Ekki er svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott. Sökum húrrandi tapreksturs og vitleysisháttar eigenda Icelandair fyrir Hrunið gat flugfélagið ekki greitt og tekið á móti fjórum glænýjum Dreamliner þotum frá Boeing einna fyrst allra flugfélaga. Þá væri fyrirtækið aldeilis í slæmum málum í dag.

Vandi Boeing varðandi Dreamliner vélarnar er ekki auðleystur sökum þess að öll vélin er hönnuð kringum rafkerfi sem hafa verið að gefa sig.
Allar slíkar vélar Boeing hafa nú verið kyrrsettar alls staðar í veröldinni vegna vandamála sem virðast af misjöfnum toga en tengjast líklega allar sama vandanum. Hiti frá rafgeymum veldur íkveikju eða straumrofi í rafkerfi vélarinnar. Sá vandi Boeing er risastór og ekki einfalt að leysa hann.
Þrjár greinar í Al Jazeera, Spiegel og L.A. Times fjalla ítarlega um hvað vandamálið er og niðurstaðan er rafhlöðukerfi Dreamliner vélarinnar.
Öll bygging og hönnun vélarinnar veltur á að henni sé hægt að fljúga með rafeindastýringu í stað vökvastýringu. Þannig eru flestir mikilvægir stýrihlutar Dreamliner rafrænt keyrðir í stað þess að nota vökvastýrð kerfi eins og í hefðbundum þotum.
Slíkt þýðir auðvitað að mikið meira rafmagn þarf til í Dreamliner en öðrum þotum og auðvitað öflug varaaflskerfi þar sem rafkerfi gefa sig almennt auðveldar en vökvakerfi. Það þýðir að um alla vél Boeing eru risastórir lithíum rafgeymar um alla vél eða sams konar tegund af rahlöðum við notum í símana okkar og fartölvur en auðvitað margfalt stærri.
Þetta er fyrsta og eina þotan sem notar slíka lithíum-rafmagnsgeyma til að keyra flest mikilvægustu rafeindatæki vélarinnar þrátt fyrir að reynslan af slíkum rafgeymum sé almennt slæm. Þeir hitna mun meira en hinir venjulegu og þrátt fyrir ýmsar tilraunir með slíka geyma, meðal annars við hönnun Airbus A380 júmbóvélarinnar, hefur niðurstaðan alltaf hingað til verið að áhættan sé einfaldlega of mikil.
Niðurstaða fræðinga sem blöðin ræða við vegna málsins er að annaðhvort finna verkfræðingar Boeing lausn í hvelli sem þeir fundu ekki á löngu hönnunar- og reynsluferli Dreamliner eða að endurhanna þarf vélina frá grunni. Það yrði gríðarlegt áfall fyrir þennan virta flugvélaframleiðanda.






