Skip to main content

R æddu við Skota og hann hoppar hæð sína í herklæðum og pilsi og jánkar eins og óður maður. En spurðu líka heimamann handan landamæranna í Englandi og sá mun kjammsa um hríð áður en hann tekur nokkurn veginn undir.

Fallegur staður en er hann sá fallegasti?

Fallegur staður en er hann sá fallegasti?

Spurningin sem hér um ræðir varðar það hvort Scott´s View er virkilega einn fallegasti staður í öllu Bretlandi.

Á þeirri skoðun eru ansi margir og þeirra á meðal skoska þjóðhetjan Walter Scott sem þó lítt sé kunnur á klakanum var eitt allra þekktasta og vinsælasta skáld Skota og naut skáldskapur hans vinsælda víðar en það.

Ákveðinn staður á hæð einni við landamæri Skotlands og Englands ber nafn Scott þessa sökum þess að hann taldi víst að fegurri útsýn en þaðan væri ekki að finna í Bretlandi öllu.

Um það má deila en eins og myndin ber með sér er alveg óhætt að doka við hér á leið um svæðið því vissulega er fallegt yfir að líta. Hér dvaldi skáldið lon og don á sínum tíma og þjóðernissinnaðir Skotar fljótir að eigna honum hæðina og útsýnið með.

Svona fyrir þá sem ekki finnst mikið til koma þá er ekki langt í næstu viskíverksmiðju héðan en sagan sannar að sá mjöður hjálpar til að gera bæði hluti og manneskjur fallegri en ella.