Skip to main content

Fræðingar segja okkur að búið sé að lagfæra allt það sem aflaga fór við hönnun og smíði Max-véla Boeing og þær muni fljúga á ný kringum næstu áramót. Gott og blessað en mörgum okkar hryllir við að fljúga með þessum vélum og Icelandair á þrjár slíkar. Hvergi á bókunarvef þeirra kemur fram hvers lags rella er í boði hverju sinni.

Boeing Max vélar Icelandair flottar og fínar en ekki allir vilja fljúga með þeim. Mynd Icelandair

Góð þjónusta aldrei verið aðalsmerki Icelandair og allra síst nú þegar búið er að segja upp Jóni og Gullu sem unnið hafa hjá fyrirtækinu síðan Kalda stríðið hófst. Við hafa tekið lágt launaðir Indverjar og Filipsseyingar og aðrir erlendir aðilar sem kunna að svara síma og geta stunið á ensku.

Sem merkir að hver sá sem bókar flug með Icelandair frá og með næstu áramótum, þarf eiginlega bara að vona hið besta ef ekki er vilji til að fljúga með þessum snargölluðu rellum Boeing.

Við hér höfum eytt töluverðum tíma að kanna flug með Icelandair langt fram í tímann gegnum bókunarvél flugfélagsins til hinna ýmsu áfangastaða og einu gildir hvert er farið eða hvenær; aldrei liggur skýrt fyrir með hvers lags vél er flogið.

Sem er risastór mínus. Eftir tvö hræðileg flugslys sem drógu fleiri hundruð manns til dauða eru alls ekkert allir hrifnir af því að fljúga með Boeing Max. Traustið er ekkert og gildir einu hvað fræðingar segja.

Það væri því pínulítið gáfulegt hjá Icelandair að tiltaka við bókun hvers lags rella flýgur í það og það skiptið. Þannig getur fólk breytt dagsetningu eða jafnvel áfangastað ef traustið á Boeing Max er ekkert.

PS: Það eru tvær leiðir til að ganga úr skugga um að EKKI sé flogið með Boeing Max Icelandair, eða öðrum flugfélögum sem brúka Max, og sýna engan lit. Annars vegar með því að skoða Google Flight, sem tiltekur flugvélategundina í hvert skipti fyrir hvert flug. Hins vegar með því að afrita flugvélarnúmerið, FI450 til dæmis, og leita á Google. Þá fást umsvifalaust upplýsingar um flugvélategundina sem um ræðir.

Góða ferð 🙂