staðsett á hæðum 30 til 46 í einu af háhýsum borgarinnar.

Fyrir ókunnuga er Navy Pier einn allra vinsælasti staður borgarbúa og þar krökkt að gera fyrir alla fjölskylduna. Fjölmargir veitingastaðir og verslanir og tívolí er rekið hér yfir sumartímann líka. Þá er hér stórt Parísarhjól þaðan sem útsýni er allfínt fyrir þá sem ekki vilja sigla út á vatn.