Skip to main content

H undrað prósent óhætt er að fullyrða að þau ykkar sem aldrei hefur dottið í hug að skoða aðra staði á Spáni en þessa hefðbundnu vinsælu strandstaði eru að missa af töluvert miklu. Spánn er æði stórt land og norðurhluti þess sirka sex hundruð prósent fallegri en allar þessar ljúfu sandstrendur til suðurs og vesturs. 

Útsýn af teig fjögur á hinum hreint ágæta Real Golf de Pedrena við Santander á Spáni. Hér lærði Seve Ballesteros golf með því að sníkjast inn á völlinn að kvöldlagi mánuðum saman.

Eins og lesa má um hér er Baskaland Spánar og reyndar norðurströndin öll í töluverðu uppáhaldi skrifara hjá Fararheill. Skýringin sú að öll þrjú sem hér skrifa að jafnaði hafa eytt tíma í norðurhluta Spánar og öll bera því svæði öllu frábæra sögu. Fimm stjörnu náttúrufegurð, fimm stjörnu veitingahús, fimm stjörnu hitastig og fimm stjörnu gestrisni.

Ekki þar með sagt að Baskar séu sérstaklega vinalegir. Þvert á móti, þeir eru erfiðari en gíraffi með hálsríg almennt en ef þú kemst með félagslegan fót inn um dyrnar hjá þeim ertu kominn í besta félagsskap heims. Þá færðu fyrirvaralaust boð um hitting hér og þar á mögnuðum veitingastöðum þar sem ekki sést tangur né tetur af öðrum en heimamönnum. Með öðrum orðum, fá gestir nasaþef af stórkostlegri matargerð og veisluhaldi heimamanna. Nasaþef sem enginn ferðamaður finnur gegnum Google. Og jafnvel þó við heitum ekki Þór eða Freyja, úr heimsþekktri goðafræðinni, þykir Böskum landinn barasta töluvert forvitnilegur 🙂

Grínið á áttundu á Real Golf de Padrea. Völlurinn príma og útsýnið skemmir aldrei.

Nóg um það. Einn úr ritstjórn spilar golf og hefur gaman af þó seint hljóti sá verðlaun. Sá fúll á móti í meira lagi eftir að hafa dvalið lengi í og við borgina Santander án þess að átta sig á að það var nákvæmlega í Santander sem goðsögnin Seve Ballesteros lærði golf og komst í bækur í þeirri íþróttinni. Nánar tiltekið á golfvellinum Real Golf de Padreña en sá golfvöllur stendur hátt beint yfir flóann við borgina sjálfa.

Haustið 2019 fór sá aftur á þessar slóðir eftir nokkurra ára hlé og lét ekki hjá líða að taka hring á sama velli og hinn ódauðlegi Seve Ballesteros þurfti að svindla sér inná í skjóli nætur til að æfa sig í sportinu. Hann var jú aðeins þriðji sonurinn í bláfátækri fjölskyldu sem bjó í nágrenninu og á þeim tíma þegar hann náði álnum var golf einungis á færi vellauðugra plebba.

Það er fokdýrt að spila Real Golf de Padreña. Gerðu ráð fyrir að henda 20 þúsund krónum í hring að vor- eða sumarlagi. Sem er töluvert umfram það sem það kostar að spila velli sunnar í landinu svona almennt. En þá má ekki gleyma að einn allra fremsti kylfingur heims og einn sá allra skemmtilegasti að auki, lærði allt sitt á þessum sömu brautum.

Ómissandi stopp ef íslenskir kylfingar eru á ferð um norðurhluta Spánar 🙂